Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 16:04:40 (4991)

1996-04-18 16:04:40# 120. lþ. 122.9 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:04]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi reynsluna af því að mörg sveitarfélög reki sama grunnskólann eða reki grunnskóla saman, þá kemur þetta alveg þvert ofan í fullyrðingar hv. síðasta ræðumanns. Það kom alveg þvert ofan í þá reynslu sem ég hef og þá þekkingu sem ég hef úr mínu kjördæmi. Það kann að vera að í Norðurl. v. séu menn samvinnufúsari og liprari hverjir við aðra en í öðrum kjördæmum. Þar eru margir skólar sem eru samvinnuverkefni lítilla sveitarfélaga. Ég minnist þess varla að árekstrar hafa orðið á milli sveitarfélaga sem á annað borð hafa komið sér saman um að hefja skólabyggingar saman og reka skóla. Ég þekki t.d. til á Húnavöllum í minni heimabyggð þar sem eru sjö sveitarfélög sem standa að rekstri Húnavallaskóla. Ég minnist þess ekki að það hafi nokkurn tíman orðið ágreiningur út af rekstri skólans og hann hefur verið fjárhagslega rekinn með myndarskap.

Varðandi litlu sveitarfélögin og einsetninguna sem hv. ræðumaður endaði á, þá er það nú svo að litlu sveitarfélögin eru öll eða flestöll nú þegar búin að einsetja. Vandinn liggur fyrst og fremst hjá stóru sveitarfélögunum sem eru í örum vexti. Þar vantar talsvert á að einsetning sé komin á og þess vegna er þetta þjóðarátak gert. Ríkisvaldið gengur í þetta mál með þessum stóru sveitarfélögum vegna þess að við trúum því að einsetning sé af hinu góða.