Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 20:50:35 (4925)

1996-04-17 20:50:35# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[20:50]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti og ágætu áheyrendur. Árum saman hafa ríkisstjórnir reynt að koma á fjármagnstekjuskatti. Sú saga verður ekki rakin hér. Síðasta ríkisstjórn gaf sérstaka yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga þar sem sérstaklega var fjallað um fjármagnstekjuskatt. Þar segir orðrétt:

,,Miðað verður við 10% skatt á nafnvexti sem verður innheimtur í staðgreiðslu.``

Hvers vegna er ég að rifja þetta upp hér og nú? Jú, vegna þess að Jón Baldvin Hannibalsson sat í þeirri ríkisstjórn sem stóð að þessari yfirlýsingu, en nú gerir hann hins vegar tillögu um 25--30% skatt, maður sem áður hafði lýst því yfir að það ætti að stefna að 10% skatti.

Skattlagning fjármagnstekna komst aftur á dagskrá þegar sama ríkisstjórn gaf út yfirlýsingu 10. des. 1994, en þar segir, með leyfi forseta, orðrétt:

,,Ríkisstjórnin telur því nauðsynlegt að sem víðtækust samstaða geti tekist um lagasetningu skattlagningar fjármagnstekna og hefur í því skyni ákveðið að bjóða þingflokkum og aðilum vinnumarkaðarins að tilnefna fulltrúa í nefnd til að semja frumvarp um fjármagnstekjuskatt.``

Hvers vegna er ég að minna á þessa yfirlýsingu? Jú, vegna þess að Jón Baldvin Hannibalsson, sem sat í þessari ríkisstjórn, stóð að því að ná sem víðtækastri samstöðu þegar hann var í ríkisstjórn, en nú er hann fyrstur til að slíta í sundur friðinn þegar hann er utan stjórnar. Sá maður sem vildi ná víðtækri samstöðu um 10% skatt hleypur frá niðurstöðunni með tillögu um tvö- til þrefalt hærri skatt og það er von að spurt sé: Er þetta sami maðurinn? Er þetta kannski einhver allt annar Jón? Er þetta kannski einhver umskiptingur?

Í beinu framhaldi af yfirlýsingu okkar Jóns þegar við sátum saman í ríkisstjórninni var skipuð nefnd allra þingflokka og aðila vinnumarkaðarins. Ég vek sérstaka athygli á því að í nefndarstarfinu var farið ítarlega yfir fjölmargar leiðir hvað varðar skattlagningu fjármagnstekna, þar á meðal þá leið sem liggur til grundvallar í frv. formannanna þriggja. Að lokinni þessari yfirferð komst nefndin að sameiginlegri niðurstöðu nú í febrúar og skilaði nefndaráliti ásamt frumvarpsdrögum. Allir nefndarmenn stóðu að frv. og tillögum nefndarinnar, jafnt fulltrúar stjórnar sem stjórnarandstöðu auk fulltrúa Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins --- og ég minni á að Alþfl., Alþb. og Þjóðvaki áttu fulltrúa í þessari nefnd.

Ég kynnti þessa sameiginlegu niðurstöðu í ríkisstjórn og lagði áherslu á að hér væri um málamiðlun og sameiginlega tillögugerð allra nefndarmanna að ræða og því væri eðlilegt að málið færi óbreytt fyrir Alþingi. Ríkisstjórnin samþykkti þessa málsmeðferð og hið sama gerðu þingflokkar stjórnarflokkanna allt á þeim forsendum að hér væri um sameiginlega niðurstöðu að ræða og mikilvægt að ekki yrði raskað þeirri samstöðu sem nefndin hafði náð. Í því felst ekki að þingið geti ekki gert þær breytingartillögur sem það kýs. Sem kunnugt er fór 1. umr. um þetta frv. fram í gær hér á Alþingi.

Í ljósi þessa aðdraganda hlýtur að vakna sú spurning: Hvað býr hér að baki? Hvers vegna flytja formenn þriggja stjórnarandstöðuflokka, Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka, sem allir áttu fulltrúa í nefndinni sem samdi stjfrv., nú sérstakt frv. um sama mál þar sem gert er ráð fyrir allt annars konar skattlagningu fjármagnstekna? Hvers vegna hafna formennirnir þrír sameiginlegum niðurstöðum, málamiðlun, sem þeirra eigin fulltrúar unnu að? Hvers vegna var þeim ekki treyst? Svarið hlýtur að vera það að formennirnir telji sameiginlegu tillögurnar stórkostlega gallaðar.

Ekki er tími til þess hér, herra forseti, að hrekja rangfærslur allar og leiðrétta misskilning þann sem kom fram í ræðu málshefjanda, en Jón Baldvin Hannibalsson hefur m.a. haldið því fram að þær tillögur sem fram koma í frv. ríkisstjórnarinnar hygli hinum ríkari á kostnað þeirra sem minna mega sín. Eins hefur hann haldið því fram að tillögurnar leiði til stórfelldra skattsvika og alls kyns óáranar almennt. Ég held að það sé fyllsta ástæða til að skoða þessar fullyrðingar Jóns Baldvins aðeins nánar.

Lítum fyrst á fullyrðinguna um það að hér sé verið að hygla hinum betur stæðu. Hvað segir í nefndarálitinu? Á bls. 42 þar sem fjallað er um heildaráhrif skattlagningar fjármagnstekna segir orðrétt: ,,Tekjuháir einstaklingar greiða mun hærri skatta en hinir tekjulægri.`` Með öðrum orðum telur nefndin að sú leið sem hún mælir með og ég hef flutt óbreytta á Alþingi, stuðli að tekjujöfnun, ekki ójöfnuði eins og Jón Baldvin hefur haldið fram. Þetta eru óbreytt orð úr skýrslu sem samin var af fulltrúum allra flokka, líka Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka.

Næst skulum við skoða hvað nefndin segir um það hvort æskilegt sé að skattleggja allar fjármagnstekjur með sama hætti. Á bls. 5 í nefndarálitinu segir orðrétt: ,,Nefndin er sammála um mikilvægi þess að allar fjármagnstekjur einstaklinga séu skattlagðar með svipuðum hætti.`` Ekki er nóg með það, heldur er enn frekar hnykkt á þessu á bls. 43, þar sem segir orðrétt: ,,Nefndin telur að sú samræming sé ófrávíkjanleg forsenda fyrir traustri eiginfjárstöðu íslenskra fyrirtækja og öflugri uppbyggingu atvinnulífsins, einkum í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.`` Þetta er mikilvægt álit sem öll nefndin stóð að, líka fulltrúi Alþfl.

Um það hvort heppilegt sé að hafa sérstakt frítekjumark eins og segir í frv. formannanna segir svo í nefndarálitinu á bls. 8, orðrétt: ,,Nefndin er sammála um að sérstakt frítekjumark flæki skattlagninguna og kalli á hærra skatthlutfall en ella. Jafnframt mun það ekki aðeins nýtast hinum tekjulægstu heldur öllum með eignartekjur og gefa einstaklingum með miklar eignatekjur færi á tilfærslu eigna til annarra sem hafa minni eignatekjur í því skyni að nýta frítekjumark þeirra og lækka þannig skattbyrði sína.`` Þetta er dómur nefndarinnar yfir frítekjumarksleið Jóns Baldvins Hannibalssonar og félaga. Hverjir stóðu að þessu? M.a. fulltrúi Alþfl., fulltrúi Alþb. og fulltrúi Þjóðvaka.

Í öllum þessum málum hafði nefndin orðið sammála um að sú leið sem hún valdi og ég flutti óbreytta í frumvarpsformi á Alþingi í gær að sé betri og heppilegri en tillögur þremenninganna en þær voru einnig vandlega skoðaðar í nefndinni. Þetta var ekki aðeins skoðun fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna í nefndinni og fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa Kvennalistans, heldur voru fulltrúar Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka sammála, þrátt fyrir bókun þeirra --- eða eins og fulltrúi Kvennalistans í nefndinni sagði orðrétt í Morgunblaðinu hinn 28. febrúar sl.: ,,Þrátt fyrir bókunina stóðum við að nefndarálitinu án fyrirvara.`` --- Ég endurtek: Einn þeirra sem stóð að bókuninni segist í Morgunblaðinu hafa gert það ,,án fyrirvara``. Það var enginn fyrirvari við skýrsluna eða frv. Með öðrum orðum, nefndin varð öll sammála um að þær hugmyndir sem kynntar eru í frv. þremenninganna væru meingallaðar, enda var þeim hafnað í nefndinni. Ég er þess vegna sammála því sem Kristín Ástgeirsdóttir sagði í umræðum á Alþingi í gær að tillöguflutningur þremenninganna ber ekki vott um vönduð vinnubrögð og gæti spillt fyrir því að efnt verði til samráðs við stjórnarandstöðuna í framtíðinni.

Gallar formannafrv. eru mjög alvarlegir. Í fyrsta lagi leiða tillögur þeirra til aukinna skattsvika. Það er ótvíræð niðurstaða nefnda sem hafa fjallað um skattsvik að því hærri sem skatthlutföll eru og undanþágurnar fleiri, þeim mun ríkari er tilhneiging til skattsvika.

Í öðru lagi geta tillögur formannanna leitt til verulegra vaxtahækkana og fjármagnsflótta.

Í þriðja lagi eru áhrifin á tekjujöfnun engan veginn eins ótvíræð og Jón Baldvin heldur fram, þvert á móti. Eins og ég hef áður nefnt kemur fram í nefndarálitinu að sérstakt frítekjumark leiði ekki endilega til tekjujöfnunar því að það muni verða stórlega misnotað með því að vaxtatekjur verði einfaldlega færðar yfir á fjölskyldumeðlimi t.d. eða vini til að nýta frítekjumark sem flestra.

Virðulegi forseti. Ágætu áheyrendur. Eins og ég sagði áðan lauk í gær 1. umr. um frv. ríkisstjórnarinnar sem samið var af nefnd skipaðri fulltrúum allra þingflokka og aðila vinnumarkaðarins. Margoft hefur komið fram að nefndin telur ótvíræða og óumdeilanlega kosti felast í þeim tillögum sem hún varð sammála um og birtast í frv. ríkisstjórnarinnar. Þær stuðla að tekjujöfnun í þjóðfélaginu, lágt skatthlutfall og einföld framkvæmd stuðla að betri skattskilum og einnig varð nefndin sammála um að samræmd skattlagning allra fjármagnstekna hafi ótvírætt jákvæð áhrif á atvinnulífið og atvinnuuppbyggingu í landinu. Um öll þessi atriði varð nefndin sammála og færði fyrir því gild rök. Í nefndinni sem vann sleitulaust að því að ná víðtækri samstöðu, varði til þess mörgum mánuðum, sátu ekki aðeins fulltrúar stjórnarflokkanna, fulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl., ekki einungis fulltrúi Kvennalistans til viðbótar, Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins, en bæði samtökin styðja stjfrv., heldur sátu þar einnig fulltrúar Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka. Þetta bið ég ykkur, áheyrendur góðir, að hafa í huga þegar þið hlustið í kvöld á fulltrúa þessara flokka sem eiga eftir að tala í málinu. --- Góðar stundir.