Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 16:06:44 (4992)

1996-04-18 16:06:44# 120. lþ. 122.9 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:06]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg laukrétt hjá hæstv. ráðherra að það eru fyrst og fremst litlu sveitarfélögin sem hafa staðið vel að uppbyggingu sinna skóla og vandamálið um einsetningu er fyrst og fremst í fjölmennu sveitarfélögunum. En það er komið til af tvennu. Þetta eru áhersluatriði. Það eru pólitískar áherslur sem engurspegla það að í litlu sveitarfélögunum hafa menn tekið þetta verkefni fram yfir önnur og staðið vel að sínum málum. Í öðru lagi hafa þau fullnýtt sína tekjustofna til að afla tekna til að standa undir því. Á móti hafa önnur verkefni verið látin sitja á hakanum. En í stóru sveitarfélögunum sumum hverjum hafa menn ekki einu sinni lagt á þá skatta sem þeir hafa getað. Sú pólitíska stefna hefur verið rekin að skilja peningana eftir hjá gjaldendunum. Það er út af fyrir sig allt í lagi með það. Menn geta haft þá stefnu. En menn verða þá að fórna því á móti að hafa ekki peninga til að vinna verkefnin. Það sem ég er að gagnrýna er að ríkisstjórnin er að verðlauna þær sveitarstjórnir sem hafa lagt á lægri skatta með því að hafa sérstakan tekjuskatt á alla landsmenn til að færa yfir í þau sveitarfélög. Mér finnst það ósanngjarnt fyrir hönd þeirra sveitarfélaga sem hafa lagt á fulla skatta til að standa undir sínum verkefnum.

Hvað varðar samstarfsverkefni sveitarfélaga, þá var ég ekki að tala sérstaklega um reynsluna af því að reka saman grunnskóla. Ég get tekið undir það að almennt þar sem ég veit um hefur verið nokkuð góð sátt um þann samrekstur, þó að vissulega séu dæmi um hið gagnstæða. En það sem ég átti við var almennt og þá fyrst og fremst á öðrum sviðum í samstarfi sveitarfélaga, þar sem sveitarstjórnarmenn sjálfir eru orðnir yfir sig þreyttir á því hversu þunglamalegt það er að taka ákvarðanir í byggðasamlögum og öðrum slíkum verkefnum sem menn koma upp stofnunum til þess að sinna. En það er hins vegar að nokkru leyti annað mál en hér er til umræðu.