Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 14:58:31 (5043)

1996-04-19 14:58:31# 120. lþ. 123.16 fundur 410. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:58]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst það athyglisvert í umræðum um friðlýsingu að hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. skyldi telja sérstaka ástæðu til þess að draga forsetakosningarnar inn í það mál. Spurningin er hvort yfirlýsing hæstv. ráðherra og andvar hér áðan var til marks um það að Framsfl. hefði ákveðið sem flokkur að taka afstöðu í þessum forsetakosningum. Ég heyri ekki betur og það eru visslega mikil tíðindi. En ég vil að gefnu tilefni, þó að það sé verið að ræða friðlýsingu segja að það er nokkuð fróðlegt að heyra þetta og væri athyglisvert að fá svar ráðherrans við þessari spurningu.

Þetta frv., hæstv. ráðherra, fjallar ekki um það að koma Tékklandi í NATO. Þetta frv. er ekki um það. Það vill svo sérkennilega til að þetta frv. er um friðlýsingu út frá forsendum Íslands og spurning mín er auðvitað fyrst og fremst þessi: Af hverju má ekki ræða málið? Af hverju þarf að bannfæra mál af þessu tagi? Eða má ræða það? Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að lýsa því yfir að hann vilji taka þátt í því að í utanrmn. eða annars staðar fari fram rækileg umræða einmitt um mál af þessu tagi þannig að menn geti borið saman bækur sínar, vegið saman rök og gagnrök og gert upp málin á málefnalegan hátt? Eða ætlar hann að láta kaldastríðsafstöðuna ráða úrslitum og banna umræðu um þetta mál? Það var ekki nokkur leið að skilja hæstv. ráðherra öðruvísi áðan en að hann vildi hafna allri umræðu um mál af þessu tagi, að hann hefði stigið svo langt til hægri fyrir hönd þess Framsfl. sem átti mjög frjálslyndar hefðir í utanríkismálum undir forustu Hermanns Jónassonar, Eysteins Jónssonar og Steingríms Hermannssonar.