Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 12:14:24 (4962)

1996-04-18 12:14:24# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[12:14]

Svavar Gestsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þm. um að þarf að taka allt öðruvísi á málefnum sveitarfélaganna en gert er af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli. Spurningin er sú hvort ekki er óhjákvæmilegt að fjallað verði um þetta mál á jafnvel breiðari vettvangi en eingöngu á vettvangi hv. efh.- og viðskn. Það er spurning hvort sveitarfélaganefndin, þ.e. félmn., þarf ekki að fá þessa meðferð á sveitarfélögunum sem hér er uppi til sérstakrar meðferðar. Félmn. sendi í gegnum þingið fyrr í vetur frv. sem hafði í för með sér gífurlegt tekjutap fyrir Reykjavíkurborg og ég held að það sé ljóst að eftir þau mistök, liggur mér við að segja, þá sé vilji til þess í félmn. að taka á þessum málum með heildstæðari hætti en áður hefur verið gert. Þess vegna vil ég beina því til hv. þm. sem eru í efh.- og viðskn. að það verði kannað að sveitarfélaganefndin, þ.e. félmn., fái þessi mál sérstaklega til meðferðar.

Herra forseti. Að lokum vil ég vekja athygli á því þar sem ekki hafa fleiri beðið um orðið vegna andsvars við ræðu minni að hv. þm., formaður þingflokks Framsfl., kýs að svara ekki þeim spurningum um framkomu Sjálfstfl. sem ég bar hér fram áðan. Mér finnst sú þögn býsna upplýsandi.