Samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 11:03:31 (5006)

1996-04-19 11:03:31# 120. lþ. 123.10 fundur 309. mál: #A samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum# þál., Flm. GMS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[11:03]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Mér þykir verra að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson --- nei, hann er kominn aftur. Ég ætlaði aðeins að fá að beina orðum mínum að hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um arðsemiskröfu og arðsemi sem ekki er nægjanleg í íslenskum fyrirtækjum. Ég er sammála honum um það. Hún er langt frá því nægjanleg og íslenskir hluthafar hafa lítt verið meðvitaðir um þann rétt sinn að gera kröfu um aukinn arð.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson nefndi um daginn að hingað væru komnir það sem hann kallaði nýfrjálshyggjumenn og átti þar við mig og hv. þm. Pétur Blöndal. Ég get vel gengist við þessu orði, nýfrjálshyggjumaður. Vegna þessara ummæla hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar og orða hv. þm. Péturs Blöndals um arðinn langar mig að skilgreina í örfáum orðum í hverju þessi nýfrjálshyggja felst. Hún felst í því að skilgreina arðinn út úr rekstrinum með nokkuð öðrum hætti en hingað til hefur tíðkast. Hingað til hefur arður yfirleitt verið skilgreindur sem það sem stendur eftir þegar búið er að draga frá allan rekstrarkostnað.

Ef ég má skilgreina nýfrjálshyggjuna með einföldum hætti, þá er hún í mínum huga þannig að hana aðhyllist fólk sem telur að reksturinn í þjóðfélaginu sé best kominn í höndum einkaaðila. Og við viljum skilgreina arðinn með nokkuð öðrum hætti. Við viljum skilgreina arðinn sem það sem kemur út úr viðkomandi rekstri í arð og launagreiðslur til starfsfólks þannig að þegar þetta tvennt er lagt saman skili það fyrirtæki bestum arði sem mest hefur lagt fram í þetta tvennt. Þessarar nýju skilgreiningar er oft getið í erlendum blöðum núna. Henni fylgir að þeir sem aðhyllast þetta taka upp nýja forgangsröðun. Reyndar segja menn: Númer eitt er hagur fyrirtækisins vegna þess að það er sá aðili sem á að standa undir þeim lífskjörum sem starfsmönnum er boðið upp á. Númer eitt er hagur fyrirtækisins en númer tvö er hagur starfsfólks og fyrst í þriðja sæti kemur hagur eigandans. Nútímaeigendur skilja að fyrirtæki sem ekki hefur á að skipa góðu starfsfólki sem menn gera vel við, mun ekki ganga í framtíðinni. Þessi skilgreining á því hvernig menn mæla arðinn, þessi forgangsröðun og það að hafa frelsi til athafna er það sem gildir en jafnframt verður þjóðfélagið að bjóða upp á öryggisnet sem grípur þann þegn sem einhverra hluta vegna verður fyrir sjúkdómi, slysi eða lendir af þeirri braut að hann geti tekið þátt í eðlilegu kapphlaupi. Við viljum að þjóðfélagið sjái um þetta öryggisnet og fyrir það erum við tilbúnir til að borga okkar hlut, hvort sem það eru 45% eða 47% af okkar skatttekjum. Það er allt í lagi, það er ekki gerð athugasemd við það. Þar er kannski stóri munurinn á því sem hingað til hefur verið kallað frjálshyggjumenn og svo þessara nýju frjálshyggjumanna. Nú ætla ég að vísu ekki að tala fyrir munn hv. þm. Péturs Blöndals, en við viljum að þjóðfélagið veiti þetta öryggisnet og erum tilbúinn til að borga fyrir það. En við viljum engu að síður sjá hag einkarekstrar og fyrirtækisins sem best borgið.