Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 11:04:38 (4944)

1996-04-18 11:04:38# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[11:04]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi hæstv. fjmrh. er ótrúlegur. Hér kemur hann upp og segir: Ef þetta frv. verður að lögum verður auðvitað rætt við sveitarfélögin. Má ég benda hæstv. fjmrh. á að síðan 1994 er samstarfssamningur í gildi milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins. Ég sat sjálfur fundi með þeim og hæstv. ráðherra á síðasta kjörtímabili þar sem farið var yfir það hvað var leyfilegt og hvað ekki. Eitt af því sem var óleyfilegt var að þrengja hið fjárhagslega svigrúm þeirra án þess að talað væri við þau. Hér kemur fram hjá hæstv. fjmrh. að ríkisvaldið hefur ekki einu sinni haft fyrir því að ræða við sveitarfélögin. Hæstv. fjmrh. staðfestir það og það er auðvitað sannkallað hneyksli og ekkert annað. Að öðru leyti fagna ég því að við erum sammála um það, ég og hæstv. fjmrh., að formaður Alþfl. er óbreyttur maður. Ég fagna því að hann tekur orð mín trúanleg í þeim efnum.

En hann svaraði ekki lykilspurningu. Er hæstv. fjmrh. samur og áður? Er þetta ekki allt annar fjmrh.? A.m.k. flytur hann aðra stefnu en hann flutti um fjármagnstekjuskatt þegar ég var með honum í ríkisstjórn. Og varðandi friðinn í nefndinni. Hvað þurfti að gera til að skapa frið í nefndinni? Þurfti ekki að reka úr nefndinni fulltrúa hæstv. fjmrh., fulltrúann sem túlkaði stefnu hæstv. fjmrh.? Hann var rekinn úr nefndinni vegna þess að hann túlkaði sjónarmið þessa manns sem þarna situr og þá fyrst var kominn grundvöllur fyrir friði. Eina stoðin sem hæstv. fjmrh. hefur varðandi deilur okkar hér um bókunina er að vísa í Kvennalistann. Nú er það svo að Kvennalistinn hlýtur að tala fyrir sjálfan sig í þessu máli, ekki fyrir mig og væntanlega ekki heldur fyrir hæstv. fjmrh. Að öðru leyti vísa ég til þess sem segir á bls. 43 í greinargerð hæstv. fjmrh. varðandi það hvort verið sé að hygla einhverjum og hverjum sé verið að hygla. Þar segir: ,,Enn fremur dregur breytt skattlagning arðs og söluhagnaðar úr skattbyrði hinna tekjuhærri.`` Skilur hæstv. ráðherra ekki mælt mál? Þetta stendur svona í hans eigin greinargerð.