Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 13:47:42 (5033)

1996-04-19 13:47:42# 120. lþ. 123.15 fundur 393. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (gildistökuákvæði) frv. 33/1996, Frsm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[13:47]

Frsm. efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Hér eru á ferðinni lagfæringar sem fyrst og fremst lúta að dagsetningum sem ekki voru með þeim hætti sem ætlunin hafði verið að ganga frá og varða gildistöku tiltekinna ákvæða. Þannig er að þegar þessum sömu lögum var breytt hér á Alþingi í desember sl. kom í ljós að gildistökuákvæðið hafði ekki í öllum tilvikum þau áhrif sem ætlunin var og varðaði það fyrst og fremst breytingar á 68. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, en þær fjalla um persónuafslátt og sjómannaafslátt. Þær breytingar eiga að koma til framkvæmda við álagningu á árinu 1997 en ekki á árinu 1996, þ.e. ekki á yfirstandandi ári eins og gildistökuákvæðið að óbreyttu gerir ráð fyrir. Þá láðist jafnframt að geta þess hvenær 1. og 6. gr. sömu laga ættu að koma til framkvæmda. Frv. fjallar einfaldlega um lagfæringu á þessum ákvæðum, þ.e. til þess að gildistakan verði með þeim hætti og komi til framkvæmda á því skattlagningarári sem ætlunin stóð til.

Frumvarpið er flutt af efh.- og viðskn. í samráði við fjmrn. og við leggjum til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr.