Samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 11:15:56 (5011)

1996-04-19 11:15:56# 120. lþ. 123.10 fundur 309. mál: #A samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[11:15]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að fagna fram kominni tillögu hv. þm. Gunnlaugs M. Sigmundssonar. Í mínum huga skiptir það ekki meginmáli að hv. þm. er í Framsfl. Ég vona að rannsókn þessi fari fram og að niðurstöður hennar sýni hvert verðmætamat er hér á landi. Auðvitað segja lífskjörin okkur eða uppbygging þeirra eitthvað um það verðmætamat sem gildir á Íslandi. Við vitum öll að íslenska þjóðin er ein sú ríkasta hér á jörð, með þeim tíu ríkustu skyldi ég ætla. Þess vegna vonar maður að fram komi ástæður þess hvers vegna við búum í ríku láglaunalandi. Ég hygg að það hafi eitthvað með forgangsröð verkefna og verðmætamat ráðamanna að gera. Auk þess leyfi ég mér að vona að fram komi ástæður þess atgervisflótta sem ég hygg að sé hafinn héðan til ríkjanna í kringum okkur. Þar á ég við að vel menntað ungt fólk á Íslandi á mjög erfitt með að finna störf við hæfi. Það er hluti af þessari lífskjaraumræðu og kannski hluti af þeirri framtíð sem bíður ungs fólks á Íslandi. Vonandi getum við með niðurstöðum þessarar rannsóknar gripið til ráða sem snúa þeim atgervisflótta við.