Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 11:44:43 (4956)

1996-04-18 11:44:43# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., Flm. JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[11:44]

Flm. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar):

Herra forseti. Þessi samanburðarfræði eru afar villandi. Kjarni málsins í hinni einföldu framkvæmd innan tekjuskattskerfisins samkvæmt tillögu formannanna er þessi: Númer eitt, við erum ekki að leggja skatt á allar vaxtatekjur fólks heldur einungis 60% af þeim. Við höfum þar reynar fordæmi frá ríkisstjórninni sem notaði sömu aðferð þegar kom að skattlagningu á vaxtatekjur lífeyrisþega. Í annan stað höfum því til viðbótar frítekjumark sem þýðir að allur þorri almennra sparifjáreigenda verður ekki inni í þessu skattkerfi. Dæmi: Hjón með 2,4 millj. í sparifjárinneign greiða ekki skatt af vöxtunum samkvæmt okkar kerfi. Þar af leiðir að þetta er ekki skattlagning á neikvæða vexti og ekki á verðbætur og það þarf ekki þess vegna sérstakt ákvæði sem ætti að vera í tillögu stjórnarflokkanna um frádráttarbærni vaxtagjalda. Þetta þýðir að hin virka álagningarprósenta er 11% og allt tal um að það sé annað er bara rangt. Ef menn vilja meta verðbólguáhrif á þessum tillögum, þá er sá kostur við tillögu formannanna, að vegna þess að við getum stillt af hvort heldur er prósentuhlutfallið í skattinum, þar sem tekið er á skattinum, þessi 60%, og frítekjumörkin, þá getum við hæglega innan þessa kerfis lagað þessar breytur að verðbólguþróun.

Stjórnarliðar segja að það vanti hliðarráðstafanir hjá okkur til þess að hvetja til fjárfestingar í atvinnulífinu. Það er rétt. Það var lagt upp með það að leggja skatt á fjármagnstekjur, annaðhvort flatan skatt eða þá aðferð sem við notum. En því næst er hitt það sem ég kalla smyglgóssið allt annað mál, þ.e. að nota það tilefni til þess að lækka skattlagningu á arði. Það er mjög tvíbent vegna þess að þar er verið að hvetja til þess að borga í stórauknum mæli fé út úr fyrirtækjunum í arðgreiðslu til eigendanna sem enginn getur fullyrt að sé til þess að styrkja eiginfjárstöðu heldur þvert á móti.