Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 12:10:29 (4960)

1996-04-18 12:10:29# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[12:10]

Svavar Gestsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Veruleikinn er auðvitað sá, hæstv. forseti, að uppspretta auðsins í samfélaginu er vinnan og á því lifir þjóðin og á því lifir fólkið að það sé til vinna til að skapa auð og verðmæti. Við teljum ekki að fjármagnið sem slíkt skapi nein verðmæti. Það er grundvallarmunur á afstöðu minni og þingmannsins í þessu efni. Hann er þeirrar skoðunar að það eigi skattleggja vinnuna meira en fjármagnið. Hann er þeirrar skoðunar að skattprósentan af vinnutekjum eigi að vera miklu meiri og hærri í þessu sambandi. Hann vill að fjármagnið njóti sérkjara, samfélagið tryggi að þeir sem eiga fjármagn hafi betri aðstöðu en þeir sem eiga ekkert til að selja og ekkert til að lifa af nema vinnuafl sitt. Það er þetta grundvallaratriði sem hv. þm. botnar ekkert í.

Varðandi það í öðru lagi að sveitarfélögunum sé engin vorkunn. Það er enginn að tala um vorkunnsemi til eða frá. Ég var bara að tala um mannasiði, þ.e. þá mannasiði að rætt sé við sveitarfélögin því á sama tíma og þessar viðræður eru í gangi við sveitarfélögin um að flytja grunnskólann til og senda með grunnskólanum 250 millj. kr. er verið að taka ákvörðun um það í öðru stjfrv. að skattleggja sveitarfélögin um 300--400 millj. kr. Þessi framkoma við sveitarfélögin er fyrir neðan allar hellur en ég skil vel af hverju þessi framkoma er eins og hún er þegar ég heyri tóninn í hv. þm. því að ég hef engan þingmann nokkru sinni heyrt tala um sveitarfélögin með jafnmikilli lítilsvirðingu og hv. þm. gerði áðan og áður í ræðum sínum.