Málefni einhverfra

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:02:31 (4899)

1996-04-17 15:02:31# 120. lþ. 120.8 fundur 419. mál: #A málefni einhverfra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin sem mér fannst vera góð og skynsamleg og ég þakka einnig hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir góðar undirtektir við málið.

Ég hef ekkert að athuga við það sem fram kom í ræðu ráðherrans nema kannski tvennt. Í fyrsta lagi heyrist mér á öllu að skýrsla nefndarinnar sé þannig að það sé hægt að fara í að vinna eftir henni núna og það þurfi kannski ekki endilega að senda hana til meðferðar nefndarinnar sem er að endurskoða lögin um málefni fatlaðra. Ég vil gjarnan að það sé tekið heildstætt á málum af þessu tagi en ég óttast að ef þessi skýrsla færi í hendurnar á þeirri nefnd, þá yrði ekki tekið á vandamálinu með þeim hætti sem ég held að þurfi að gera. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir benti á að hér er um að ræða einstaklingsbundin vandamál sem í fyrsta lagi liggja fyrir en í öðru lagi er ljóst að þarf að fara í að greina hvort eru til þannig að hér er kannski ekki um það að ræða að menn þurfi að taka á þessum verkefnum þannig að hér sé um að ræða hóp sem er allur eins. Vandinn við þessa fötlun er fyrst og fremst sá að einstaklingarir eru svo mismunandi og vandinn svo mismunandi að það gengur engin ein reglustika á þá alla eins og þeir þekkja sem hafa kynnst þessari fötlun. Þess vegna mundi ég vilja leggja á það áherslu við hæstv. ráðherra að farið yrði í verkið á grundvelli tillagna nefndarinnar, en ekki beðið með að fjalla um málið í tenglsum við endurskoðun laganna um málefni fatlaðra þó að það sé auðvitað sjálfsagt að hafa veður af þeirri endurskoðun líka.