Ríkisreikningur 1991

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 11:41:46 (5016)

1996-04-19 11:41:46# 120. lþ. 123.4 fundur 87. mál: #A ríkisreikningur 1991# frv. 35/1996, KH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[11:41]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1991 og hefði nú fyrr mátt vera. Maður hefði haldið að það heyrði til liðinni tíð að afgreiða margra ára gamla ríkisreikninga og það er vitanlega hálfankannalegt að ríkisreikningur fyrir árið 1991 sé nú loksins tekinn til afgreiðslu. En vonandi tekst okkur að afgreiða þetta frv. endanlega fyrir þinglok, svo og aðra ríkisreikninga sem bíða enn í biðröðinni.

Eins og fram kom í máli hv. formanns fjárln. skrifa ég undir nál. með fyrirvara og vil nú skýra þann fyrirvara í örfáum orðum. Hann er best skýrður með vísan til nál. þar sem vitnað er til áritunar Ríkisendurskoðunar varðandi gjaldfærslu framlags ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs Íslands. Um það efni hefur Ríkisendurskoðun og yfirskoðunarmenn ríkisreiknings og raunar einnig löggilta endurskoðendur Framkvæmdasjóðs Íslands greint á við fjmrn. og það er einmitt ástæðan fyrir þeirri töf sem orðið hefur á afgreiðslu Alþingis. Og ástæðan fyrir mínum fyrirvara er einmitt sú að ég er sammála niðurstöðu og áliti Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna um þetta efni. Til þessara útgjalda var formlega stofnað með samþykkt lánsfjárlaga í janúar 1992 og því hefði verið eðlilegt og rétt að færa þau til gjalda á því ári en ekki í ríkisreikningi árið 1991. Um þetta hefur nú þjarkið staðið árum saman og hindrað afgreiðslu málsins og tafið þar með afgreiðslu ríkisreikninga næstu árin á eftir. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott og líklega hefur þetta þjark átt sinn þátt í því að ýta á eftir endurskoðun á uppgjöri og framsetningu á lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Við höfum nú fengið frv. til laga um fjárreiður ríkisins með ýmsum tillögum um breytingar í þessum efnum sem ég held að horfi til bóta. Mér er reyndar ekki kunnugt um hvernig umfjöllun málsins stendur í sérnefnd sem sett var á stofn um það frv. en ég vonast til þess að það verði samþykkt á þessu þingi. Eins og kemur fram í nál. fjárln. leggur nefndin til að frv. um samþykkt ríkisreiknings fyrir árið 1991 verði samþykkt óbreytt og ég stend að því áliti með þeim fyrirvara sem ég hef nú lýst. Ég tel þetta mál til lykta leitt og tel mikilvægt að ljúka afgreiðslu þessa máls fyrir þinglok í vor.