Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 11:43:05 (4955)

1996-04-18 11:43:05# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[11:43]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta gengur sú aðferð í frv. þremenninganna til þess að reyna að komast hjá því að skattleggja neikvæða vexti ekki upp. Það sem skiptir máli er skatturinn, þ.e. skatthlutfallið og byrðin og áhrif verðbólgunnar. Ég benti á í máli mínu áðan að þetta skatthlutfall er frá 36% og upp í 100%. Það bil sem frv. formannanna setur inn til þess að reyna að koma á móti þeim mikla meinbugi sem er á frv. báðum, þ.e. skattlagningu á nafnvexti, gengur ekki upp. Það er blekkingarvefur. Hitt er svo rétt að það er einfalt að setja þetta inn í tekjuskattskerfið. Það er rétt hjá hv. þm. Það er einfalt en það er engin hliðarráðstöfun gerð þar. Tekjuskattshlutfallið er mjög hátt og það þýðir þá að við munum leggja á fjármagnstekjur eitthvert hæsta skattþrep sem um getur.