Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 14:31:28 (5040)

1996-04-19 14:31:28# 120. lþ. 123.16 fundur 410. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:31]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta er merkileg umræða sem hér fer fram og mér finnst ég allt í einu ég vera komin ein tíu ár aftur í tímann og rifjast þá upp sú mikla umræða sem þá átti sér stað um friðarmál og kjarnorku og afvopnun. Ég held einmitt að það sé full ástæða til þess að rifja aðeins upp þá sögu í tilefni af orðum hæstv. utanrrh. því að það vill nú svo til að það var fyrst og fremst almenningur í Evrópu og Bandaríkjunum sem knúði þarlend stjórnvöld til stefnubreytingar á sínum tíma. Þegar fólk vaknaði upp við það í Evrópu í kringum 1980 að það átti að fara að staðsetja á evrópskri grund nýjar tegundir kjarnorkueldflauga, þá var eins og fólk rankaði allt í einu við sér og spurði: Hvað er eiginlega á seyði? Þá upphófst mikil þróun og það varð mikil virkni beggja vegna Atlantshafsins, fyrst og fremst þar, sem leiddi til þess að stjórnvöld tóku þessi mál upp og samningaviðræður hófust af alvöru, samningaviðræður sem þó höfðu staðið áratugum saman án árangurs. Sem betur fer hefur margt gerst á þessu sviði og okkur kannski hættir til þess að halda að það sé allt í himnalagi og við þurfum ekki að halda vöku okkar hvað snertir kjarnorkuvopn, kjarnorkuknúin farartæki og meðferð á kjarnorku. En ég held að menn hafi hrokkið illilega við síðasta sumar þegar Kínverjar fóru að sprengja og síðan þegar Frakkar hófu sínar tilraunir með hverri sprengingunni á fætur annarri þvert gegn vilja íbúa Kyrrahafsins. Ég hygg að menn hefðu varla trúað sínum eigin augum og eyrum yfir þeirri hegðun NATO-ríkisins Frakklands. Það er nefnilega svo að það virðist vera í lagi í augum sumra að gera tilraunir með kjarnorkuvopn einhvers staðar annars staðar, fjarri heimahögunum og héldu þeir því þó fram að engin hætta stafaði af.

Það er staðreynd að stefna NATO byggist enn þá á þessum fáránlegu fælingarkenningum sem voru kveðnar í kútinn fyrir allmörgum árum. En við erum auðvitað að tala um vopn sem allir vita að má ekki nota. Að minnsta kosti vil ég standa í þeirri trú að flestir viti að þarna er um vopn að ræða sem má aldrei nota. Reynslan hefur kennt okkur hvílík ógnarvopn þarna eru á ferð. Og ég hygg að það sé ýmislegt annað sem veldur því að stefna NATO er enn þá með þessum hætti en þekkingarskortur þó að svo kunni að vera að það séu einhverjir sem trúa því að það sé nauðsynlegt að lýsa því yfir að þeir muni beita kjarnorkuvopnum, jafnvel að fyrra bragði ef á þarf að halda. Ég held nefnilega að það sem býr að baki því að þessi stefna er enn við lýði séu einfaldlega hagsmunir. Það eru hagsmunir framleiðenda. Það eru hagsmunir rannsóknastofnana. Það kom mér mjög á óvart þegar ég var á ferð um Bandaríkin haustið 1994 þegar mér var sagt að Clinton-stjórninni sem hafði gengið í það að loka herstöðvum og fækka herstöðvum út um allan heim, hafði orðið afar lítið ágengt hvað varðaði kjarnorkuiðnað Bandaríkjanna og þróun kjarnorkuvígbúnaðar vegna þess að þar eru svo gífurlegir hagsmunir á ferð. Menn skulu ekki halda það þrátt fyrir alla þá samninga sem gerðir hafa verið að menn séu ekki enn þá að þróa þessi vígtól. Það er því miður í fullum gangi.

Ég vil, hæstv. forseti, lýsa vonbrigðum mínum með ræðu hæstv. utanrrh. og þá stefnu sem hann lýsti. Að mínum dómi er sú stefna sem hann er að vitna í hjá Atlantshafsbandalaginu löngu úrelt. Ef NATO er þessi friðflytjandi sem hæstv. utanrrh. segir, þá á bandalagið að sjálfsögðu að breyta stefnu sinni í þá veru og leggja af þessa fælingarstefnu sem hefur að mínum dómi enga merkingu. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að frv. af því tagi sem hér er til umræðu verði samþykkt. Í fyrsta lagi vegna þess að það er nauðsynlegt að halda vöku sinni í þessum málum, þ.e. að minna heiminn á hversu hættuleg kjarnorkan er, hversu hættuleg kjarnorkuvopnin eru, hvílíkar hættur geta falist í því að kjarnorkuknúin skip eða kafbátar fari um íslenska lögsögu og það sé alveg ljóst að við viljum ekkert slíkt í okkar umhverfi.

Í öðru lagi eru yfirlýsingar og lög af þessu tagi hvatning til annarra til þess að taka á slíkum málum. Eflaust mætti nefna rök af öðru tagi sem lúta að því hversu nauðsynlegt það er að samþykkja lög af þessu tagi, eins og ímynd Íslands og orðstír á erlendri grund o.fl. o.fl., en aðallega þó það að verja íslenskt umhverfi, að verja það umhverfi sem við þó höfum lögsögu yfir. Við eigum auðvitað erfiðara með að teygja okkur lengra. En það skiptir að mínum dómi mjög miklu máli að lýsa því yfir að við viljum friðlýsa land okkar og hafið í kringum Ísland og jafnframt lofthelgina. Því er ég afar hrygg yfir því að heyra viðbrögð hæstv. utanrrh. við þessu frv.

Eins og fram hefur komið eru ýmsar þjóðir að þróa kjarnorkuvopn og að gera tilraunir til þess að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Þar má nefna t.d. Ísrael sem fer ekki aldeilis friðsamlega þessa dagana. Það eru Indverjar, Írakar, Pakistanar og ýmsar fleiri þjóðir. Það þarf ekki annað en hlusta á málflutning Kínverja og reyndar Frakka líka til þess að sjá hvað stjórnir þessara landa umgangast kjarnorkuna af miklu kæruleysi og jafnvel dettur manni stundum í hug þekkingarleysi. Það er engu líkara en að menn telji að það muni einhvers staðar verða hægt að beita þessum vopnum. En samkvæmt fréttum undanfarna daga eru menn einmitt að þinga í Rússlandi þessa dagana um afleiðingar Tsjernóbíl-slyssins, en það er að koma æ betur í ljós að þær eru miklu miklu alvarlegri en menn hafa viljað gera sér grein fyrir. Á rússneskri grund og í Úkraínu og Hvíta-Rússlandi eru kjarnorkuver sem geta skapað stórhættu. Þar erum við ekki að tala bara um nágrannaríki heldur geta þau áhrif náð miklu víðar. Við erum því að tala um raunveruleg vandamál sem er að glíma við.

Ég minnist þess einnig að fyrir örfáum dögum var sagt frá því að umhverfisverndarsamtök í Rússlandi og reyndar frá Noregi og víðar eru komin í mikla vörn vegna upplýsinga sem tókst að ná fram í Rússlandi. Þar er maður kominn í fangelsi sem á jafnvel yfir höfði sér dauðadóm vegna upplýsinga sem hann hefur gefið um ástand á kjarnorkuúrgangi og slíku sem liggur víða illa grafið eða jafnvel í höfnum í fyrrum Sovétríkjunum. Þetta eru því afskaplega alvarleg og vandmeðfarin mál. Ef það er eitthvað sem við Íslendingar getum gert, þá er það einmitt að lýsa yfir andúð okkar á þessum vopnum og stuðla að friðsamlegri þróun og stefnubreytingu, hvort sem það er hjá einstökum ríkisstjórnum eða hjá NATO, með því að halda uppi stefnu af þessu tagi, með því að friðlýsa land okkar og að banna umferð kjarnorkuknúinna farartækja hér á landi.

Það hefur lítið verið rætt um eiturefnavopn í þessari umræðu en það er líka mál sem þarf að snúa sér að. Það hefur verið að koma fram að t.d. í Bosníu hafi eiturvopnum verið beitt, þó að slík vopn séu bönnuð. Notkun þeirra er bönnuð í styrjöldum en það er samt alltaf verið að gera tilraunir með slík vopn, vopn sem valda dauða og eru þannig að þau sjást ekki. Þau læðast að fólki. Það þarf ekki annað en rifja líka upp fjöldamorð á Kúrdum fyrir allnokkrum árum þar sem eiturefnavopnum var beitt. Því miður gerist það, af því að sem betur fer verður fleirum og fleirum ljóst að kjarnorkuvopn er ekki hægt að nota og verða vart notuð nema af einhverjum brjálæðingum, að þá auðvitað fara menn yfir í annars konar vopn. Svokölluð hefðbundin vopn eru að verða æ fullkomnari og nákvæmari. Má þar nefna einmitt þau tíðindi sem við urðum vitni að í Írak eða Persaflóastríðinu á sínum tíma og núna þessa dagana í Líbanon þar sem menn eru að reyna að skjóta á hús eða búðir með svona 300 metra nákvæmni eða jafnvel miklu meiri. Og því miður stefnir þróunin í þá átt að þessi hefðbundnu vopn verða æ nákvæmari.

Vegna þess sem ég sagði um kjarnorkuvopn og beitingu kjarnorkuvopna þá reyndar rifjaðist það upp fyrir mér allt í einu að það kom reyndar upp í Persaflóastríðinu umræða um það hvort ekki ætti að beita kjarnorkuvopnum þá þannig að það eru nú ýmsir sem gæla við þá hugmynd. Þess vegna, enn og aftur, er það svo mikilvægt að við komum þeirri skoðun okkar á framfæri að við viljum friðlýsa okkar land fyrir öllu slíku.