Brú yfir Grunnafjörð

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 10:43:12 (5001)

1996-04-19 10:43:12# 120. lþ. 123.9 fundur 56. mál: #A brú yfir Grunnafjörð# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[10:43]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu tillaga sem tengist samgöngubótum á Vesturlandi. Ég þakka hv. frsm. fyrir að mæla fyrir þessari tillögu. Hér er ekki alveg nýtt mál á ferðinni eins og reyndar kom fram í framsögu hv. þm. Þetta mál hefur verið til umræðu árum saman í Vesturlandskjördæmi í tengslum við samgöngumálin.

Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að farið verði eftir tillögu flm. og þetta mál skoðað og metið. Það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir niðurstaða um það hvort þessi framkvæmd er möguleg og með hvaða hætti. Síðan þarf að sjálfsögðu að meta kostnað. Það er ýmislegt sem tengist þessu máli og vil ég þar m.a. nefna umhverfismál. Heyrst hafa raddir um að það sé vafamál að mögulegt sé og gerlegt að fara í þessa framkvæmd vegna náttúrulífs í Leirárvogum við botn Grunnafjarðar. En það mun koma í ljós við þá úttekt sem fer fram ef þessi tillaga verður samþykkt.

Ég vil taka undir með hv. flm. að þarna er um að ræða mjög mikilvægt mál fyrir byggðir á þessu svæði. Með tilkomu slíkrar brúar færast saman byggðirnar á Akranesi og Borgarnesi og það styrkir það þjónustusvæði og atvinnusvæði sem þar hefur þegar myndast. Og það er að sjálfsögðu til bóta.

Varðandi það að taka þessa framkvæmd síðar inn á vegáætlun vil ég benda á að víða bíða fjölmargar stórar framkvæmdir í kjördæminu, ef við getum orðað það svo, sem hafa beðið í mörg ár og íbúar víða í kjördæminu bíða eftir með óþreyju. Mér er ekki ljóst hvort þessi framkvæmd muni koma á allra næstu árum til framkvæmda eða á vegáætlun. Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að unnið verði eftir þeim áætlunum sem þegar liggja fyrir og íbúarnir hafa beðið eftir og eru mjög mikilvægar fyrir vöxt og viðgang byggðar og búsetu í kjördæminu. Þar nefni ég m.a. Snæfellsnes, Dali og uppsveitir Borgarfjarðar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta. Ég ítreka það sem ég sagði. Ég þakka hv. flm. fyrir þessa tillögu og tel mjög eðlilegt og sjálfsagt að farið verði að tillögu hans og þetta mál verði tekið til skoðunar og úttektar.