Flutningur sjónvarpsins í útvarpshúsið

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:43:26 (4915)

1996-04-17 15:43:26# 120. lþ. 120.13 fundur 431. mál: #A flutningur sjónvarpsins í útvarpshúsið# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:43]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Frá því að þessi fyrirspurn var lögð fram í þinginu hefur nefnd á vegum hæstv. menntmrh. skilað áliti, nefnd undir forsæti formanns útvarpsráðs, um hagkvæmni þess að flytja sjónvarpið í útvarpshúsið við Efstaleiti 1. Samkvæmt fréttum fjölmiðla telur nefndin þann kost bestan að flytja sjónvarpið í Efstaleiti.

En fyrirspurnin stendur einnig og ekki síður um hagkvæmni þess að flytja og væri gott að fá svör hjá hæstv. menntmrh. um það og þá í leiðinni hvenær hafist verði handa um flutninginn og hvenær megi búast við að þessum flutningi ljúki, hversu mikill rekstrarsparnaður á ári verði af flutningnum og hvort ekki sé eðlilegt að nota þann sparnað til þess að koma sjónvarpsmerkinu til allra landsmanna.