Fiskréttaverksmiðjur

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 12:17:49 (5024)

1996-04-19 12:17:49# 120. lþ. 123.11 fundur 310. mál: #A fiskréttaverksmiðjur# þál., Flm. GMS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:17]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. þess efnis að Alþingi álykti að fela iðnaðarráðherra að taka upp viðræður við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Íslenskar sjávarafurðir hf. um að fiskréttaverksmiðjur í eigu dótturfélaga þessara fyrirtækja sem starfræktar eru erlendis verði fluttar til Íslands gegn því að verksmiðjunum verði veitt sambærilegt rekstrarumhverfi og erlendum stóriðjufyrirtækjum stendur til boða á Íslandi, auk tekjuskattsfrelsis í 25 ár.

Sem kunnugt er hafa stjórnvöld um árabil lagt áherslu á að fá erlend fyrirtæki á sviði orkufreks iðnaðar til að reisa verksmiðjur hér á landi. Haft hefur verið samband við fjölmörg fyrirtæki um allan heim og þeim boðið rekstrarumhverfi sem ekki stendur rekstri almennt til boða hér á landi. Slík boð eiga fyllilega rétt á sér í ljósi þess að fyrirtæki leita þangað sem rekstraraðstæður eru bestar enda skiptir fjarlægð milli verksmiðju og kaupenda vöru minna máli nú en áður. Þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld telji sig vera að bjóða góð starfsskilyrði hefur árangur af leit að fjárfestum til að reisa verksmiðjur hér á landi verið harla lítill síðustu árin. Nýverið rættist þó úr er samningar náðust um stækkun álversins í Straumsvík. Miklar væntingar eru bundnar við þá lyftistöng sem stækkun álversins í Straumsvík verður fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf en engu síður er ljóst að fyrst og fremst er um fjármagnsfrekan rekstur að ræða sem ekki skapar nema takmarkaðan fjölda starfa þegar framkvæmdum við byggingu verksmiðjunnar lýkur. Að vísu ber að varast að meta fjárfestingarkosti út frá því hvað mörg störf skapast því það sem mest gildi hefur er auðvitað hvaða framlagi viðkomandi rekstur skilar fyrir þjóðarbúið. En hvað sem slíkum mælikvörðum líður er ljóst að jákvæðra áhrifa stækkunar álversins á vinnumarkaðinn mun aðallega gæta á suðvesturhorni landsins en aðrir landshlutar njóta góðs af með óbeinum hætti. Stjórnvöldum ber því skylda til að huga að því að til landsins flytjist einnig fyrirtæki sem ekki byggja tilveru sína hér einungis á orkunotkun. Íslenskur atvinnumarkaður þarf einnig á að halda rekstri sem hagkvæmt getur talist að staðsetja á öðrum svæðum en á suðvesturhorni landsins.

Íslenskt atvinnulíf hefur í áraraðir byggst öðru fremur á sjósókn og vinnslu sjávarafla enda eru Íslendingar taldir í fremstu röð þeirra þjóða sem vinna og selja fisk. Vinnsla þess afla sem á land berst hefur þó til skamms tíma einkum miðast við að vinna fiskinn sem hráefni til frekari vinnslu í útlöndum og þjóðinni orðið tiltölulega lítið ágengt í að vinna og markaðssetja þessa vöru fyrir markaði í Evrópu. Markaði fyrir fullunna matvöru er hins vegar ekki auðnáð og í mínum huga er það ljóst að smáfyrirtæki eiga nákvæmlega enga möguleika á að ná slíku marki og jafnvel ekki að framleiða merkjavöru fyrir erlenda aðila sakir þess hve hinir stóru erlendu aðilar vilja mikið magn. Kostnaður við markaðssetningu merkjavöru í matvælum er talinn tíu sinnum hærri en markaðssetning á sérgreindum vörum eins og vélum og tækjum fyrir sjávarútveg. Með öðrum orðum ef ná á smáfótfestu á sérgreindum markaði fyrir vélar til sjávarútvegs fyrir 20 millj. þarf 200 millj. kr. til að ná sama árangri sé um matvæli að ræða. Það er því borin von að lítil og dreifð íslensk framleiðslufyrirtæki nái nokkurn tímann fótfestu með merkjavöru erlendis nema til komi aðstoð og þekking stærri aðila eins og þessara tveggja sölusamtaka sem hér eru nefnd, þ.e. SH og ÍS.

Á matvælamarkaði erlendis hefur orðið gífurleg samþjöppun undanfarin ár. Þau fyrirtæki sem hafa náð því að verða alþjóðleg og með heimsþekkt vörumerki standa þar ekki einungis best að vígi heldur má nánast segja að þau skipti markaðnum á milli sín. Milli þessara fyrirtækja geisar grimmileg samkeppni þar sem þeir stóru reyna stöðugt að kaupa upp smærri fyrirtæki og jafnvel hvert annað. Frægasta dæmið af slíkri yfirtöku eru kaupin á bandarísku samsteypunni Nabisco sem keypt var fyrir 25 milljarða dollara eða sem svarar 1.600 milljörðum ísl. kr.

Í Evrópu eru svissneska fyrirtækið Nestlé og bresk-hollenska Unilever yfirgnæfandi á matvælamarkaðnum og stöðugt að styrkja stöðu sína á kostnað minni fyrirtækja og minni fyrirtækjasamsteypna. Þessi tvö fyrirtæki munu í dag eiga í sérstökum yfirtöku- eða hernaðarsjóðum upphæðir sem nema hundruðum milljarða ísl. kr. Unilever, svo dæmi sé tekið, keypti t.d. á fjórum árum upp fyrirtæki fyrir 15 milljarða dollara eða sem svarar 1.000 milljörðum ísl. kr. Á sama tíma er smásöluverslun í Evrópu og Ameríku einnig að þjappast saman á hendur færri fyrirtækja sem mörg hver eru farin að selja framleiðendum pláss fyrir vörur í hillum verslana þannig að erfitt er orðið fyrir nýja aðila með ný merki að komast inn í verslanir með vöru sína nema að hafa aðgang að miklu fjármagni.

Matvælamarkaðnum í Evrópu má í reynd skipta í fernt. Í fyrsta þrepinu eru framleiðendur, þ.e. landbúnaður og sjávarútvegur sem fyrst og fremst eru í frumvinnslu matvæla, eru með dreifða eignaraðild og sölukerfi sem í vaxandi mæli er að fjarlægjast hinn endanlega neytenda. Í öðru þrepi eru úrvinnslufyrirtæki sem búa vöruna í þann búning sem neytandinn þekkir. Mikillar samþjöppunar gætir orðið á þessu framleiðslustigi eins og ég gat um áðan. Þriðja og síðasta stig markaðarins skiptist svo upp í tvær aðgreindar greinar, þ.e. smásöluverslun annars vegar og stofnanamarkað og veitingahús hins vegar. Þegar þessi þróun er skoðuð er ljóst að við Íslendingar verðum að hugsa okkar gang upp á nýtt ef við ætlum að gera okkur vonir um að hér á landi verði unnt að byggja upp framleiðslufyrirtæki sem fullvinni matvæli. Einn kostur er auðvitað að reyna að ná samstarfi við Nestlé eða Unilever um uppbyggingu slíkrar vinnslu. Sú þáltill. sem ég flyt hér miðar hins vegar að því að gera fyrirtækjum sem þegar eru í íslenskri eigu og hafa nauðsynlega þekkingu til að bera tilboð um að setja hér upp vísi að fullvinnslu sjávarafla sem með árunum ætti einhverja möguleika á því að lifa af og skapa hér þann kúltúr, ef svo má segja, sem til þarf til að ná árangri í harðnandi samkeppni.

Íslensku sölusamtökin, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sjávarafurðadeild Sambandsins, nú Íslenskar sjávarafurðir hf., byggðu á sínum tíma upp fiskréttaverksmiðjur í Bandaríkjunum og Bretlandi sem í áranna rás hafa vaxið og dafnað og eru nú orðin stöndug og góð fyrirtæki. Forsendur þær sem á sínum tíma lágu að baki þeirri ákvörðun að byggja verksmiðjur til fullvinnslu sjávarfangs á erlendri grund eru breyttar að hluta og mætti nú allt eins vinna hluta af því sem unnið er í þessum verksmiðjum á Íslandi. Sölukerfið yrði engu að síður staðsett innan viðkomandi markaðssvæðis, þrátt fyrir hinar breyttu aðstæður geta Íslendingar að mínu mati ekki vænst þess að gróin fyrirtæki stokki upp starfsemi sína og flytji milli landa nema verulegur ávinningur sé að flutningnum, þ.e. að fyrirtækjunum sé boðinn sá ávinningur að þau telji sig hafa eitthvert gagn af.

Í veröld þar sem fleiri og fleiri þjóðir bjóða upp á fært og vel þjálfað vinnuafl verða stjórnvöld á Íslandi að bjóða rekstrar- og skattaumhverfi sem er betra en það rekstrarumhverfi sem viðkomandi fyrirtæki búa við í dag ef vænta má þess að flutningur komi til greina.

Eitt af því sem fyrirtæki sem hyggja á erlenda fjárfestingu skoða sérstaklega er það umhverfi sem þeir starfsmenn sem flytjast með rekstrinum þurfa að búa við. Þó Ísland sé gott land í okkar huga má ekki gleyma því að ekki er víst að útlendingar sjái hlutina með sömu augum. Þannig vinnur það gegn okkur að hér eru takmarkaðir möguleikar á skólahaldi þar sem börnum er kennt á alþjóðlegu máli og möguleikar útlendinga til að taka þátt í íslensku menningarlífi eru takmarkaðir vegna tungumálsins. Menningarheimur okkar er með öðrum orðum ekki síðri hindrun á að samningar náist við erlenda fjárfesta en aðrir þættir. Með þetta í huga hefur mér á stundum þótt menn fara yfir lækinn í leit að erlendum fjárfestum því í Reykjavík hafa tvö glæsileg alþjóðleg fyrirtæki höfuðstöðvar sínar en þar á ég við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Íslenskar sjávarafurðir hf.

Fyrir íslenskan vinnumarkað er eftir miklu að slægjast að fá þessa aðila til þess að setja hér upp verksmiðjur sínar. Í fyrirtækjum þeirra í Bandaríkjunum og Bretlandi vinna samtals um 1.500 manns. Þótt sölukerfi og hugsanlega frystigeymslur yrðu áfram starfræktar erlendis skapar flutningur á verksmiðjunum sjálfum hingað fleiri ný störf en fjöldi nýrra stóriðjuvera auk þess sem slíkum verksmiðjum yrði vafalítið valinn staður sem næst hráefnisöflun, þ.e. úti í hinum dreifðu byggðum.

Tilkoma stórra vélvæddra matvælaverksmiðja stuðlar einnig að því að hér skapist ný atvinnugrein sem er fullvinnsla matvæla fyrir erlenda markaði. Íslendingar þurfa í upphafi nýrrar aldar að stefna að því að eignast vörumerki sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar á neysluvörumarkaði. Fyrir Ísland og Íslendinga skiptir gífurlegu máli að okkur takist að skapa þekkt vörumerki á neytendamarkaði fyrir íslenskan fisk. Kostnaðurinn sem fylgir því að ná slíkri markaðsstöðu er mjög mikill og reyndar vandséð að Íslendingar muni nokkurn tímann hafa bolmagn til að eignast einir og óstuddir alvöru alþjóðlegt vörumerki nema til komi ný nálgun og í anda þess sem hér er lagt til. Ég efa reyndar ekki að einhverjir munu spyrja hvort rétt sé að taka tvö íslensk fyrirtæki út úr og veita þeim önnur og hagstæðari rekstrarskilyrði en íslenskum fyrirtækjum stendur almennt til boða. Ég minni hins vegar á að ekki er verið að bjóða Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Íslenskum sjávarafurðum hf. skattfrelsi heldur erlendum fyrirtækjum í þeirra eigu, auk þess sem ég tel mig hafa í máli mínu gert hér grein fyrir hve ólíklegt er að við náum árangri á þessu sviði með óbreyttum vinnuaðferðum.

Í ljósi jákvæðra áhrifa á atvinnulíf í landinu er þingsályktunartillagan flutt. Tillagan gerir ráð fyrir því að viðskiptaráðherra taki upp beina samninga við Sölumiðstöðina og Íslenskar sjávarafurðir sem eigendur hinna erlendu fyrirtækja um að þau ráðist í það stórvirki að flytja fiskréttaverksmiðjur sínar hingað til lands eða reisi hér nýjar verksmiðjur. Verði þingsályktunartillagan samþykkt getur ráðherra gengið til samninga við umrædd fyrirtæki um ívilnanir sem taldar eru nauðsynlegar til að fá fyrirtækin hingað, í trausti þess að Alþingi fylgi málinu eftir með setningu laga um skattívilnanir og afslátt frá gildandi orkuverði sem að mínu mati eru nauðsynlegar til að fyrirtækin standi í þeim umbyltingum og óvissu sem óneitanlega fylgja flutningi fyrirtækja.

Ég hef sett fram þá hugmynd að fyrirtækjunum verði boðið tekjuskattsfrelsi í 25 ár. Er sá árafjöldi áætlaður út frá auknum kostnaði samfara endurbyggingu hér og afskriftum á búnaði og húsum erlendis sem ekki verða flutt eða komið í verð. Að auki þurfa að koma til aðrir þættir tengdir hinum daglega reksri eins og lágt orkuverð, auk þess að leggja til eða kosta gerð aðstöðu með sama hætti og í boði er fyrir stóriðju hér á landi.

[12:30]

Herra forseti. Þessi þáltill. hefur legið frammi í nokkurn tíma. Nú nýverið kynnti Aflvaki hf., sem er í eigu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðar og e.t.v. fleiri aðila, skýrslu sem þeir hafa látið vinna um fullvinnslu sjávarafurða þar sem mjög er mælt með því að reynt sé að fara að byggja upp fyrirtæki í fullvinnslu sjávarafurða hér á landi. Mér sýnist af því sem ég er búinn að blaða í gegnum þessa skýrslu að þeir séu mér sammála um að það þurfi nýja nálgun til og mikið fjármagn. Ekki er ég þó sammála öllu sem í þeirri skýrslu stendur og ég ætla að leyfa mér, með leyfi herra forseta, að vitna aðeins í þessa skýrslu eða ágrip úr henni þar sem segir:

,,Höfuðborgarsvæðið er einn álitlegasti staðurinn fyrir sjávarréttaverksmiðju, en örfá önnur atvinnusvæði í þéttbýli koma einnig til greina.``

Ég er langt í frá sammála þessu. Ég tel að svona verksmiðjur eigi að reisa sem næst þeim stað þar sem aflinn kemur á land og þar sem fyrir er hefð í vinnslu sjávarafla. Þar er líka fyrir er stabílt vinnuafl sem er tilbúið að meta fyrirtæki sem þessi að verðleikum. Reyndar segir einnig í þessu skýrsluágripi að á þeim stað þar sem verksmiðjan yrði reist þurfi að vera fullnægjandi framboð af fjölbreyttu og vel menntuðu vinnuafli. Það tel ég að sé til staðar úti á landi þar sem sú hefð ríkir að vinna úr sjávarafla og þar þyrfti einnig að vera umfangsmikil uppskipunarhöfn. Þeir segja líka að verksmiðjan yrði að vera nálægt fiskvinnslustöðvum og hafa nægan aðgang að hráefni til lengri tíma. Sjávarréttarverksmiðja af hagkvæmri stærð sem ynni úr 10--20 þúsund tonnum hráefnis sýnist geta skapað, segir í skýrslunni, um 150--400 störf allt eftir eðli framleiðslunnar. Mig minnir að það sem unnið er í Granda hf. í Reykjavík á ári sé um 15 þúsund tonn þannig að við sjáum að það þarf töluvert hráefni til að halda einni svona verksmiðju gangandi og vafalaust þurfum við að vera vakandi fyrir því að það þurfi líka að heimila innflutning á alls konar aflategunudum erlendis frá ef við eigum að geta haldið svona verksmiðjum gangandi og séð þeim fyrir nægilegu hráefni.