Framleiðsla og sala á búvörum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 12:40:49 (5028)

1996-04-19 12:40:49# 120. lþ. 123.14 fundur 377. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sala alifuglaafurða) frv., Flm. SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:40]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 665 að flytja ásamt öðrum þingmönnum Alþfl. frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993. Sú leiða villa hefur orðið við frágang þingskjalsins að nafn eins þingmanna flokksins, Lúðvíks Bergvinssonar, hefur dottið út úr hópi flm. og vil ég nota þetta tækifæri til að leiðrétta það án þess að ég sé að óska eftir því að þingskjalið verði endurprentað. En ég vil taka fram að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er einn flm.

Ástæðan fyrir því að þetta frv. er flutt eru ákvarðanir samkeppnisráðs um samkeppninshindranir Félags eggjaframleiðenda og viðskiptakjör við sölu eggja, en þessi ákvörðun er nr. 3/1996 og er birt sem fskj. I með frv. þessu. Þau mál hefur áður borið á góma Alþingis í utandagskrárumræðum sem ég efndi til og ég tel því ástæðulaust að rekja efnisatriði þessarar ákvörðunar, en leyfi mér að vísa til fskj. I þar sem ákvörðunin er birt í heild sinni. Einnig vísa ég til fskj. II, en það er greinargerð Vinnuveitendasambands Íslands um verðmyndun í eggja- og kjúklingaframleiðslu frá 26. febrúar 1996, þar sem Vinnuveitendasamandið beinir því til stjórnvalda að þau hlutist tafarlaust til um breytingu á löggjöf um framleiðslu og sölu alifuglaafurða.

Markmiðið með frv. þessu er að fella framleiðslu og sölu alifuglaafurða undan ákvæðum búvörulaga en samhliða því láti stjórnvöld af framleiðslustýringu í alifuglarækt, en þá þarf einnig að fella niður innheimtu kjarnfóðurgjaldsins. Verðlagning og framleiðslustýring á alifuglaafurðum hafa oft komið til umræðu við gerð kjarasamninga enda er verðlag á þessum afurðum með eindæmum hátt. Ný verðkönnun Samkeppnisstofnunar hefur sýnt fram á að á síðari árum hefur þessi mikli verðmunur milli eggja- og alifuglaafurða á Íslandi og Norðurlöndum staðið í stað, þ.e. þarna hafa engar framfarir orðið og þessar afurðir eru mun dýrari á Íslandi en í nálægum löndum. Orsökin fyrir því er án efa að þessar afurðir eru felldar undir búvörur í lögum um verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, og lúta því þeim samkeppnistakmörkunum sem þar eru gerðar.

Í tengslum við endurskoðun kjarasamninga í lok nóvember sl. gaf ríkisstjórnin fyrirheit um endurskoðun á þeim reglum sem giltu um þessa framleiðslu en engar hafa efndirnar enn orðið. Það er alvarlegt mál þegar samtök á borð við Félag eggjabænda verða uppvís að lögbrotum og það ítrekað. Það eru því eðlileg viðbrögð að fella framleiðslu á afurðum þeirra sem þar að auki eru um margt líkari iðnaðarframleiðslu en hefðbundnum landbúnaði undan ákvæðum búvörulaga og fella hana að öllu leyti undir samkeppnislög þannig að eðlileg verðmyndun geti orðið á eggjum og alifuglaafurðum öðrum og samkeppni verði með sama hætti og aðrar iðnaðarvörur eiga í á okkar markaði. Frv. gengur sem sagt út á að fella alifuglaafurðir út úr lögum um verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, þannig að eðlileg samkeppni geti myndast og eðlileg verðmyndun orðið á markaði og jafnframt að stjórnvöld láti af framleiðslustýringu með innheimtu kjarnfóðurgjalds.

Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., herra forseti, en legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.