Skaðleg íblöndunarefni í bensín

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 14:11:05 (4974)

1996-04-18 14:11:05# 120. lþ. 122.91 fundur 254#B skaðleg íblöndunarefni í bensín# (umræður utan dagskrár), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[14:11]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það kann að vera rétt sem kom fram í lokaorðum hv. málshefjanda að það þurfi að skoða þetta mál betur og sjálfsagt að beita sér fyrir því. Ég þakka honum fyrir að vekja athygli á því, eins athugasemdum frá öðrum hv. þm. sem hafa tekið til máls. Eins og kom fram í máli hv. 4. þm. Austurl. verður ekki bæði haldið og sleppt. Reyndar gera menn það yfirleitt ekki. Menn geta ekki bæði haldið og sleppt heldur verða menn að vega og meta hvað er nauðsynlegt að gera og hvað er rétt að gera og eins og fram kom hjá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur var mjög sterkur áróður fyrir því að það bæri að draga úr notkun blýbensínsins. Jafnframt er ljóst af mælingum að verulega hefur dregið úr blýi í andrúmslofti. Það höfum við auðvitað séð og skoðað þannig að sá árangur hefur a.m.k. náðst en e.t.v. höfum við orðið að kaupa það með öðrum ókostum sem því geta fylgt um sinn, að nýta bætiefni fyrir þá bíla sem þurfa blýbensínið. Það verður auðvitað að skoða. Ég mun láta athuga hvort Hollustuverndin, sem ég byggði svar mitt fyrst og fremst á upplýsingum frá, hefur ekki farið að fyrirmælum sem reglugerðin kveður á um sem hv. 4. þm. Austurl. minnti á. Ég leyfi mér að ætla að svo sé þegar það er sérstaklega tekið fram í svari frá þeim og vitnað til reglugerðarinnar sem kveður á um það magn sem megi vera af þessum efnum í bensíni en undirstrika aftur sem ég sagði áðan að það er óljóst hvaðan þær upplýsingar koma. Með því að hætta sölu blýbensíns muni magn krabbameinsvaldandi efna í andrúmslofti vaxa um svo og svo mikið eftir því sem fram kom í máli hv. málshefjanda. Þær upplýsingar sem við höfðum til að styðjast við í svarinu virðast ekki vera nægjanlega ljósar eða skýrar. Auðvitað þarf að reyna að komast til botns í því að það sé ekki misræmi í þessum upplýsingum og við þurfum þá að meta sjálfstætt með aðstoð sérfræðinga hver er raunveruleikinn eða staðreyndin eins og fram kom hjá hv. 15. þm. Reykv.