Innheimta opinberra gjalda

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:58:49 (4921)

1996-04-17 15:58:49# 120. lþ. 120.14 fundur 454. mál: #A innheimta opinberra gjalda# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi TIO
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:58]

Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Ég er ekki alveg sáttur við þau þó að ég sé að sjálfsögðu mjög sáttur við það að þessari innheimtuaðferð hafi verið breytt í fjmrn. Ég er ekki fyllilega sáttur við þau að því leyti til að ég tel að það sé hæpið að vísa þessu máli til umhvrn. þar sem hér er einungis um að ræða ákveðna innheimtuaðferð sem ég tel að engar sérstakar lagaheimildir séu fyrir í skipulagslögum og hafi raunar verið tekin ákvörðun um í stofnunum sem heyra stjórnskipulega undir hæstv. fjmrh.

Ég vil einnig minna hæstv. fjmrh. á það í tilefni af svari hans við annarri fyrirspurn minni, að hægt er að gera hvaða eiganda að sameign sem er ábyrgan fyrir sameigninni, þá ber að gera greinarmun á því hvort um er að ræða neyðarúrræði, eins og ég minntist á, sem menn geta gripið til þegar venjulegar innheimtuaðferðir hafa ekki dugað og menn ganga þá að þeim eiganda sameignarinnar sem er líklegastur borgunarmaður fyrir skuldunum. Þetta er algengt að þeir geri sem eru verktakar og sjá enga aðra leið færa, en mér finnst ekki hægt með nokkru móti að jafna þessu saman við venjulegar innheimtuaðferðir. Ég hygg að hæstv. ráðherra sé mér sammála í því atriði.

Ég held að það sé mjög mikilsvert að hæstv. fjmrh. stjórni sínum frumskógi með ákveðin sanngirnissjónarmið í huga og mér sýnist að viðbrögð fjmrn. við þessum fyrirspurnum mínum séu í þeim anda að það hafi verið litið svo á að rétt væri að gera breytingu á þessum málum og ég fagna því í sjálfu sér.