Ríkisreikningur 1991

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 12:00:42 (5018)

1996-04-19 12:00:42# 120. lþ. 123.4 fundur 87. mál: #A ríkisreikningur 1991# frv. 35/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:00]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir það hvað hann hefur verið iðinn við það í gegnum árin að halda uppi sjónarmiðum endurskoðenda ríkisreiknings og ég fæ ekki betur séð en þeirra gagnrýni hafi farið með sigur af hólmi sem m.a. má sjá í því frv. um fjárreiður ríkisins sem nú er til umfjöllunar í sérnefnd á hinu háa Alþingi. En ég vil líka taka undir að það þarf að finna nýjan farveg fyrir þessa endurskoðun þannig að þingið skoði hina endanlega útkomu ríkisreiknings. Það er ekki við hæfi að fjárln. geri það þar sem hún hefur komið að verkefninu, skipt upp fjárlagaliðum og tekið ýmsar ákvarðanir sem síðan eru auðvitað í niðurstöðum ríkisreikninga. Ég hef skilið það svo að í forsætisnefnd og hjá þingflokksformönnum væru menn að ræða þetta mál í tengslum við breytingu á þingsköpum. Ég held að það væri mjög brýnt að reyna að fá niðurstöðu í það mál bæði hvað varðar ríkisreikning og einnig aðrar skýrslur Ríkisendurskoðunar þannig að þær fari ekki í gegn án þess að vera skoðaðar og ræddar eins og því miður vill brenna við núna. Ég vil nota tækifærið til að taka undir það sem fram kom í máli þingmannsins.