Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 23:06:43 (4939)

1996-04-17 23:06:43# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[23:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég hef reynt að hlusta á þessa umræðu í kvöld af athygli og ég vona að áheyrendur séu nokkru nær um það um hvað þetta mál snýst. Þá rifjaðist upp fyrir mér að fyrir svona um það bil einum aldarfjórðungi lærði ég allmikið í skattamálum og tók líka þátt í framkvæmd skattamála hér á landi með aðstoð við einstaklinga og fyrirtæki. Þá lærði ég þau sannindi, sem ég hef alltaf haft í huga síðan, að flókið skattkerfi kann að sýnast réttlátt í fyrstu en hins vegar geta hliðarverkanirnar verið svo miklar að þær skapi slíkt óréttlæti að ekki verði við það unað. Þess vegna eru það einföld sannindi að einfalt skattkerfi er skilvirkt og miklu réttlátara en hið flókna þegar flókna skattkerfið er komið í framkvæmd. Þetta hélt ég að við værum búin að læra af langri reynslu og ég ætla að nefna sem dæmi að við höfum verið að breyta ýmsu í okkar tekjuskattskerfi á undanförnum árum. Barnabætur hafa verið tekjutengdar í nafni réttlætis. Húsnæðisbætur hafa verið eignatengdar og tekjutengdar í nafni réttlætis en þegar upp er staðið eru jaðaráhrifin svo mikil að þetta sem menn töldu vera réttlæti er orðið að óréttlæti.

Ég tel að sú nefnd sem hefur unnið að þessu máli og ég hélt að það hefði verið gert í allmikilli sátt hafi haft allar þessar einföldu reglur að leiðarljósi í vinnu sinni. En það frv. sem formenn nokkurra stjórnarandstöðuflokka hafa flutt hafa ekki haft þessa einföldu reglu að leiðarljósi því að þeir hafa leitast við að búa til svo flókið kerfi í kringum væntanlega skattlagningu fjármagnstekna að hliðaráhrifin munu gera það mjög óréttlátt. Enda þótt þeir tali í nafni réttlætis og tali um að með þessu verði réttlætinu náð er það því miður rangt. Allt er þetta gert í nafni meðaltalsins. Því er haldið fram að vegna þess að meðaltalsskatturinn sé 11% sé þetta fínn skattur. Það er svona eins og að leggja út af því að í einni ákveðinni á sé meðalrennslið tiltekið magn vatns og alltaf sé hægt að fara yfir hana með þeim hætti og aðeins meðaltalið skuli haft í huga. Þetta er hin nýja stefna Alþfl. að allt skuli miðað við meðaltal og meðalmennsku í stað jafnaðarmennsku og er flokkurinn þá væntanlega orðinn meðalflokkur.

Ég spyr hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson: Er það líklegt að ef einstaklingur ætlar að taka ákvörðun um það hvort hann eigi að geyma sparifé sitt á Íslandi eða hugsanlega flytja það til útlanda að hann muni taka þá ákvörðun með meðaltalið að leiðarljósi? Ætli það sé ekki líklegt að hann taki þá ákvörðun miðað við það hvað hann borgar í skatt á Íslandi og taki þá ákvörðun út frá tæplega 30% skatti? Mér þykir það líklegt. Er það líklægt að aðilinn sem er að hugsa um að flytja fjármagn á milli einstaklinga í fjölskyldunni muni gera það í nafni meðaltalsins? Er líklegt að bankinn, sem ætlar hugsanlega að sjá til þess að enginn tapi á þessu og hækka vexti vegna þessarar ákvörðunar sem ákveðinn bankastjóri hefur í reynd hótað, muni gera það allt í nafni meðaltalsins? Þetta eru náttúrlega röksemdafærslur sem er ekki hægt að bera á borð fyrir almenning að mínu mati.

Því hefur verið haldið fram að ég hafi sagt það, og hefur verið vitnað í það sem einhver heilög sannindi, að þetta frv. leiði til þess að skattur muni lækka á ákveðnum aðilum sem hafa hærri tekjur og þetta er alveg rétt. Það liggur alveg ljóst fyrir að þeir sem hafa tekjur af arði umfram tiltekin mörk greiða í dag 42--47% skatt, en munu greiða 10% skatt. Það þarf ekkert sérstaklega að vitna í mig þessu til sönnunar. En hvað segir svo nefndin sem vann þetta mál um þetta tiltekna efni? Hún segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin telur að sú samræming sé ófrávíkjanleg forsenda fyrir traustri eiginfjárstöðu íslenskra fyrirtækja og öflugri uppbyggingu atvinnulífsins, einkum í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.``

Nefndin kemst sem sagt að þeirri niðurstöðu að ef það eigi að taka upp fjármagnstekjuskatt, sem allir eru sammála um, þá sé nauðsynlegt að samræma skattlagningu á tekjum af arði. Þetta er niðurstaða nefndarinnar. Það stendur ekki ,,meiri hluta nefndarinnar``. Það stendur ,,nefndarinnar``. Og þeir sem skrifa undir ákveðinn fyrirvara, skrifa ,,undirrituð undir nefndarálitið`` og telja það ásættanlegt og svo kemur ,,með vísun til bókunar þessarar``. Verður ekki að skilja það svo að allir nefndarmenn telji þetta ásættanlegt og verður ekki að skilja það svo að þessi samræming sé ófrávíkjanleg? Í þessu eru mikil sannindi. Það verður stundum að kaupa ákveðna hluti tilteknu verði. Það er enginn vafi á því að ef tekjur af arði verða skattlagðar með þessum hætti mun staða atvinnurekstrarins styrkjast og atvinna aukast í landinu. Ef menn vilja hafa það markmið í fyrirrúmi að atvinna aukist og atvinnuleysið minnki þá styðja menn slíka stefnu. En ef menn telja að áfram eigi að búa við það mikla atvinnuleysi sem hér er þá eigi ekki að gera það. Það er ástæðan fyrir því að við í Framsfl. höfum ákveðið að styðja tillögu nefndarinnar vegna þess að við teljum að þau markmið séu mikilvægari en önnur markmið.

Herra forseti. Ég verð aðeins að víkja að sögu þessa máls því að 10. des. 1994 lýsti þáv. ríkisstjórn því yfir að hún vildi mynda samstöðu og samstarf með stjórnarandstöðunni og aðilum vinnumarkaðarins til þess að vinna að málinu. Ég var ekki mjög ánægður með það. Það var alveg ljóst að ég taldi að það lægi ljóst fyrir að þáv. ríkisstjórn gat ekki komið sér saman um málið og hún vildi leita til stjórnarandstöðunnar og aðila vinnumarkaðarins til þess að taka þátt í lausn málsins. Ég taldi að það yrði verkefni nýrrar ríkisstjórnar. Hins vegar féllust aðilar vinnumarkaðarins á þessa niðurstöðu og hinir stjórnarandstöðuflokkarnir á undan Framsfl. og 22. febr. 1995 rekur hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson þetta í almennum stjórnmálaumræðum. Hann talar um að nú hafi þeir boðið til samstarfs um útfærslu á framkvæmd fjármagnstekjuskatts sem kæmi til framkvæmda um næstu áramót. ,,Nú vill svo til að aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hafa lýst sig reiðubúna til slíks samstarfs, en mér skilst að enn standi á Framsfl. Ef hægt er að nefna nokkurt eitt mál, réttlætismál sem mun skipta sköpum um það að stuðla frekar að kjarajöfnun, þá væri það þetta. Ég skora á formann Framsfl. að láta ekki bíða lengur eftir sér.``

[23:15]

Þetta sagði hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson (JBH: Og segir það enn.) Og segir það enn, já. Það vill nú svo til að við féllumst á þetta. En hvað gerir Alþfl. núna, flokkurinn, sem hvatti til samstöðu? Hann kemur með algerlega nýtt frv. og segir að hér sé aðeins um brtt. að ræða. Þetta er svona álíka og taka þátt í því í nefnd að koma á virðisaukaskatti á Íslandi og segja að það sé ásættanlegt, en koma daginn eftir með frv. til laga um endurnýjaðan söluskatt. Þessu frv. sem hér er verið að flytja er á engan hátt hægt að líkja við það sem nefndin lagði til. Það er allt annað kerfi og ég vil halda því fram að það sé gersamlega óframkvæmanlegt.

Formaður þeirrar nefndar sem undirbjó málið, Ásmundur Stefánsson, fullvissaði okkur um það á sínum tíma að gott samstarf væri í þessari nefnd og það væri góð samstaða í nefndinni. Með því hugarfari tókum við málið upp í Framsfl. og féllumst á það, eins og m.a. kom fram í þingræðu formanns Alþfl. á sínum tíma, að standa að málinu. Hér er ekki verið að leggja til af formönnum stjórnarandstöðunnar að breyta neinu í frv., t.d. að koma með tillögu um að greiða eigi einhvern annan skatt af arði umfram tiltekin mörk. Það gæti verið tillaga og menn gætu samt haldið því fram að það yrði gert í nafni réttlætis. Hins vegar hefur hún aðra galla. Nei, ekkert slíkt er lagt til heldur er komið með óframkvæmanlega samsuðu sem mun leiða til vaxtahækkunar. Það er enginn vafi. Þar með mun byrði atvinnulífsins og einstaklinga í landinu stóraukast. Þetta frv. mun leiða til vaxandi atvinnuleysis, það mun leiða til einhvers fjármagnsflótta úr landinu. Formaður Alþfl. ætti að vita það betur en allir aðrir að við verðum að taka upp sambærilegt kerfi í þessum efnum og gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Ef hann heldur allt í einu að Ísland sé orðið eitthvert einangrað fyrirbæri þar sem hann getur komið með einhverja hundalógík og einangrað þessa hundalógík við Ísland, fer hann villur vegar. Við erum háð fjármagnsmörkuðum annarra landa og við getum ekki tekið upp eitthvert allt annað skattkerfi en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Og ég fullyrði að það hefur engum dottið í hug í löndunum í kringum okkur að taka upp svona skattkerfi eins og formaður Alþfl er að mæla hér fyrir. (JBH: Verði gengið fellt ...) Það er rangt og ég bið hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson að koma með staðreyndir um það. Ég get a.m.k. fullyrt að ef það er einhvers staðar sem má vel vera, á Ítalíu eða einhverjum öðrum slíkum ríkjum, þá eru menn að vinna að því að breyta því og taka upp einfaldara og skilvirkara kerfi. En að einhverjum hafi látið sér detta í hug að viðhalda svona kerfi eins og hér er lagt til, það held ég að geti alls ekki verið rétt.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég vænti þess að það geti náðst einhver bærileg samstaða um þessi mál. Það hefur verið hvatt til slíkrar samtöðu, það hefur verið unnið að málinu með þá samstöðu í huga. Hér hafa ákveðnir aðilar rofið þá samstöðu og ég tel að það sé þeirra skylda að endurskoða afstöðu sína og koma að málinu með eðlilegum hætti á nýjan leik. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.