Brú yfir Grunnafjörð

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 10:37:16 (5000)

1996-04-19 10:37:16# 120. lþ. 123.9 fundur 56. mál: #A brú yfir Grunnafjörð# þál., Flm. GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[10:37]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Þegar þingmenn Vesturl. á sínum tíma fluttu þáltill. um vegtengingu yfir eða undir Hvalfjörð fylgdi þar með hugmynd um hvernig haldið skyldi áfram með vegtengingu um Grunnafjörð. Þeim hluta þáltill. hefur ekki verið sinnt. Þess vegna set ég fram svohljóðandi þáltill. um brú yfir Grunnafjörð:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta gera hagkvæmnisrannsókn á gerð brúar yfir Grunnafjörð á milli Súlueyrar í Melahreppi og Hvítaness í Skilmannahreppi. Stefnt verði að brúargerð þegar sú athugun hefur farið fram reynist hún hagkvæm. Veglína þessi verði hluti næstu vegáætlunar fyrir Vesturland.``

Í þessari stuttu tillögu er ekki gert annað en að huga að framtíðinni og í ljósi þess hversu umfangsmiklar umhverfisrannsóknir og umhverfismat er við slíkar framkvæmdir, tel ég ástæðu til að setja þetta mál fram nú með þeim áhersluatriðum að sé um hagkvæma vegframkvæmd að ræða, verði gripið til hennar í fyllingu tímans. Í greinargerð segir að verði af gerð jarðganga undir Hvalfjörð eins og allar líkur benda til og þjóðvegur liggi vestan Akrafjalls, er augljóst að sú tillaga sem hér er verið að leggja fram hlýtur að teljast mjög fýsilegur kostur. Þessir kostir eru þeir helstir að um er að ræða styttingu vegar um 7--10 km frá höfuðborgarsvæði vestur og norður í land og í öðru lagi styttingu vegar milli Borgarness og Akraness. Þannig myndast góðir möguleikar á auknum samskiptum sveitarfélaganna í fjölmörgum málaflokkum. Betri veglína yrði að brú frá þjóðvegi 1 á Hafnarmelum og á brú frá Akranesvegi. Ótraust raflína, sem hefur verið á möstrum yfir ósinn, færi í jarðstreng í brúnni. Í fimmta lagi skapaðist möguleiki í Grunnafirði fyrir fiskirækt í framhaldi af brúargerð.

Eins og ég gat um í upphafi felur tillagan í sér að gerð verði úttekt á möguleikum brúargerðar og færslu veglínu sem yrði hagkvæm með langtímamarkmið í huga. Það er reiknað með að veglína og brúargerð þessi falli á eðlilegan máta inn í áætlanir Vegagerðarinnar. Ég sé ekki sérstaka ástæðu til að fjölyrða mjög um möguleika til atvinnusköpunar og tengingar atvinnufyrirtækja í framhaldi af þessari tillögu. Það staðfesta margar greinargerðir og skýrslur frá Byggðastofnun og fleiri aðilum. Það er mjög mikilsvert að það verði gerð góð úttekt á þessu máli. Samgöngubætur milli Akraness og Borgarness leiða til styrktar atvinnusvæðis og meiri hagkvæmni atvinnufyrirtækja í sveitarfélögum norðan og sunnan Skarðsheiðar. Meginrökin fyrir flutningi þessarar þáltill. eru að það er nauðsynlegt að fyrir liggi gott skipulag, það liggi fyrir athugun í formi hagkvæmnisrannsókna á því hvort þessi vegagerð eða vegtenging sé möguleg. Ég ræði ekki frekar um það hversu mikill styrkur það yrði fyrir svæðin Akranes, Borgarnes og nærsveitir að stytta vegalengdina þarna á milli. Auk þess er það klárt mál að um mikið öryggisframfaraspor yrði að ræða þar sem allar aðstæður virðast vera fyrir betri veg á þessum slóðum.

Að lokinni umræðu legg ég til að þessari þáltill. verði vísað til samgn., herra forseti. Ég tel ekki þörf á að gera frekari grein fyrir þessu máli nema ítreka að þegar þingmenn Vesturlands fluttu sameiginlega þáltill. um jarðgöng eða brúargerð yfir Hvalfjörð, fylgdi þetta með. Þess vegna endurvek ég þetta mál.