Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 14:22:40 (4976)

1996-04-18 14:22:40# 120. lþ. 122.9 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[14:22]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Frv. þetta felur í sér nauðsynlegar breytingar á tekjustofnalögum vegna kostnaðar á tekjutilfærslu frá ríki til sveitarfélaga í tengslum við þá ákvörðun að allur kostnaður grunnskóla skuli greiddur af sveitarfélögum.

Lögin um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, nr. 87/1989, sem tóku gildi 1. jan. 1990, fólu í sér að kostnaður af skólaakstri, rekstri mötuneyta og fleiri rekstrarþáttum grunnskóla færðist yfir á sveitarfélögin ásamt öllum stofnkostnaði vegna grunnskólahúsnæðis. Jafnframt var reglum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga breytt þannig að fámennari sveitarfélög fengu grunnskólaframlög til skólaaksturs barna úr dreifbýli og stofnkostnaðarframlög til grunnskólabygginga. Ríkið greiddi áfram að mestu laun vegna kennslu í grunnskólum.

Með lögum um grunnskóla, nr. 66/1995, var lögfest að allur kostnaður grunnskóla skuli greiddur af sveitarfélögum. Í lögum er gert ráð fyrir að allur launakostnaður vegna kennslu í grunnskólum flytjist frá ríki til sveitarfélaga ásamt rekstrarkostnaði ýmissa tengdra stofnana, eins og sérskóla ríkisins, sérdeilda og fræðsluskrifstofa. Lögin koma að fullu til framkvæmda 1. ágúst 1996, enda hafi Alþingi þá m.a. samþykkt nauðsynlegar breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga með tilliti til þeirra auknu verkefna sem sveitarfélögin taka að sér samkvæmt grunnskólalögunum eins og kveðið er á um í c-lið 1. mgr. 57. gr. laganna. Frv. þetta er m.a. flutt til að uppfylla þessa lagaskyldu.

Hinn 4. mars sl. gerðu ríki og sveitarfélög með sér samkomulag um kostnaðar- og tekjutilfærslu vegna flutnings grunnskólans.

Í 1. tölul. samkomulagsins segir m.a. svo:

,,Til að mæta kostnaði sveitarfélaga við framkvæmd grunnskólalaga verði gerð breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem heimili 11,9% hámarksútsvar þann 1. jan. 1997 og 11,95% þann 1. jan. 1998.``

Í 2. tölul. samkomulagsins segir jafnframt:

,,Til að tryggja framgang lagaáforma um einsetningu grunnskólans verji ríkissjóður allt að 265 millj. kr. á ári af tekjuskatti áranna 1997--2001 til að styrkja framkvæmdir við grunnskólabyggingar sem ríkissjóður mun fjármagna án þess að auka halla ríkissjóðs. Féð skal renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Til viðbótar framlagi ríkisins til stofnframkvæmda í grunnskólum renni árlegt lögbundið framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Lánasjóðs sveitarfélaga á árunum 1997--2002, 135 millj. kr. á ári.

Fé þessu verði varið til að greiða allt að 20% af normkostnaði við grunnskólabyggingar í sveitarfélögum með yfir 2.000 íbúa á árunum 2007--2002 í samræmi við norm og reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eins og þær eru hverju sinni. Sá hluti fjárhæðarinnar sem sveitarfélögin nýta ekki á viðkomandi ári verði færanlegur milli ára innan tímabilsins. Þannig verði framlag ríkisins að hámarki 1.325 millj. kr. á tímabilinu.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga setji nánari reglur um norm á úthlutun fjárins að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga og skulu þær taka mið af gildandi reglum um hliðstæð framlög til sveitarfélaga með innan við 2.000 íbúa.``

Að lokum segir svo í 12. og 13. tölul. samkomulagsins: ,,Árið 2000, fyrir 1. ágúst, verði kostnaður og tekjuþörf við framkvæmd grunnskólalaganna endurmetin í ljósi reynslunnar.

Verði veruleg röskun á þeim forsendum sem samkomulag þetta byggir á skulu teknar upp viðræður milli samningsaðila með það að markmiði að lagfæra það sem úrskeiðis hefur farið.``

Herra forseti. Þetta frv. er samið á vegum félmrn. í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga og í samræmi við framangreint samkomulag ríkis og sveitarfélaga um kostnaðar- og tekjutilfærslu vegna flutnings grunnskólans. Efnisatriði frv. skiptast einkum í þrennt:

1. Um hækkun útsvars í samræmi við 1. lið samkomulags ríkis og sveitarfélaga um kostnað og tekjutilfærslu vegna flutnings grunnskólans.

2. Ákvæði um framlag ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til grunnskólabygginga til að tryggja lagaáform um einsetningu grunnskólans skv. 2. lið samkomulagsins.

3. Ákvæði um jöfnunaraðgerðir sem eru forsenda fyrir því að hægt sé að flytja grunnskólakostnaðinn til sveitarfélaga.

Útreikningar í tengslum við yfirfærslu á grunnskólakostnaði frá ríki til sveitarfélaga hafa leitt í ljós að grípa þarf til jöfnunaraðgerða enda er um mikinn viðbótarkostnað sveitarfélaga að ræða. Slíkar jöfnunaraðerðir sveitarfélaga verða best framkvæmdar í gegnum jöfnunarsjóð.

Kennslukostnaður í grunnskólum landsins er misjafn sem aðallega ræðst af hagkvæmni skólaeininga. Þeim mun fjölmennari sem skólinn er þeim mun ódýrari er hann á hvern nemanda. Það sem endurspeglar kennslukostnað grunnskóla er fjöldi kennslustunda en ljóst er að fylgni er á milli kennslutímafjölda og kennslukostnaðar. Með aðstoð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verður leitast við að jafna sem mest mismunandi kostnað einstakra sveitarfélaga á þessu sviði. Stærstur hluti jöfnunarfjárins fer í almennar jöfnunaraðgerðir en einnig mun jöfnunarsjóðurinn m.a. greiða framlög vegna sérkennslu fatlaðra nemenda.

Herra forseti. Ég kem þá að því að ræða einstakar greinar frv. Vegna lækkunar á skatttekjum ríkissjóðs við hækkun á hlut sveitarfélaga í staðgreiðslunni og til þess að tryggja Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sömu tekjur og áður er lagt til í a-lið 1. gr. að beint fjárframlag úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga samkvæmt b-lið 8. gr. gildandi laga hækki úr 0,227% í 0,264% vegna flutnings grunnskólans til sveitarfélaga. Þessi hækkun gefur 94 millj. 457 þús. kr. en það eru þær tekjur sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga yrði af vegna lækkaðra skatttekna ríkissjóðs.

[14:30]

Í b-lið greinarinnar er lagt til að inn komi nýr liður, er verði c-liður, en núverandi c-liður verður þá óbreyttur að d-lið greinarinnar. Í nýja liðnum er byggt á því að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái 0,74% af álagningarstofni útsvars ár hvert. Er nauðsynlegt að auka tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með þessum hætti svo hann geti staðið undir þeim auknu skyldum sem á hann verða lagðar.

Í 2. gr. eru ákvæði um svokölluð bundin framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, þ.e. framlög til Sambands ísl. sveitarfélaga, landshlutasamtaka sveitarfélaga, Lánasjóðs sveitarfélaga og Innheimtustofnunar sveitarfélaga.

Vegna aukinna verkefna Sambands ísl. sveitarfélaga og aðstoðar við sveitarfélögin í landinu vegna flutnings grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga er nauðsynlegt að auka tekjur Sambands ísl. sveitarfélaga. Eðlilegt er að sambandið fái því hlutdeild í öllum helstu tekjustofnum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, þ.e. í a- og b-lið 8. gr., eins og nú er, svo og í c-lið sömu greinar, sem sérstaklega er stofnað til vegna yfirtöku sveitarfélaganna á grunnskólanum. Áætlaðar tekjur sjóðsins árið 1997 eru 3 milljarðar 988 millj. 688 þús. og 235 kr. á núverandi verðlagi og miðast tekjur Sambands ísl. sveitarfélaga við 1,58% af þeirri fjárhæð en það er 26 millj. kr. hækkun frá því sem nú er.

Gert er ráð fyrir að framlög til landshlutasamtaka sveitarfélaga og Lánasjóðs sveitarfélaga miðist áfram við tekjur samkvæmt a- og b-lið 8. gr. og verði þannig óbreytt.

Í 3. gr. er lagt til að framlög til kostnaðarsamra stofnframkvæmda hjá fámennum sveitarfélögum og til að aðstoða dreifbýlissveitarfélög við að standa undir tilteknum rekstrarþáttum verði óbreytt frá því sem verið hefur en hækki ekki sjálfkrafa vegna aukinna tekna sjóðsins.

Í 4. gr. eru lagðar til verulegar breytingar. Í b-lið 1. mgr. er lagt til að þjónustuframlögum skuli, auk þess sem áður er talið upp í liðnum, varið til þess að jafna launakostnað sveitarfélaga vegna flutnings grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga, svo og til að jafna annan kostnað sem af flutningnum hlýst. Á grundvelli þessa ákvæðis er gert ráð fyrir að meginjöfnunin fari fram vegna mismunandi kennslukostnaðar sveitarfélaga. Nauðsynlegt er að taka sérstaklega fram að þjónustuframlögin fari einnig í að jafna annan kostnað sem af verkefnaflutningum hlýst.

Í 2. mgr. kemur fram hvaða tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru til ráðstöfunar til jöfnunarframlaga. Annars vegar er lagt til það nýmæli að öllum tekjum sjóðsins samkvæmt c-lið 8. gr., að frádregnu framlagi Sambands ísl. sveitarfélaga samkvæmt a-lið 10. gr., skuli varið til þess að jafna launakostnað sveitarfélaga af kennslu í grunnskólum, svo og annan kostnað vegna flutnings grunnskólans, sbr. b-lið 1. mgr., að teknu tilliti til útreiknaðs kennslutímafjölda og álagningarstofns útsvars. Hins vegar er gert ráð fyrir að til jöfnunarframlaga skuli með sama hætti og í gildandi lögum jafnframt varið þeim tekjum sjóðsins sem eru umfram ráðstöfun samkvæmt 10. og 11. gr. laganna.

Þar sem fyrirhugað er að kennarar og skólastjórar verði áfram aðilar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er í 3. mgr. gert ráð fyrir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga taki á sig bakábyrgð á lífeyrissjóðsiðgjöldum skólastjóra og kennara (vanskilum sveitarfélaga) til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Til greiðslu af hálfu sjóðsins vegna vanskila sveitarfélaga af þessum sökum skal þó fyrst koma þegar vanskil hafa varað í sex mánuði eða lengur. Tilgangurinn með ákvæði þessu er að tryggja að reynt verði fyrst með tiltækum ráðum að innheimta vanskilin hjá viðkomandi sveitarfélagi en ekki gengið fyrst að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þá er sú skylda lögð á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga að halda eftir af framlögum einstakra sveitarfélaga því fjármagni sem sjóðurinn hefur innt af hendi vegna greiðsluábyrgðar sem til hefur orðið af þessum sökum auk dráttarvaxta og kostnaðar, eða innheimta skuldina með öðrum hætti.

Bætt er inn í 4. mgr. að í reglugerð skuli m.a. setja ákvæði um útreikning framlaga miðað við útgjaldaþörf sveitarfélaga með tilliti til launakostnaðar af kennslu í grunnskólum og annarra útgjalda sveitarfélaga vegna flutnings grunnskólans frá ríki til þeirra.

Í 5. gr. er lagt til að við 14. gr. laganna bætist ný lokamálsgrein sem gerir skólamálaskrifstofum sveitarfélaga og öðrum opinberum aðilum skylt að láta í té allar þær upplýsingar sem Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru nauðsynlegar til þess að geta tekið ákvörðun um úthlutun framlaga til stofnkostnaðar og reksturs grunnskóla. Með skólamálaskrifstofu er átt við þær stofnanir á vegum sveitarfélaga eða samtaka þeirra sem sinna málefnum grunnskólans. Það er nauðsynlegt til að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga geti gegnt hlutverki sínu með fullnægjandi hætti.

Í 6. gr. er lagt til að efri og neðri viðmiðunarmörk útsvars í 23. gr. laganna breytist vegna verkefnatilflutningsins. Lagt er til að efri mörkin hækki úr 9,2% í 11,95% og neðri mörkin úr 8,4% í 11,15%. Er þetta í samræmi við 1. tölulið í samkomulagi ríkis og sveitarfelaga frá 4. mars 1996.

Í 7. gr. er lagt til að við lögin bætist þrjú ný bráðabirgðaákvæði.

Í ákvæði til bráðabirgða I kemur fram í 1. mgr. að ríkissjóður skuli greiða fasta upphæð, 2 milljarða 734 millj. kr., með jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst 1996 til og með desember 1996 til sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Greiðslan rennur til sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til þess að standa straum af rekstri grunnskóla. Fram kemur að ákveðið hlutfall, 27%, af heildarframlagi og þar með hverri greiðslu skuli renna til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að breytingar á útsvarsprósentu taka ekki gildi fyrr en 1997.

Í ákvæði til bráðabirgða II er tekið fram með skýrum hætti í a-lið 1. mgr. að ríkissjóður skuli í janúar 1997 greiða til sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fjárhæð sem nemur 2,65% af staðgreiðslustofni í desember 1996, samanber lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Í b-lið sömu málsgreinar er jafnframt tekið fram að ríkissjóður skuli einnig greiða mánuðina ágúst til og með desember 1997 til sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, 2,65%, af þeim útsvarsstofni sem skattlagður er eftir á við álagningu útsvars árið 1997 vegna tekjuársins 1996 og ekki var innheimt staðgreiðsla af. Í 2. mgr. er með sama hætti og í ákvæði til bráðabirgða I ákveðið að tiltekinn hundraðshluti, 27%, af framlagi hvers mánaðar skuli greiddur sem framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Samkvæmt 3. mgr. er gert ráð fyrir að sett verði reglugerð þar sem fram koma nánari ákvæði um greiðslufyrirkomulag ríkissjóðs, skiptingu ríkisframlags til einstakra sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga ásamt ákvæðum um ráðstöfun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á framlagi sínu. Í 4. mgr. er tekið fram að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 23. gr. laganna skuli hámarksútsvar árið 1997 nema 11,9% og lágmarksútsvar 11,1% og er það í samræmi við 1. tölul. áðurgreinds samkomulags ríkis og sveitarfélaga frá 4. mars 1996. Ákvæðið kemur því til framkvæmda við álagningu útsvars á árinu 1998 vegna tekna á árinu 1997. Loks segir í 5. mgr. að þrátt fyrir ákvæði c-liðar 8. gr. laganna skuli hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitafélaga nema 0,73% af álagningarstofni útsvars árið 1997.

Í ákvæði til bráðabirgða III koma fram öll helstu efnisatriði 2. tölul. í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um kostnaðar- og tekjutilfærslu vegna flutnings grunnskólans frá 4. mars 1996, þ.e. ákvæðin um kostnaðarþátttöku ríkissjóðs og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í skólabyggingum til að tryggja einsetningu grunnskólans.

Gildistökuákvæðin í 8. gr. þarfnast ekki, herra forseti, sérstakra skýringa.

Að endingu þetta: Hér er um viðamikið samkomulag að ræða. Gott samkomulag tókst á milli sveitarfélaganna og ríkisins og fulltrúaráðsfundur Sambands ísl. sveitarfélaga samþykkti þetta samkomulag fyrir sitt leyti. Hér er um að ræða grundvallaratriði til þess að grunnskólinn megi færast yfir til sveitarfélaganna 1. ágúst.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.