Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 21:54:17 (4931)

1996-04-17 21:54:17# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., VS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[21:54]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Er vilji fyrir því hér á landi að koma á fjármagnstekjuskatti? Það mætti ætla að svo væri ef mið er tekið af því að nefnd, sem unnið hefur að samningu frv. um þetta efni og skipuð var fulltrúum allra stjórnmálaflokka, komst að þeirri niðurstöðu að þetta skyldi gert og hvernig það skyldi gert.

Það var ástæða til þess að gleðjast yfir því að nefndinni tókst að ljúka störfum og skila drögum að frv. sem kalla má málamiðlun. Þetta málamiðlunarfrv. var síðan flutt sem stjfrv. af hæstv. fjmrh. og er til meðferðar á Alþingi ásamt því frv. sem hér er rætt. Fulltrúar Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka skiluðu bókun við afgreiðslu málsins sem fól í sér að þeir áskildu sér og flokksfélögum sínum rétt til þess að styðja brtt. sem gætu talist til bóta og fram kynnu að koma við meðferð málsins. En hvað gerist þá?

Formenn sömu flokka, sem samkvæmt skilgreiningu Jóns Baldvins Hannibalssonar áðan skulu kallast jafnaðarflokkar, leggja fram annað frv. sem gengur þvert á frv. nefndarinnar og mundi verka eins og sprengja inn á íslenskan fjármagnsmarkað ef að lögum yrði. Eitt er að áskilja sér rétt til þess að bera fram og styðja brtt. við mál. Það er hins vegar allt annar og alvarlegri hlutur að hlaupa gersamlega frá því sem menn hafa undirritað eins og er raunin í þessu máli. Það er ekki til þess að auka álit á störfum á Alþingi þegar alþingismenn og meira að segja formenn stjórnmálaflokka haga sér með þessum hætti. Þessi vinnubrögð vekja furðu og ekki síður það að flutningsmenn skynja ekki betur þjóðfélag sitt en frv. ber vitni um.

Ísland hefur haft þá sérstöðu ásamt örfáum öðrum Evrópuríkjum að skattleggja ekki vaxtatekjur sem verða til af innstæðum í bönkum. Það hefur verið stefnumál okkar framsóknarmanna í mörg ár að á þessu máli verði tekið og fjármagnstekjuskatti komið á. Hins vegar hefur alltaf legið fyrir að það væri vandasamt að setja reglur um hvernig þetta skyldi gert þannig að það ylli ekki óróa á fjármagnsmarkaði og fjármagnsflutningum úr landi. Bæði frumvörpin um fjármagnstekjuskatt snúast um að skattleggja nafnvexti en ekki raunvexti. Þetta þýðir að 10% nafnvaxtarskattur, sem stjfrv. leggur til, er í raun 14,9% skattur á raunvexti ef verðbólga er 2% og raunvextir 4%. Skattprósentan sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og félagar leggja til er 25% á nafnvexti og er því miðað við sömu forsendur 37,3%. Ég fullyrði að þær tillögur hefðu mikil áhrif á umfang sparnaðar en sparnaður er mikilvægur þáttur í stöðugleika í þjóðfélaginu. Stór hluti af minnkandi sparnaði mundi ekki fara til fjárfestinga innan lands heldur fara úr landi.

10% skatthlutfall var ákveðið með það í huga að hafa sem minnst áhrif á vaxtastig, umfang sparnaðar í landinu og koma í veg fyrir fjármagnsflótta. Í nágrannalöndum okkar er almennt talið að 10% skatthlutfall séu þau mörk sem miða eigi við hvað þetta varðar. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir frítekjumörkum eins og gert er í því frv. sem hér er til umræðu ræður skattprósentan miklu um það hvort fólk tekur þá ákvörðun að leggja fé til hliðar eða verja því á annan hátt.

Lítum aðeins á frítekjumarkið. Eins og komið hefur fram er ekkert frítekjumark í frv. fjmrh. en þeir sem eiga ónýttan persónuafslátt hafa heimild til að nýta hann. Ástæður þess að frítekjumarkið var ekki lagt til eru ýmsar. Frítekjumark kallar á hærra skatthlutfall, frítekjumark kallar á misnotkun og þeir sem hafa miklar fjármagnstekjur fullnýta frítekjumarkið en flestir gera það ekki. Það er óréttlæti gagnvart þeim sem hafa litlar fjármagnstekjur.

Það er áhyggjuefni í þjóðfélagi okkar hversu þátttaka almennings í atvinnuuppbyggingu er lítil. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að auka fjárfestingar í atvinnulífinu og það er gert áhugaverðara með tillögum þeim sem fram koma í frv. fjmrh. og varða arð og söluhagnað hlutabréfa. Það var eitt meginatriði í stefnuskrá okkar framsóknarmanna fyrir kosningar að fjölga störfum og eru þessar tillögur í fullu samræmi við það. Þetta taldi ég rétt að nefna vegna þess að Alþfl. hefur ekki einkarétt á því að rifja upp kosningastefnuskrá okkar framsóknarmanna. Það gerum við með ánægju.

Hæstv. forseti. Það er réttlætismál að koma á fjármagnstekjuskatti. Það er dapurlegt að hugsa til þess að vinnubrögð stjórnarandstöðuflokkanna þriggja í þessu máli á vordögum verða til þess að tefja það mál. Mér segir svo hugur að verði svo geti orðið löng bið á því að lög verði sett um fjármagnstekjuskatt á Íslandi. Þeir sem bera ábyrgð á því bera mikla ábyrgð. --- Ég þakka áheyrnina.