Málefni Landhelgisgæslunnar

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 15:04:51 (5046)

1996-04-19 15:04:51# 120. lþ. 123.91 fundur 257#B málefni Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:04]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár er að ræða málefni Landhelgisgæslu Íslands og framgöngu hæstv. dómsmrh. sem mjög hefur verið til umræðu. Hér er annars vegar verið að vísa til ákvörðunar hans um að láta rússneskan landhelgisbrjót sigla sinn sjó þrátt fyrir að hann hafi verið staðinn að ólöglegum veiðum innan landhelginnar og hins vegar fullyrðingar Höskuldar Skarphéðinssonar, skipherra hjá Gæslunni, þess efnis að starfsmenn hennar hafi ítrekað komið að brotlegum skipum, jafnvel skipum sem ekki hafa haft gilt veiðileyfi en ráðherra hafi brugðist snarlega við og bjargað þeim með því að gefa út leyfi aftur í tímann.

Virðulegi forseti. Það var þriðjudaginn 2. apríl sl. að Fokkerflugvél Landhelgisgæslu Íslands stóð rússneskan togara að ólöglegum veiðum innan 200 mílna markanna á Reykjaneshrygg. Skipinu var veitt óslitin eftirför af landhelginni og út á úthafið, fyrst af flugvélum þar til varðskipið Ægir kom á vettvang. Því voru öll skilyrði þjóðréttarreglna varðandi töku skipa á alþjóðlegu hafsvæði uppfyllt, sbr. 111. gr. hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Allir helstu sérfræðingar Gæslunnar, þar á meðal áðurnefndur skipherra og forstjóri hennar, hafa lýst því yfir að það væri hægðarleikur að taka togarann. Því er hvorki um það að ræða í þessu tilviki að lagareglur stæðu því í vegi að skipið yrði tekið né ómöguleiki á að framkvæma slíka töku. Jafnframt verður að hafa í huga að lög um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands, nr. 13/1992, leggja blátt bann við veiðum erlendra skipa í efnahagslögsögunni. Því hvílir sú lagaskylda á dómsmrh. að framfylgja því banni. Það vekur því furðu að þrátt fyrir að öll skilyrði hafi verið til staðar, allir helstu sérfræðingar Gæslunnar hafi lýst því yfir að það væri ekki neinum vandkvæðum bundið að taka togarann, ákváðu yfirvöld að aðhafast lítið sem ekkert og láta hann sigla sinn sjó. Það er hætta á því að það fordæmi sem yfirvöld hafa skapað með slíkri ákvörðun geti skaðað orðstír okkar á alþjóðavettvangi og gefið öðrum þjóðum tilefni til að álykta sem svo að Íslendingar hafi hvorki getu, styrk né kjark til að halda uppi eftirliti innan eigin landhelgi, hvað þá utan hennar eins og kröfur hafi verið gerðar um vegna framgangs rússneskra togara á Reykjaneshrygg.

Þau rök sem hæstv. dómsmrh. hefur helst borið fyrir sig eru afar fátækleg. Það hefur helst komið fram af hans hálfu að taka skipsins hefði orðið of kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð. Það hljómar hvorki trúverðugt né ber vott um mikinn manndóm þegar stjórnvöld lýsa því yfir að þjóðin hafi ekki lengur efni á því að verja fiskveiðilandhelgina. Það hlýtur eitthvað annað og veigameira að búa þar að baki. Ég tel því nauðsynlegt að minna hæstv. dómsmrh. á að þjóðin hefur marga hildi háð til þess að öðlast yfirráð yfir því hafsvæði sem ráðherra segir nú að við höfum ekki efni á að verja.

Virðulegi forseti. Það sem þjóðin hefur sannarlega ekki efni á er að lausung og dugleysi ríki um löggæslu á hafinu. Þeir sigrar sem unnist hafa í þorskastríðum unnust ekki á grundvelli þeirrar hertækni sem hæstv. dómsmrh. beitti í þessu máli. Það er því alvarlegt mál og ekki að ófyrirsynju að þjóðin leggi við eyru þegar einn virtasti og reyndsti skipherra Landhelgisgæslunnar undanfarna áratugi, Höskuldur Skarphéðinsson, skuli segja upp störfum sökum óánægju með þá niðurlægingu sem Gæslan hefur orðið fyrir í ráðherratíð núv. dómsmrh. Það kom m.a. fram í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 þann 16. apríl sl. að Höskuldur væri mjög ósáttur við framgöngu dómsmrh. sem hann sagði gæta fremur hagsmuna útgerðaraðila en laga og reglna um veiðar. Auk þess kom fram hjá honum að það hefði margsinnis komið fyrir að Landhelgisgæslan hafi komið að skipum sem ekki hafi verið með gild veiðileyfi og fært þau til hafnar, en ráðuneytið hafi gefið út afturvirk veiðileyfi. Það sé afar erfitt að vinna undir slíkum kringumstæðum og ákvörðun um afdrif rússneska landhelgisbrjótsins sé aðeins framhald á þeirri niðurlægingu Gæslunnar sem hún hefur orðið að búa við undanfarin ár.

Í fréttatíma Ríkisútvarpsins sama kvöld lýsir Höskuldur því yfir að dómsmrh. hafi um hánótt hlaupið niður í ráðuneyti á náttfötum einum fata í því skyni að gefa út veiðileyfi aftur í tímann. Hafi hæstv. sjútvrh. ætt niður í ráðuneyti sitt í náttserk til að bjarga veiðileyfalausum skipstjórnarmönnum úr klemmu má öllum ljóst vera að sjútvrh. hefur ekki haft fyrir því að vekja hæstv. dómsmrh., heldur farið á bak við hann. Það stendur því upp á dómsmrh. að gera Alþingi Íslendinga ítarlega grein fyrir þeirri ákvörðun sinni að láta rússneska togarann óáreittan eftir að hann hafði verið staðinn að ólöglegum veiðum í íslensku landhelginni. Það er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að forstjóri Landhelgisgæslunnar hefur lýst því yfir að Gæslan hefði auðveldlega getað tekið rússneska togarann og öll lagaskilyrði fyrir töku hans hafi verið uppfyllt.

Einnig verður dómsmrh. að svara þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar að hann hafi stundað það í ráðherratíð sinni að veita skipum, sem Gæslan hefur staðið að ólöglegum veiðum, afturvirk veiðileyfi. Ég vil minna á að í lögum um stjórn fiskveiða segir að enginn megi stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland nema hann hafi fengið til þess almennt veiðileyfi. Í sömu lögum segir, með leyfi forseta:

,,Brot gegn ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt þeim eða ákvæðum leyfisbréfa varða sektum ...``

Með öðrum orðum, hæstv. dómsmrh. hefur ekki um það frjálst mat hverju sinni hverjum skuli refsað og hverjum ekki. Það lýtur landslögum. Hæstv. dómsmrh. verður því að upplýsa um hvort einn reyndasti skipverji Gæslunnar, sem nú hefur sagt upp störfum sökum óánægju, (Forseti hringir.) fari með staðlausa stafi þegar hann segir að dómsmrh. hafi stundað það að veita veiðileyfi aftur í tímann hafi honum boðið svo við að horfa. Með öðrum orðum, hvort skipherrann sé ósannindamaður. Geri dómsmrh. það ekki (Forseti hringir.) er hann að lýsa því yfir að hann hafi virt landslög að vettugi.