Framleiðsla rafmagns með olíu

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:24:51 (4907)

1996-04-17 15:24:51# 120. lþ. 120.10 fundur 414. mál: #A framleiðsla rafmagns með olíu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:24]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur borið fram til mín fyrirspurn á þskj. 738 um framleiðslu rafmagns með olíu. Spurningin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hverju sætir það að rafmagn er framleitt með innfluttri olíu á meðan Blönduvirkjun er vannýtt?``

Ég ætla að halda mig einvörðungu við efni fyrirspurnarinnar, en hv. þm. gerði skipulag orkumálanna að umtalsefni sem ég væri þá líka tilbúinn síðar að svara fyrir en í þeim efnum er að fara af stað vinna á vegum iðnrn.

Á sl. ári voru framleiddar um 8.433 mwst. af raforku í olíustöðvum eða um 0,17% af raforkunni sem unnin var hér á landi það ár. Yfirgnæfandi hluti þeirrar raforku sem unninn var með olíu á sl. ári var vegna bilana í flutningskerfinu, einkum í óveðrum í janúar og október á því ári. Fáeinir bæir og eyjar eru ekki tengdar raforkukerfinu og þar er olía yfirleitt notuð til að framleiða rafmagn. Í Grímsey og Flatey á Breiðafirði voru t.d. framleiddar af þessum 8.433 877 mwst. á sl. ári í olíustöðvum. Auk þess nýttu sex rafveitur olíustöðvar til þess að lækka kostnað við aflkaup sín. Ekki var þó um mikla notkun í þeim efnum að ræða.

Tvær af þeim sex rafveitum sem eru í beinum viðskiptum við Landsvirkjun framleiddu rafmagn á sl. ári til að lækka afltopp sinn og var sú framleiðsla einungis um 24 mwst. Þessar rafveitur greiða Landsvirkjun nú 8,80 kr. fyrir hverja kwst. þegar aflnotkun þeirra er umfram svokallað áskriftarafl eða að viðbættu því yfirafli sem Landsvirkjun heimilar. Landsvirkjun miðar við að þetta sé svipað og framleiðslukostnaður rafveitna á rafmagni í olíustöðvum. Samkvæmt gjaldskrá Landsvirkjunar var þetta gjald rúmlega 100 kr. á kwst. en stjórn fyrirtækisins ákvað að lækka það á árinu 1992 úr 100 kr. niður í 8,80 kr. Það var gert til þess að koma í veg fyrir raforkuvinnslu með olíu þegar afl er tiltækt þannig að þetta var beinlínis gert í þeim tilgangi. Lækkunin hefur leitt til þess að um óverulega vinnslu í olíustöðvum til að lækka afltoppa í rafveitum er nú að ræða.

Akranesveita sem kaupir rafmagn frá Andakílsárvirkjun framleiddi um 18 mwst. á sl. ári til að lækka afltopp sinn. Sex rafveitur eiga ekki kost á beinum viðskiptum við Landsvirkjun og kaupa rafmagn í heildsölu af Rafmagnsveitum ríkisins og greiða 10% álag á framangreint verð til að mæta tapskostnaði við flutning orkunnar eða 9,68 kr. fyrir hverja kwst. sem er nokkru hærra en kostnaður við raforkuvinnslu í olíustöðvum, einkum þeim nýjustu. Þrjár þessara rafveitna framleiddu á síðasta ári alls um 78 mwst. af raforku í olíustöðvum til þess að lækka afltopp sinn. Auk þess voru framleiddar um 160 mwst. vegna toppkeyrslu í olíustöðvum í eigu viðskiptavina einnar rafveitunnar til þess að lækka afltopp viðkomandi veitu samkvæmt samningum þeirra í milli. Á síðasta ári framleiddu rafveiturnar og viðskiptavinir þeirra því samtals um 280 mwst. til þess að lækka afltopp sinna veitna eða sem svarar notkun u.þ.b. 70 heimila á raforku til almennra heimilisnota eða til um 8 heimila sem nota rafmagn til hitunar. Hér er því ekki um mjög mikla framleiðslu að ræða sem betur fer.

Uppbygging gjaldskrár Landsvirkjunar var breytt 1. jan. 1991 í framhaldi af vinnu svokallaðs vorhóps sem skipaður var fulltrúum Landsvirkjunar. Megininntakið í þeirri vinnu var að lækka gjaldskrána til þess að draga úr olíunotkunarkeyrslunni. Í gjaldskrá Landsvirkjunar er því tekið tillit til varaaflsveitnanna þegar yfirafl er ákveðið jafnframt því sem Landsvirkjun greiðir rafveitum árlegt gjald fyrir að hafa varaafl til reiðu sem hægt er að grípa til í orkuskorti.

Ætla má að þegar afl raforkukerfisins verður betur nýtt muni gjald fyrir afl umfram áskrift hækka og raforkuvinnsla í olíustöðvum aukast. Þetta er hættan. Í þessu sambandi er rétt að benda á að rafveitur sveitarfélaga hafa komið sér upp varaafli til þess að grípa til þegar bilanir verða í raforkukerfinu, en varastöðvar eru oft í tengslum við hita- eða vatnsveitur. Það er dýrt að auka afl í vatnsorku- og jarðvarmavirkjunum eins og hv. þm. kom inn á til þess að mæta hæstu afltoppum og því hagkvæmt oft og tíðum að þessar stöðvar séu nýttar þegar afltakmarkanir eru í raforkukerfinu. Það er jafnframt eðlilegt að Landsvirkjun reyni að koma í veg fyrir að stöðvarnar séu nýttar þegar nægt afl er í kerfinu og það var einmitt megintilgangurinn með þeirri breytingu sem gerð var á gjaldskránni árið 1992.