Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 22:12:56 (4933)

1996-04-17 22:12:56# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[22:12]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Skattheimta þarf að uppfylla tvö grunnskilyrði eigi hún að gera eitthvert gagn. Hún skal vera réttlát og færa ríkissjóði tekjur. Auk þess þarf skattkerfi að vera gagnsætt og skilvirkt svo að hinn almenni borgari skilji það og styðji. Þyki tiltekin skattheimta bæði óréttlát og illa framkvæmd er hættara við að almenningur sjái ekki tilgang þess að fara að landslögum og skynji ekki sameiginlega ábyrgð sína á samneyslunni í þjóðarbúskapnum.

Nú hillir í fyrsta sinn undir það að gamalt baráttumál Kvennalistans nái fram að ganga og fjármagnstekjuskattur verður lögleiddur hér á landi. Miklu púðri hefur verið eytt í umræðu um vinnubrögð við framlagningu frv. sem til umræðu er í kvöld og frv. ríkisstjórnarinnar líka. Þingmenn hafa sakað hver annan um útúrsnúning og orðhengilshátt, þó sérstaklega þegar rætt hefur verið um bókun sem gerð var af fulltrúum stjórnarandstöðunnar við afgreiðslu tillagna nefndarinnr títtnefndu. Í umræddri bókun sem fulltrúi Kvennalistans skrifaði undir kemur fram að nefndarfólk vildi ekki binda hendur þingmanna við afgreiðslu frv. Að auki kemur skýrt fram að margt megi að þeirra viti betur fara í tillögum nefndarinnar. Ástæða er til þess að ítreka að nefndarfólk hafnaði ekki öðrum leiðum til álagningar skatts á fjármagnstekjur.

Hins vegar má orða það svo að fundin hafi verið lægsti hugsanlegi samnefnari í málinu. Af sjálfu leiðir að ekki er um að ræða óskalausn neins sem að tillögunum vann.

Herra forseti. Nú ber það hins vegar til tíðinda að sú þverpólitíska lausn sem felst í tillögum nefndarinnar og þar með í stjfrv., er að engu gerð með formannafrv. sem mælt er fyrir í kvöld. Það þýðir aðeins eitt: Lögleiðingu fjármagnstekjuskatts er stefnt í hættu. Það er næsta ógerningur að ræða þessi frumvörp sitt í hvoru lagi. Málsmeðferð býður upp á að bornir séu saman kostir og gallar í þeim báðum. Hér vinnst þó ekki tími til tæmandi upptalningar í þeim efnum. En ég vil leyfa mér að staldra við örfá efnisatriði.

[22:15]

Fyrst er að nefna hugmyndir um að verðbætur verði skattlagðar sem vaxtatekjur. Ég nota þetta tækifæri og vara við þeim hugmyndum. Verðbætur eiga að viðhalda höfuðstóli og tryggja fé fyrir rýrnun vegna verðlagsbreytinga. Verðbætur teljast því ekki til tekna af höfuðstóli en það teljast hins vegar að sjálfsögðu vextirnir, hin eiginlega ávöxtun fjárins. Gangi þetta í gegn þýðir það einfaldlega að skattgrunnur fjármagnstekjuskatts yrði hærri en næmi hreinum tekjum af fjárhæðinni. Á verðbólgutímum þýddi það að almenningur þyrfti að greiða skatt af háum verðbótarupphæðum sem eru þó eins og fram hefur komið ekki vaxtatekjur heldur viðhald höfuðstólsins. Þetta skyldu þingmenn hafa hugfast við afgreiðslu þessara mála.

Um framkvæmd þeirra tillagna sem frumvörpin fela í sér er það eitt að segja að tillögur stjfrv. tryggja einfalda og örugga innheimtu skattsins með staðgreiðslu í gegnum bankakerfið. Kostnaður við innheimtu er hverfandi og lítið eftirlit þarf að hafa með framkvæmd hennar. Við skoðun á frv. formannanna verður ekki annað séð en að mýmörg tilefni gefist til undanskots og skattsvika við framkvæmd og innheimtu fjármagnstekjuskattsins. Fram hjá því verður ekki svo auðveldlega litið í samanburðinum.

Formennirnir þrír halda því fram að nái stjfrv. fram að ganga muni skattur af arði og vöxtum minnka tekjur sveitarfélaga um a.m.k. 300 millj. kr. á ári. Samband ísl. sveitarfélaga telur hins vegar að um tvo þriðju hluta þeirrar upphæðar eða 208 millj. kr. sé að tefla. Sem kunnugt er hefur mjög verið gengið á tekjustofna sveitarfélaga, t.d. með niðurfellingu aðstöðugjalds fyrirtækja á undanförnum árum. Auðvitað hefur aldrei staðið til að rýra tekjur sveitarfélaga með álagningu fjármagnstekjuskatts. Það var alltaf skýrt í starfi nefndarinnar. Þvert á móti er brýn nauðsyn til þess að reikna dæmið til enda fyrir sveitarfélögin og gera tillögur að breyttu hlutfalli í staðgreiðslunni á milli ríkis og sveitarfélaga í framhaldi af álagningu skatts á fjármagnstekjur. Stærsta sveitarfélag á landinu, Reykjavíkurborg, á að sjálfsögðu mestra hagsmuna að gæta í þessu sambandi og einboðið að þingmenn kjördæmisins gangi fram fyrir skjöldu við að tryggja hagsmuni borgarinnar í því máli.

Herra forseti. Er það þegar allt kemur til alls ætlun formanna Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka að koma í veg fyrir að fjármagnstekjuskattur komist á á yfirstandandi kjörtímabili? (JBH: Nei.) Það pólitíska uppistand sem þingheimur og landsmenn allir hafa orðið vitni að á undanförnum dögum bendir ekki til annars en að Alþfl., Alþb. og Þjóðvaki séu í raun tilbúnir til þess að hætta á að fjármagnstekjuskattur verði ekki tekinn upp að þessu sinni og þá að öllum líkindum ekki um langa framtíð. Það er sú pólitíska áhætta sem er tekin með framlagningu formannafrv. sem hér um ræðir.

Að lokum hlýt ég að beina spurningu minni til hv. þingmanna Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka: Eru þeir tilbúnir til þess að fórna því tækifæri sem nú gefst til þess að lögleiða fjármagnstekjuskatt hér á landi? Ef svo er verður skammgóður vermir af því pólitíska uppistandi sem landsmenn hafa orðið vitni að á hinu háa Alþingi í kvöld. --- Góðar stundir.