Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 12:17:51 (4964)

1996-04-18 12:17:51# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[12:17]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég mun verða við beiðni forseta um að stytta mál mitt svo fundi megi ljúka tímanlega enda hafa hér verið fluttar margar efnismiklar, ítarlegar og málefnalegar ræður um það frv. sem hér er til umræðu. Þó eru eitt eða tvö efni sem ég vil víkja sérstaklega að og þá ekki síst að aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að þessu máli.

Ég vil byrja á að lýsa fullum stuðningi við það frv. sem hér er til umræðu og flutt er af flokksformönnum, hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, Margréti Frímannsdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur. Þær leiðir til skattlagningar sem þeirra frv. gerir ráð fyrir eru að mínu mati skynsamlegar, hugsunin er sú að í reynd beri einvörðungu raunávöxtun af fjármagni skatt og að skattlagningin fari fram innan núverandi skattkerfis, þ.e. myndi sameiginlegan skattstofn með öðrum tekjum.

Það er löngu tímabært að tekjur af fjármagni séu skattlagðar eins og aðrar tekjur og má undrun sæta hversu lengi fjármagnseigendur hafa fengið því áorkað að vera undanþegnir þeirri sjálfsögðu kvöð að greiða til samfélagsins eins og aðrir. Enn hlálegra er það fyrir þá sök að burðugustu fjármagnseigendurnir eru jafnframt í hópi auðugustu einstaklinga landsins. Það á hins vegar ekki við um alla sem hafa tekjur af fjármagni og af þeim sökum er mikilvægt að skattleysismörk hlífi lágtekjufólki og meðaltekjufólki. Það segir sig sjálft að hagur stóru fjármagnseigendanna er hins vegar sá að skattprósentan sé sem lægst, skattleysismörkin skipta þá aðila hins vegar afar litlu máli, þ.e. almennu skattleysismörkin, nema hvað í frv. ríkisstjórnarinnar verða skattleysismörk hátekjumanna gagnvart fjármagnstekjum færð í u.þ.b. 2,8 millj. á einstakling og yfir 5,5 millj. kr. á hjón, þ.e. fólk sem hefur einvörðungu tekjur af fjármagni upp að þessum upphæðum þarf ekki að greiða eina einustu krónu í skatta.

Í frv. ríkisstjórnarinnar er gert annað og meira. Eins og fram kom í máli hv. þm. Svavars Gestssonar fjallar frv. ríkisstjórnarinnar aðeins að hluta til um skattlagningu á vaxtatekjur af fjármagni. Það frv. fjallar fyrst og fremst um stórfellda niðurfellingu á sköttum á arðgreiðslum og að ívilna hinum efnameiri í þjóðfélaginu. Niðurstaðan gæti því hugsanlega orðið sú samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar að um skattalækkanir yrði að ræða, þ.e. minni tekjur fyrir ríkissjóð.

En hvers vegna og til hvers er leikurinn gerður? Menn hafa löngum spurt sig hvernig á því standi að miklar fjármagnstekjur skuli ekki vera skattlagðar. Eftir því sem tíminn hefur liðið hefur þeim að sönnu fækkað sem hafa spurt sig þeirrar spurningar því svarið hefur verið augljóst. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur verið sérstaklega annt um að vernda þennan hluta samfélagsins, þ.e. þá sem hafa efnin, þá sem eiga fjármagnið. En andstaðan í þjóðfélaginu hefur engu að síður farið vaxandi. Ranglætið hefur verið hverju barni svo augljóst að um þessi efni hefur verið talað mjög varfærnislega í Stjórnarráðinu.

Fyrir tæpum fjórum árum var síðan kveðið upp úr með það af hálfu forsrh. að nauðsynlegt væri að setja á fjármagnsskatt af sálfræðilegum ástæðum. Af sálfræðilegum ástæðum, sagði hæstv. forsrh. Það þyrfti að setja á fjármagnstekjuskatt til að friða fólk, friða verkalýðshreyfinguna og til að þjóðin héldi ró sinni. Ekki að undra að þessi sama þjóð hefur í hálfan annan áratug búið við einhverja hæstu vexti sem finnast á byggðu bóli en jafnframt verið nær eina þjóðin innan OECD sem ekki hefur skattlagt þann gróða sem hátt vaxtastig hefur fært eigendum fjármagnsins. Það var t.d. rangt sem fram kom í máli hv. þm. Tómasar Inga Olrich hér áðan að Bandaríkjamenn greiddu ekki skatt af vöxtum eða skatt af arði. Þvert á móti eru vextir og arður skattlagðir í Bandaríkjunum eftir á samkvæmt sömu reglum og gilda um aðrar skattskyldar tekjur.

Til upprifjunar nefndi ég að fyrir tæpum fjórum árum sagði hæstv. forsrh. að það þyrfti af sálfræðilegum ástæðum að setja hér á vaxtatekjuskatt til að friða menn. Frv. þess efnis hefur nú verið sett fram. Frv. ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir að skattlagning af arði, útgreiddum gróða, lækki úr 42--47% niður í 10% en til að vega þar upp á móti kemur síðan 10% flatur fjármagnstekjuskattur með þeim undantekningum sem ég vék að áðan, skattleysismörkum fyrir hátekjumenn í fjármagnsgróðanum upp á 2,8 millj. kr. fyrir einstaklinga og yfir 5,5 millj. kr. fyrir hjón.

Í umræðum um þessi frv. tvö hefur verið sýnt fram á hvernig frv. ríkisstjórnarinnar lækkar skatta hjá stórefnafólki en hinn almenni sparifjáreigandi er látinn borga brúsann. Einhverju þarf að kosta til, sagði hæstv. utanrrh. hér í umræðu í gær. Það þarf stundum að kaupa hlutina einhverju verði, sagði hann. Og tók síðan til við að hafa yfir hugmyndafræði reaganismans um það hvernig skattalækkanir á fyrirtæki gögnuðust öllum þegar fram líða stundir.

Stórfenglegastar af öllu eru hins vegar yfirlýsingar um að þetta séu einhverjar sérstakar kröfur verkalýðshreyfingarinnar. Innan ASÍ munu vissulega hafa verið orðaðar hugmyndir um 10% fjármagnstekjuskatt en aldrei hef ég heyrt þau samtök leggja sérstaklega til stórfelldar skattalækkanir á arðgreiðslur. Það hefur aldrei komið fram hjá þeim samtökum. Öðrum heildarsamtökum á vinnumarkaði hefur verið haldið fyrir utan þessa vinnu, beinlínis verið haldið frá þessari vinnu. Má nefna sem dæmi að þegar þessi vinna var að fara í gang óskaði BSRB skriflega formlega eftir því við ríkisstjórnina að fá að koma að þessu máli. Þær kröfur voru hins vegar hunsaðar. Allt tal um að stjfrv. sé eitthvert sérstakt plagg verkalýðshreyfingarinnar er því rangt, þetta eru rangar fullyrðingar og reyndar ótrúlega ósvífnar. Það er ósvífni að halda því fram að þetta frv. sem ríkisstjórnin reiðir nú fram um stórfelldar skattívilnanir fyrir hátekjumenn landsins, skattívilnanir til þeirra sem njóta arðgreiðslna eða mikilla tekna af fjármagni, séu á forsendum verkalýðshreyfingarinnar. Það er rangt, beinlínis rangt.

Er þá komið að síðasta kafla þessa máls. Ef menn ekki samþykkja skattalækkunarfrv. ríkisstjórnarinnar með öllum ívilnunum til stóreignafólksins hafa menn komið í veg fyrir að hér verði settur á fjármagnstekjuskattur. Þetta bunaði upp úr mörgum talsmönnum ríkisstjórnarinnar í gær. Ég vissi ekki betur en ríkisstjórnin hefði það á stefnuskrá sinni að koma hér á fjármagnstekjuskatti. Ég vissi ekki betur en að hún hefði lofað kjósendum því að koma hér á fjármagnstekjuskatti. Það mun ég fyrir mitt leyti styðja en ég á erfitt með að kyngja síkum skatti sem eins konar eftirrétti á eftir aðalréttinum á veisluborði fjmrh., skattalækkun til stórefnamanna upp á hundruð milljóna kr. Það þarf meira en litla ósvífni til að reyna að stilla heilu þingi og heilli þjóð upp við vegg með þessum hætti.