Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 15:00:19 (5044)

1996-04-19 15:00:19# 120. lþ. 123.16 fundur 410. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum# frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:00]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get fullvissað hv. þm. Svavar Gestsson um það að Framsfl. mun ekki taka afstöðu sem flokkur með einum né neinum í komandi forsetakosningum og það er merkilegt ef einhver hefur skilið orð mín svo. Hins vegar er ljóst að það er heimilt að ræða þau mál í Framsfl. eins og öll önnur mál. Hvenær hef ég verið að tala um að það bæri að banna umræður um þessi mál? Getur verið að hv. þm. sé jafnframt með þann fornaldarhugsunarhátt að einhvern tíma séu bannaðar umræður í einhverjum flokki? Ég hélt að það hefði aldrei tíðkast í Alþb. og hefur aldrei tíðkast í Framsfl. og mun aldrei tíðkast þar. Ég er að lýsa viðhorfum mínum til þessa máls og það var sérstaklega beðið um það af 1. flm. að ég gerði það og ég varð við því. Ég er eingöngu að rekja það að ég tel að þetta frv. sé ekki hjálplegt í þeim markmiðum sem við erum að berjast fyrir, þ.e. að útrýma kjarnorkuvopnum. Ég mun vinna að því, vil vinna að því. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að við stöndum við skuldbindingar okkar í Atlantshafsbandalaginu. Málið er svo einfalt. Ef hv. þm. er þeirrar skoðunar að það beri ekki að standa við þær, þá eru það skoðanir út af fyrir sig.

Ég hef farið rækilega í gegnum þetta mál og eytt tíma í það og ég tel að ég hafi sýnt málinu fulla virðingu með því. Ég tel að ég sýni málinu fulla virðingu með því að taka þátt í umræðum hér í dag og mér beri skylda til þess þannig að mér finnst það alveg óþarfi að vera með svona útúrsnúninga sem náttúrlega tilheyra þeim fornaldarhugsunarhætti sem kemur fram í málflutningi hv. þm.