Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 21:27:04 (4929)

1996-04-17 21:27:04# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[21:27]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Meginmarkmiðið með því að taka upp fjármagnstekjuskatt og helstu áherslur Þjóðvaka í því máli eru eftirfarandi:

Skattheimtan verður með þeim hætti að hinir raunverulegu fjármagnseigendur beri meginhluta hans.

Ákveðið frítekjumark tryggi að almennum sparnaði verði hlíft við skattlagningu.

Skatturinn dragi ekki úr sparnaði og hafi ekki óæskileg áhrif á vaxtastigið í landinu.

Tekjur af fjármagnstekjuskatti verði nýttar til að lækka skatta hjá fólki með lágar og meðaltekjur.

Fæst af þessum markmiðum nást fram í frv. stjórnarflokkanna. Það er ástæða þess að formenn Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka flytja þetta frv. sem hér er til umræðu. Engu að síður er það jákvætt að stjórnarflokkarnir hafa lagt fram frv. um fjármagnstekjuskatt og munum við í þingflokki Þjóðvaka leggja áherslu á og greiða fyrir því að lög um fjármagnstekjuskatt verði lögfest fyrir þinglok en jafnframt freista þess að ná fram nauðsynlegum breytingum í samræmi við þær áherslur sem ég hef lýst.

Það er rangt sem hæstv. fjmrh. hélt fram áðan að 10% vaxtaskattur hefði verið stefnumörkun síðustu ríkisstjórnar. 10% vaxtaskattur var krafa verkalýðshreyfingarinnar í tengslum við kjarasamninga og gerði ég og reyndar fleiri strax mikinn fyrirvara og athugasemdir við þá útfærslu.

Herra forseti. Gallar stjfrv. eru því miður mjög margir og raunar með ólíkindum að verkalýðshreyfingin styðji það. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að komið verði á sértækum 10% skatti jafnframt því sem skattur af söluhagnaði og arði, sem fram til þessa hefur verið skattlagður líkt og aðrar tekjur, lækki úr um 40% í 10%. Hvað þýðir þetta? Jú, nú þegar loksins á að fara að taka upp fjármagnstekjuskatt, þá er tækifærið notað og skattar stóreignafólks lækkaðir á kostnað aukinnar skattbyrði launafólks. Þetta er enn eitt dæmið um það að þessi ríkisstjórn stendur fyrst og fremst vörð um hagsmuni fjármagnseigenda í landinu. Þessi breyting að lækka skattgreiðslur á arð og söluhagnað býður líka upp á lögleg en siðlaus undanskot frá skatti. Í reynd getur þessi breyting þýtt að ríkissjóður hafi engar tekjur af fjármagnsskattinum. Tekjur af fjármagnsskattinum, sem að verulegu leyti koma frá hinum almenna sparifjáreiganda samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar, eru þannig fluttar yfir í vasa fyrirtækjaeigenda og stóreignafólks. Þetta er ótækt og þetta er siðlaust því að í hugum flestra hefði ég talið að upptaka fjármagnstekjuskatts væri að jafna skattbyrðina og lífskjörin en ekki að gera með því stöðu stóreignafólks og raunverulegra fjármagnseigenda jafnvel enn betri en hún er í dag. Þetta gerist með þeim hætti að sjálfstæðir atvinnurekendur geta nú sett rekstur sinn yfir í form einkahlutafélags en á einu ári, frá því að lög um einkahlutafélög tóku gildi 1. janúar 1995, hafa verið skráð 628 einkahlutafélög. Þessir aðilar geta tekið verulegan hluta þess fjár sem nú er skattlagður hjá þeim sem reiknað endurgjald eða launatekjur, svo og rekstrarhagnað og fært yfir í arð og greitt af því 10% skatt samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar í stað þess að greiða af tekjum sínum eða hagnaði um 40% skatt eins og nú er. Ef þessi leið er nýtt í miklum mæli, sem ég tel ekki vera neitt annað en undanskot frá skatti, þá hverfa ekki einungis þær tekjur sem ríkissjóður hefur af fjármagnstekjuskattinum heldur getur orðið til viðbótar um verulegt tekjutap að ræða sem áætlað hefur verið að geti skipt hundruðum milljóna, bæði hjá ríki og sveitarfélögum.

[21:30]

Auk þess er verið að mismuna einstaklingum í þjóðfélaginu eftir því í hvaða formi þeir fá tekjur til framfærslu. Þannig greiðir hinn venjulegi launamaður yfir 40% skatt af sínum tekjum meðan opnuð er leið fyrir fjármagnseigendur til að greiða einungis 10% skatt af stórum hluta þeirra tekna sem þeir hafa sér til framfærslu. Þetta er leið óréttlætis, leið sem við jafnaðarmenn viljum ekki fara.

Síðan er hin hliðin sem snýr að því að skattfrjáls arður verði miðaður við uppfært verð hlutabréfa en það þýðir í reynd að verulega er hægt að auka skattfrjálsan arð sem einungis er greiddur 10% skattur af en ekki yfir 40% eins og nú er sem aftur þýðir umtalsvert tekjutap fyrir ríkissjóð. Hér er um svo stóran galla að ræða á stjfrv. að maður veltir fyrir sér hvort t.d. verkalýðshreyfingin, sem hefur stutt þessa leið um 10% vaxtaskatt, geri sér grein fyrir þessari hlið á útfærslu fjármagnstekjuskattsins.

Góðir áheyrendur. Það hlýtur að vera grundvallaratriði varðandi álagningu fjármagnstekjuskatts að þeir sem mestar fjármagnstekjurnar hafa greiði hlutfallslega mest og að skatturinn jafnist sem mest út miðað við greiðslugetu þeirra sem fjármagnstekjur hafa. En þessu er þveröfugt farið í frv. ríkisstjórnarinnar þó hæstv. fjmrh. reyndi að halda öðru fram í umræðunni áðan.

Staðeyndin er sú að samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar verið er að skattleggja fólk minna eftir því sem greiðslugetan er meiri. Þetta kemur glögglega fram í yfirliti sem unnið var upp úr gögnum nefndar fjmrh. um fjármagnstekjuskattinn. Af því yfirliti má áætla að hjón, sem eru með hæstu tekjurnar eða allt að 700 þús. kr. á mánuði og hafa einnig mestu vaxtatekjurnar, muni samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar greiða samanlagt um 435 millj. í fjármagnstekjuskatt en samkvæmt frv. okkar formannanna greiðir þessi sami hópur, eða hinir raunverulegu fjármagnseigendur, nálægt þrisvar sinum meira eða um 1.160 millj. kr. Ef síðan er tekið dæmi af hjónum í lægri tekjuhópi eða á bilinu 100--300 þús. kr. mánaðartekjur, þá snýst dæmið alveg við og skattbyrðin leggst með fullum þunga á þá sem minna hafa. Samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar greiða þessi hjón samanlagt 234 millj. í fjármagnstekjuskatt en samkvæmt frv. okkar formannanna næstum helmingi minna eða 132 millj. kr. Því er ljóst að sú leið sem við viljum fara felur í sér að þeir sem hafa mestar fjármagnstekjurnar bera meginhluta fjármagnstekjuskattsins. Þetta er því ekki skattur á almennan sparnað hins venjulega launamanns eins og í frv. ríkisstjórnarinnar heldur raunverulegur skattur á fjármagnseigendur.

Fyrir því eru færð rök í frv. okkar að 50% af skattinum myndist á tveimur efstu tekjubilum framteljenda eða þeim sem mestar fjármagnstekjur hafa. Við sýnum jafnframt fram á í okkar tillögum að frv. ríkisstjórnarinnar felur í sér að sköttum yrði létt af þeim sem mesta greiðslugetu hafa. Það staðfestir líka hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. í blaði nýverið, en hann sagði að gallinn við tillögur ríkisstjórnarinnar væri að þeir sem væru með háar tekjur lækkuðu í sköttum.

Frv. ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir 10% flötum skatti á vaxtatekjur og engu frítekjumarki utan þess að heimilt verði að nýta ónýttan persónuafslátt til greiðslu fjármagnstekjuskatts sem ég tel að eitt og sér muni litlu breyta til að hlífa almennum sparnaði við fjármagnstekjuskatti. Frv. okkar þremenninga felur í sér að frá vaxtatekjum dragist 40 þús. kr. hjá einstaklingi og 80 þús. kr. hjá hjónum. Af því sem þá stendur eftir leggjast 60% af vaxtatekjum við aðrar tekjur og mynda skattstofn ásamt þeim. Þannig hlífum við sparnaði hins almenna launamanns. Auk þess er með því að hafa skattlagningu vaxta inni í skattkerfinu áfram hægt að nýta hinn almenna persónufrádrátt.

Samkvæmt okkar tillögum mega hjón fá um 137 þús. kr. í vaxtatekjur á ári án þess að greiða af þeim neinn skatt og einstaklingur um 70 þús. kr. í vexti án þess að greiða af þeim skatt. Þetta jafngildir því að hjón eigi 2,4 millj. kr. innstæðu án þess að greiða af þeim tekjum vaxtaskatt. Í frv. ríkisstjórnarinnar mundu hjón sem nýtt hafa að fullu persónuafslátt sinn og eru með sömu vaxtatekjur, eða 137 þús. kr., greiða af þeim tæpar 14 þús. kr. en í okkar tillögum ekki eina einustu krónu. Það er hvergi í frv. stjórnarflokkanna gert ráð fyrir að hlífa almennum sparifjáreigendum í landinu. Hver króna í vaxtatekjur er skattlögð.

Á það er nauðsynlegt að benda að það er rangt sem andstæðingar þessarar leiðar halda fram að með tillögum okkar sé verið að leggja á yfir 40% skatt í stað 10% skatts eins og er í tillögum ríkisstjórnarinnar. Staðreyndin er sú, eins og fram kemur í frv., að leið sú sem við viljum fara felur í sér að meðalskattur á vexti verður í upphafi í kringum 11% en fer í liðlega 18% þegar hann er að fullu kominn til framkvæmda. Það er í fullu samræmi við það sem almennt gerist í löndunum sem hafa tekið upp fjármagnstekjuskatt. En Ísland er eina landið innan OECD sem ekki hefur tekið upp þennan skatt.

Af þessu er ljóst, virðulegi forseti, að frv. okkar felur í sér að hlífa almennum sparifjáreigendum en ekki frv. ríkisstjórnarinnar. Það er grundvallaratriði að ekki sé verið að skattleggja lítinn sparnað venjulegs launafólks. Það er ekki bara sanngirnis- og réttlætiskrafa heldur spornar það gegn því að draga úr sparnaði og að skattlagningin ýti ekki undir aukna neyslu í landinu.

Góðir Íslendingar. Ég hef hér sýnt fram á hvað fjármagnstekjuskatturinn kemur óréttlátlega niður og hvernig hinir raunverulegu fjármagnseigendur sleppa vel samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar. Auk þess sem frv. okkar, Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka, er miklu réttlátara og sanngjarnara gagnvart hinum almenna sparifjáreiganda, þá liggur fyrir að útfærsla okkar mun skila meira fjármagni inn í ríkissjóð og þá frá hinum raunverulegu fjármagnseigendum. Þegar fjármagnstekjuskatturinn er að fullu kominn til framkvæmda mun hann skila um 1.700 millj. kr. en frv. ríkisstjórnarinnar einungis um 800 millj. kr. eða helmingi minni tekjum. Ég tel að við eigum að nýta þennan fjármagnstekjuskatt til að jafna tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu með því að lækka skattbyrðina hjá hinum venjulega launamanni. Ég tel að með því sé tilgangi með fjármagnstekjuskatti náð, þ.e. að flytja fjármagn frá þeim sem betur mega sín til þeirra sem minna hafa.

Virðulegi forseti. Það er líka nokkuð athyglisvert að í útfærslu ríkisstjórnarinnar eru hafðar tekjur af sveitarfélögunum án nokkurs samráðs við þau, tekjum sem nema um 300 millj. kr. gagnstætt því sem er í frv. Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka. Er það nokkuð sérstakt að Framsfl. taki þátt í þessari aðför að sveitarfélögunum í landinu sem þau hafa nú harðlega mótmælt. Að auki leiða tillögur ríkisstjórnarinnar til þess að félagasamtök ýmiss konar verða skattlögð. Það sama gildir um líknarstofnanir og styrktarsjóði og maður spyr t.d. hvort þetta leiði einnig til skattlagningar sjúkrasjóða verkalýðsfélaganna sem væri fróðlegt fyrir verkalýðshreyfinguna að athuga sérstaklega.

Ég nefni líka í lokin, virðulegi forseti, að ég tel að ástæða sé til að óttast það að nú á að fara að skattleggja allar leigutekjur án nokkurs frítekjumarks samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar. Nú eru 250 þús. kr. leigutekjur undanþegnar skatti en áhrif þessara breytinga gætu hugsanlega orðið þau að það dragi úr framboði á leiguhúsnæði í landinu.

Það er líka ástæða til að nefna það að um síðustu áramót tóku gildi lög um að helmingur þeirra tekna sem lífeyrisþegar hafa í vaxtatekjur skerði bætur þeirra en þau eiga að koma til framkvæmda 1. sept. nk. Ég spyr: Jafnframt því að vaxtatekjur skerði bætur lífeyrisþega, eiga þeir líka að greiða af vöxtunum 10% skatt? Við því hafa ekki fengist nein svör.

Herra forseti. Okkur ber á hv. Alþingi að lögfesta fjármagnstekjuskatt á yfirstandandi þingi og útfæra hann þannig að meginþungi hans lendi á hinum raunverulegu fjármagnseigendum í landinu og að tekjurnar verði nýttar til að lækka skattbyrði hjá hinum almenna launamanni. Ég er sannfærð um það, virðulegi forseti, að það er í samræmi við vilja þjóðarinnar.