Samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 11:31:19 (5014)

1996-04-19 11:31:19# 120. lþ. 123.10 fundur 309. mál: #A samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum# þál., Flm. GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[11:31]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað fyrir jákvæðar undirtektir í þessu máli. Vegna orða síðasta ræðumanns rétt áðan um fyrirtæki á Suðurnesjum sem hefur góða afkomu en greiðir allt of lág laun vil ég segja að miðað við þá skilgreiningu sem ég var með áðan um það hvernig nútímafyrirtæki beri að mæla arðinn, þá skynja eigendur þessa vafalaust ágæta fyrirtækis samt ekki nútímarekstur. Ef þeir halda að þeir geti komist upp með að deila ekki arðinum með starfsfólki þegar vel gengur og halda að þeir geti skilið hann allan eftir í vösum eigenda þá skilja þeir einfaldlega ekki út á hvað nútímarekstur gengur. Þeim mun ekki haldast á góðu fólki og reksturinn mun ekki ganga svona vel til langs tíma. Á þessu byggist þessi nýja hugsun sem ég er að reyna að lýsa í atvinnurekstri. Fyrirtækið verður að ganga, númer tvö er að starfsmenn og eigendurnir verða síðan að fá eðlilegan arð. Ég sé ekki að þetta sé neitt öðruvísi en það kerfi sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson lýsti áðan að hefði verið notað í þessu svokallaða þýska efnahagsundri.