Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 16:10:50 (4994)

1996-04-18 16:10:50# 120. lþ. 122.5 fundur 443. mál: #A fjáraukalög 1995# (greiðsluuppgjör) frv. 82/1996, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:10]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til síðari fjáraukalaga ársins 1995. Frv. hefur verið lagt fram á þskj. 775 og er 443. mál þingsins.

Með frv. eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöðutölur fyrir árið 1995, annars vegar um óhafnar fjárveitingar og hins vegar um greiðslur úr ríkissjóði umfram heimildir í fjárlögum ársins 1995 og í fyrri fjáraukalögum ársins 1995 sem eru lög nr. 163/1995.

Í greinargerð með frv. að fyrri fjáraukalögum ársins 1995 sem lagt var fram á Alþingi 6. okt. sl. er fjallað um meginatriðin í framvindu ríkisfjármála á árinu 1995 og skýrð helstu frávik gjalda og tekna frá fjárlögum. Þar er einnig gerð grein fyrir nýjum fjárveitingum sem leitað var eftir í frv. til viðbótar við heimildir fjárlaga. Þá var í lok febrúar sl. lögð fyrir Alþingi skýrsla um ríkisfjármál fyrir árið 1995 þar sem afkoma ríkissjóðs er borin saman við áform samkvæmt fjárlögum. Ég tel því ekki þörf á að fjalla um einstök atriði frv. heldur vísa til þessara upplýsinga en til viðbótar þeim hefur Ríkisendurskoðun nýlega gefið út skýrslu sína um ríkisfjármál og framkvæmd fjárlaga l994.

Greiðsluhalli ríkissjóðs á árinu 1995 varð 8,9 milljarðar kr. eða 1,5 milljörðum kr. hærri en áætlað var í fjárlögum. Það svarar til um 1,4% af tekjuáætlun fjárlaga. Þessi niðurstaða er í samræmi við áætlun fjmrn. frá því í haust, en hún kom fram í frv. að fyrri fjáraukalögum ársins 1995. Frávikið frá þeirri áætlun nemur einungis 16 millj. kr. á tekjuhlið og 27 millj. á gjaldahlið. Frávik útgjalda frá fjárlögum nam hins vegar samtals 3,8 milljörðum kr. Það má að stærstum hluta rekja til áhrifa kjarasamninga sem gerðir voru á liðnu ári en einnig til sparnaðaráforma í heilbrigðismálum sem gengu ekki eftir. Á móti komu auknar tekjur að fjárhæð 2,3 milljörðum kr. þar sem efnahagsbatinn var meiri en miðað var við í forsendum fjárlaga.

Ég vil benda á að skýringar á helstu frávikum hvers ráðuneytis frá fjárheimildum koma fram í greinargerð frv. við 3. gr. frv. Þar er leitað staðfestingar á greiðslum einstakra fjárlagaliða umfram heimildir ársins 1995. Þar á móti koma óhafnar fjárveitingar ráðuneyta sem lagðar eru saman í eina tölu fyrir hvert ráðuneyti. Þessari heimildastöðu fjárlagaliða í árslok er ráðstafað eins og kunnugt er með svonefndum yfirfærslum heimilda milli ára. Er það gert þannig að framlög í gildandi fjárlögum eru hækkuð eða lækkuð í fyrri fjáraukalögum hvers árs með tilliti til stöðunnar í lok liðins árs.

Í greinargerð þessa frv. kemur fram hvernig gert er ráð fyrir að þessum breytingum á framlögum ársins 1996 verði hagað, í samræmi við vinnureglur sem stuðst hefur verið við undanfarin ár og birtar hafa verið í fyrri frv. til fjáraukalaga. Slíkt fjáraukalagafrv. kemur að sjálfsögðu ekki fram fyrr en næsta haust.

Virðulegi forseti. Til skýringar er rétt að fara nokkrum orðum um yfirlit sem birt er á bls. 10 í frv. undir fyrirsögninni ,,Breytingar framlaga 1996 vegna óhafinna fjárveitinga og umframgjalda 1995``. Fyrstu tveir talnadálkarnir í töflunni sýna umframgjöld og óhafin framlög hvers ráðuneytis árið 1995. Þar er því um að ræða þá stöðu heimilda í árslok sem lögð er fyrir í 1.--3. gr. frv. Mismunur þessara tveggja talnadálka, nettóstaðan, nemur 2 milljörðum og 94 millj. kr. en það er sú viðbótarheimild sem leitað er staðfestingar á með frv. eins og sjá má í útgjaldasamtölum 1. og 2. gr. Í næstu fjórum talnadálkum yfirlitsins á bls. 10, þ.e. í dálkum 3--6, er einnig sýnt fyrir hvert ráðuneyti hvernig fyrirhugað er að ráðstafa stöðu heimildanna til ársins 1996. Í 3. og 4. talnadálkinum er sýnt sérstaklega hvaða umframgjöld og afgangsgjöld í rekstri ráðuneyta munu koma til breytinga á framlögum yfirstandandi árs, en í 5. og 6. dálkinum er sýnd nettóstaða tilfærslna, viðhalds og stofnkostnaðar sem þannig færist milli ára. Ef niðurstöðutölur þessara dálka eru lagðar saman kemur í ljós að gert er ráð fyrir að um 1.600 millj. kr. komi til viðbótar fjárveitingum í fjárlögum þessa árs. Þar af verði um tveir þriðju hlutar vegna viðhalds og stofnkostnaðar en afgangurinn vegna tilfærslna. Flutt umframgjöld og afgangsheimildir í rekstri eru svona um það bil jafnháar.

[16:15]

Mismunurinn á stöðu heimilda í árslok 1995 samkvæmt dálkum 1--2 í töflunni annars vegar og fyrirhuguðum yfirfærslum til ársins 1996 samkvæmt dálkum 3--6 hins vegar eru umframgjöldin og afgangsheimildirnar sem gert er ráð fyrir að falli niður vegna uppgjörs ársins 1995. Sú fjárhæð nemur samtals 470 millj. kr. Þetta þýðir að ef lagðir eru saman dálkar nr. 3, 4, 5 og 6 og samtalan dregin frá nettótölu dálka nr. 1 og 2, að út kemur talan 470 millj. Með öðrum orðum er þar um að ræða stöðuheimildir sem af ýmsum ástæðum verður ekki ráðstafað til ársins 1996, t.d. afgangur á vaxtalið ríkissjóðs. Þannig er gert ráð fyrir að af óhöfnum fjárveitingum samkvæmt talnadálki 2 í töflunni falli 800 millj. kr. niður en 2,6 milljarðar kr. komi til viðbótar fjárveitingum ársins 1996. Á sama hátt falli tæplega 400 millj. kr. niður af umframgjöldum í dálki 1, en um einn milljarður kr. komi til skerðingar á framlögum í gildandi fjárlögum. Greint er frá einstökum atriðum í þessum ráðstöfunum í skýringum við 3. gr. frv. Þá er í fskj. 1 með frv. frekari sundurgreining eftir fjárlagaliðum á þessum fyrirhuguðu breytingum framlaga ársins 1996.

Ég vil árétta að þótt þessar fyrirhuguðu breytingar framlaga séu kynntar í grg. með frv. eru þær ekki lagðar fram til ákvörðunar með talnaefninu í einstökum greinum frv. Þær tillögur munu taka til framlaga þessa árs og verða lagðar fram í frv. til fyrri fjáraukalaga ársins 1996. Mun ég því ekki fjalla nánar um þessi atriði að sinni, en þau eru að sjálfsögðu lögð fram með þessu frv. þannig að hv. þingmenn geti glöggvað sig á því sem koma skal síðar á þessu ári þegar frv. er endanlega gert upp.

Það skal tekið fram og hefur margoft verið rætt úr þessum ræðustól hve mikilvægt það er að geta fært á milli ára heimildir af þessu tagi. Það hefur að mínu áliti og flestra annarra stórbætt ríkisreksturinn og kemur mörgum vel. Meðal annars kemur það í veg fyrir að menn séu að eyða öllum heimildum sem þeir hafa í lok ársins af ótta við að þeim verði hegnt á næsta ári. Það eru því ýmis sterk rök fyrir því að fara svona að eins og margoft hefur verið rætt.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að við 1. umr. þessa máls fari fram ítarleg umræða um einstakar greinar. Ég legg hins vegar til að málinu verði vísað til hv. fjárln. að aflokinni 1. umr. og hún mun væntanlega sem endranær fara mjög vandlega ofan í einstaka þætti málsins. Síðan vil ég beina þeim tilmælum til hæstv. forseta að málinu verði vísað til 2. umr.