Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 15:18:15 (4984)

1996-04-18 15:18:15# 120. lþ. 122.9 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[15:18]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Frá árinu 1990 hefur háttað þannig til að sveitarfélögin hafa séð um byggingu, rekstur og viðhald grunnskólanna. Það hefur hins vegar verið þannig að hafi sveitarfélögin einhverra hluta vegna viljað flytja skóla úr eldra grunnskólahúsnæði og yfir í nýtt, hefur þurft að gera um það samkomulag við ríkið hvort og þá til hvaða nota mætti taka hið eldra húsnæði vegna þess að ríkið hefur alla jafna átt þar nokkurn hlut. Ég hygg að í öllum tilfellum hafi sveitarfélögin getað tekið þetta eldra húsnæði til nota sem þau hafa talið eðlilegust á hverjum tíma. Þau hafa hins vegar sótt það mjög að fá þennan eignarhlut ríkisins afhentan, fá þetta húsnæði afhent til þeirra nota sem þau telja eðlilegust og best og í samræmi við bæði þær breytingar sem eru og hafa verið að eiga sér stað í sveitarfélögunum og það hlutverk sem þeim er ætlað í rekstri grunnskólans.

Þess vegna er sú yfirlýsing mjög mikilvæg sem kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan, þ.e. að við mættum vænta þingmáls sem lyti að því að ríkið ætlaði sér að afhenda sveitarfélögunum skólana til eignar, eða þann hlut sem ríkið á í þeim. Ég vil undirstrika hversu mikilvægt þetta er með því að koma hér upp og ítreka það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra, vegna þess að ég er ekki viss um að þetta hafi komið fram áður. Að minnsta kosti hefur það ekki gert það á þessum vettvangi, en sveitarstjórnarmenn hafa hins vegar leitað mjög eftir því að fá þessa yfirlýsingu. Ég vil því nota þetta tækifæri til að fagna því að hún er fram komin.