Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 21:01:41 (4926)

1996-04-17 21:01:41# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[21:01]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ágætu áheyrendur. Það frv. sem við ræðum í kvöld, frv. stjórnarandstöðuflokkanna, er í reynd þannig að það á að taka 42% af 60% vaxtatekna sem er um 25% á nafnvexti. Þessi prósenta er óháð verðbólgu og leggst þyngra á hærri vexti en lægri. Síðan er frítekjumark 40 þús. kr. fyrir einstakling, 80 þús. kr. fyrir hjón sem þýðir það að skatturinn endurgreiðir einstaklingi 10 þús. kr. og hjónum 20 þús. kr. fyrir þá sem eru umfram mörkin.

Þessi staðgreiðsla, 25%, var í nefndinni sem hér hefur margoft verið fjallað um talin allt of há til þess að hindra fjármagnsflótta úr landinu. Síðan geta menn í staðgreiðslunni, sem á að vera 25%, fengið heimild til lækkunar gegn því að afnema bankaleyndina, gegn því að falla frá bankaleyndinni. En það var akkúrat það sem nefndin komst að niðurstöðu um, að það væri ekki hægt að hafa frítekjumark án þess að fella niður bankaleyndina. Bankaleyndin var talin svo mikilvæg fyrir sparifjáreigendur að nefndin vogaði sér ekki að leggja til að hún yrði felld niður.

Áhrif verðbólgu og vaxta á þetta frv. sem við fjöllum hér í 2,75% verðbólgu, sem er nokkurn veginn það sem við búum við í dag, þá þýða 4% nafnvextir 100% skatt á raunvexti, raunvextirnir hreinlega hverfa. Þessi skattlagning tekur alla raunvextina fyrir þá sem eru með 4% nafnvexti í 2,75% verðbólgu. Með 7% nafnvöxtum kemur 42% skattur á raunvextina. Sem sagt: Þeir sem eru séðir og hafa ráðgjafa, og hafa háar vaxtatekjur væntanlega, þeir ná í hærri vextina og borga lægri skattprósentu. Það er allur jöfnuðurinn.

Í dag búum við við órafjölda skattkerfa. Það er alveg með ólíkindum, ekki stærri þjóð. Við erum með sérstaka skatta á vexti, þ.e. 0%. Við erum með sérstaka skatta á arð, þ.e. 42 eða 47% umfram 131 þús. Við erum með sérstaka skattlagningu á leigu, þ.e. 20% af leigunni telst til skatts, allt að 31 þús. eftir það 42 og 47%. Og við erum með sérstaka skattlagningu á söluhagnað hlutabréfa, 42--47% á frá fyrstu krónu og ekki hægt að draga tapið frá. Við erum sem sagt með fimm tegundir skattlagningar á fjármagnstekjur, allt eru þetta fjármagnstekjur. Og nú ætla ég að biðja hv. áheyrendur að átta sig á því hvernig þessi skattlagning er. Ég geri ráð fyrir því að mjög fáir skilji þetta. Þetta er nefnilega óheyrilega flókið kerfi og þetta frv. leggur til að flækja það enn frekar. 60% af vaxtatekjum umfram 40 þús. skulu verða skattlagðar eins og laun. Þetta er ekki einföldun, þetta er flæking.

Þegar talað er um að frv. nefndarinnar sé flæking og annað skattkerfi heldur en tekjur, þá getum við bara sett 24% af vöxtunum skuli vera skattskylt með 42% skatti. Það gefur akkúrat 10% skatt og engan persónufrádrátt. Það kemur nákvæmlega eins út þannig að við erum að tala um jafnmikla einföldun og þetta frv. sem hér liggur fyrir.

Fyrir utan þessar fimm tegundir skattlagningar á fjármagnstekjur, þá höfum við þrjár tegundir skattlagningar á eignarskatt, á eignir. Við erum með spariskírteini sem eru eignarskattsfrjáls án tillits til skulda og gefur heilmikla möguleika fyrir þá sem ekki nenna að borga eignarskatt að komast hjá því. Og við erum með bankainnstæður, eignarskattsfrjálsar umfram skuldir. Svo erum við með allar aðrar eignir eins og fólk þekkir sem ber eignarskatta í botn, íbúðir og annað slíkt, sem fólk á skuldlaust. Þar er verið að leggja skatt á eignir án þess að það gefi arð, án þess að það gefi tekjur á móti til þess að borga skattinn. Það er hastarlegt og kemur sérstaklega niður á gömlu fólki sem ekki hefur mikið ráðstöfunarfé en á skuldlausar eignir og þorir ekki að taka lán út á þær til þess að minnka eignarskattinn.

Svo erum við að sjálfsögðu með tvær tegundir tekjuskatts til viðbótar, 42 og 47% skatt á einstaklinga og 33% á fyrirtæki, en það er ekki til umræðu hér. Þessi skattkerfi öll saman, sem við Íslendingar búum við, vinna að því að stýra fjármagni frá atvinnulífinu, þar sem allt er skattað í botn, bæði arðurinn, eignin og allt saman, yfir til bankanna, þar sem vextirnir eru skattfrjálsir og innstæðan stundum eignarskattsfrjáls, yfir til spariskírteina, til ríkisins. Þetta vinnur að því að færa fjármagn og sparifé frá atvinnulífinu til ríkisins og það er ekki furða þó íslensk fyrirtæki séu með svo veika eiginfjárstöðu að ef eitthvað smávegis á móti blæs, þá bila þau og þá þarf að fara í gengisfellingar og alls konar óáran sem dynur yfir launafólk í landinu í staðinn fyrir að fyrirtækin hafi myndarlega eiginfjárstöðu og geti brúað smááföll þannig að launafólk þurfi ekki að sæta uppsögnum og því um líku eins og það hefur upplifað.

Önnur áhrif af núverandi skattlagningu eru þau að uppfinningamenn, nýsköpun, hugbúnaðargerð --- það er gjörsamlega vonlaust að fjárfesta í slíku. Það er gjörsamlega vonlaust vegna þess að hagnaðurinn, þá sjaldan hann kemur, er skattlagður að fullu, fyrst hjá fyrirtækinu 33% og síðan er söluhagnaður hlutabréfa eða arðs skattað með 42 eða 47%. Þannig að við búum við það að uppfinningamenn okkar þurfa að leita til útlanda og þeir sem eru í áhættusömum rekstri fá ekki fjármagn. Þá upplifum við það að ættingjar og vinir eru að skrifa upp á eins og við þekkjum og tapa heilmiklu fé þegar illa fer. Það vantar nefnilega áhættufé inn til þessara aðila og í þessum hugmyndum stendur ekki til að breyta þarna stafkrók. Það á ekki að breyta neinu í þessari óáran, þessari ofsköttun á fjármagnstekjur af því fjármagni sem bundið er í atvinnulífinu. Lýk ég hér með að tala um þessa tillögu sem hér er til umræðu, enda er ég alfarið á móti henni.

Starfið í nefndinni. Það var mikill ágreiningur í byrjun. Ég starfaði í þessari nefnd. Ég lagði t.d. til að tekin yrði upp skattlagning á raunvexti og að draga mætti vaxtagjöld frá. Því var hafnað, þótti of flókið. Ég lagði líka til að fjármagnstekjuskatturinn yrði 0%. Því var líka hafnað. Síðan komumst við að málamiðlun sem er það frv. sem ríkisstjórnin lagði fram í gær, frv. nefndarinnar. Ríkisstjórnin kom ekkert nálægt því starfi, ekki til í dæminu. Það var nefndin sjálf, fulltrúar Vinnuveitendasambandsins, fulltrúar Alþýðusambandsins, fulltrúar stjórnarandstöðunnar og fulltrúar stjórnarflokkanna sem unnu að því frv. alfarið. Og það var ekki breytt stafkrók í því þegar það var lagt fram á Alþingi. Að þessu frv. stóð ég og eins og um alla aðra málamiðlun og alla aðra gerninga sem ég lofa og skrifa undir, þá stend ég við það hvort sem það er munnlegt eða skriflegt. Svo er ekki um þá sem voru með mér í nefndinni. En ég tala ekki meira um það.

Er málamiðlun nefndarinnar ranglát? Er verið að flytja fúlgur frá stóraðilum? Svo er ekki. Það er hætt að stýra fjármagni í vissa kanala. Það er hætt að færa fjármagnið frá atvinnulífinu til ríkisins. Ég stend við minn stuðning við frv. nefndarinnar og er eindregið á móti þessu frv. vegna þess að það drepur niður sparnað og gerir ekkert fyrir atvinnulífið. Drungi mun færast yfir atvinnulífið í stað þeirrar bjartsýni sem nú ríkir.