Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 14:56:12 (5042)

1996-04-19 14:56:12# 120. lþ. 123.16 fundur 410. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum# frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:56]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get fullvissað hv. þm. um að það er enn þá vítt til veggja í Framsfl. og þar fer fram lífleg umræða um utanríkismál og utanríkisstefna Framsfl. í gegnum áratugina hefur verið mjög mikils virði fyrir þjóðina.

Ég átti fyrir nokkru síðan athyglisverðar samræður við forseta Tékklands, Václav Havel. Ég á ekki von á því að hv. þm. muni kalla hann hægri mann. En það er alveg ljóst að það er gífurlegt atriði fyrir Tékkland að komast í Atlantshafsbandalagið og þeir eru tilbúnir til að gangast undir allar skuldbindingar þar. Það vill nú svo til að þessi merki maður, forseti Tékklands, kom því til leiðar fremstur manna að Varsjárbandalaginu var komið fyrir kattarnef. Hann sagði að sjálfsögðu: Ég vann ekki þann verknað til þess að einangra land mitt og ætlast til þess að við séum teknir inn í Atlantshafsbandalagið. Ætla menn að kalla alla þessa merku menn, merkisbera lýðræðis í Austur-Evrópu, hægri menn í dag? Það er vítt til veggja í umræðu þar í landi. En það er alveg með eindæmum að slíkur fornaldarhugsunarháttur skuli enn þá vera við lýði í Alþb. Það er Alþb. sem enn þann dag í dag er 20 árum á eftir tímanum í umræðum um utanríkismál, því miður, nema þá kannski helst fyrrv. formaður Alþb. sem nú hefur boðið sig fram til forseta. Það væri fróðlegt að vita hvort hann styður Alþb. í dag með þá kröfu að við segjum okkur úr NATO og styður þann fornaldarhugsunarhátt sem kemur fram í umræðum alþýðubandalagsmanna hér í dag. (SJS: Hann styður frv. því hann flutti það síðast.) (Gripið fram í.)