Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 12:08:41 (4959)

1996-04-18 12:08:41# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[12:08]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson gerir lítið úr fulltrúa sínum í fjármagnstekjunefndinni, hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur, sem starfaði vel og vendilega með nefndinni í tíu mánuði, með því að eigna mér þetta mál alfarið og eingöngu. Í nefndinni tóku þátt fulltrúar þingflokkanna allra og fulltrúar ASÍ og Vinnuveitendasambandsins. Þessir aðilar stóðu að þessari málamiðlun og það er út í hött að segja að þetta sé mitt mál því þetta er ekki frv. sem ég vildi hafa séð. Ég hef miklar efasemdir um að skattleggja nafnvexti. Ég hef yfirleitt miklar efasemdir um að skattleggja vexti.

Varðandi þann málskilning hv. þm. um að fjármagnstekjur séu bara vextir ætti hann að lesa Karl Marx um skilgreiningu á fjármagni og hefur eflaust gert það. Ég ætla að rifja það upp. Fjármagnið gefur af sér ýmar tekjur. Leigutekjur eru að sjálfsögðu fjármagnstekjur og arður er fjármagnstekjur. Hvað annað? Og söluhagnaður hlutabréfa, ígildi arðs.

Um að ríkisstjórnin hafi unnið illa í þessu máli, þá vil ég segja það að frv. er flutt af ríkisstjórninni en er alfarið mál nefndarinnar. Dálítið var rætt um skattlagningu á vexti sveitarfélaganna í nefndinni og ég lýsti þeirri skoðun minni að ég teldi að sveitarfélögin ættu ekkert bágar með að borga þessa vexti en gamalt fólk sem búið er að spara alla ævina og á núna að borga skatta af vöxtum. Ég vorkenni því meira en sveitarfélögunum.