Fiskréttaverksmiðjur

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 12:37:00 (5026)

1996-04-19 12:37:00# 120. lþ. 123.11 fundur 310. mál: #A fiskréttaverksmiðjur# þál., SighB
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:37]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins í örfáum orðum láta í ljós stuðning við þessa tillögu sem hér er flutt. Þetta er mjög athyglisverð tillaga og á fullt erindi hingað á Alþingi. Ég vænti þess að þótt skammur tími sé til stefnu þá verði þessi tillaga afgreidd.

Ég vil þó aðeins benda á eitt atriði sem mér finnst nauðsynlegt að komi fram þegar menn huga að því máli sem hér er til umræðu. Þá verður auðvitað að fylgja máli að ekki sé bannað að nýta erlenda fjárfestingu til slíkrar starfsemi eins og gera má ráð fyrir að sé vilji stjórnvalda samkvæmt frv. sem flutt hefur verið um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Það á eftir að gera grein fyrir tillögum meiri hluta efh.- og viðskn. um breytingu á því frv. og ég vænti þess fastlega og vona að þær breytingar verði gerðar og ekki verði sett bann á þessa atvinnugrein umfram allar aðrar sambærilegar atvinnugreinar að nýta sér erlent fjármagn til uppbyggingar því að með því móti væri bæði hægt að fá áhættufjármagn sem ekki er allt of mikið til af í landinu og einnig hægt að ná viðskipta- og tæknisamböndum sem væri vissulega þörf á við stofnsetningu slíkrar verksmiðju eða verksmiðja hér á landi.

Ég ítreka að þessi þáltill. er þörf tillaga og ég vona að hún verði samþykkt.