Málefni Landhelgisgæslunnar

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 15:20:08 (5050)

1996-04-19 15:20:08# 120. lþ. 123.91 fundur 257#B málefni Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), GMS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:20]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Þessi umræða er mjög sérkennileg og sérkennilega að henni staðið. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði, og hafði það eftir forstjóra og skipherra Landhelgisgæslunnar, að hægðarleikur hefði verið að taka þennan umrædda togara sem þetta mál snýst um og fór hér inn fyrir landhelgi 2. apríl. Ég sat ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í utanrmn. þegar forstjórinn kom þar í heimsókn og sagði okkur af þessu máli. Ég heyrði hann aldrei tala um að það hefði verið hægðarleikur. Þvert á móti sagði hann að það hefði verið erfitt mál ef það hefði átt að taka togarann, mjög erfitt mál. En hann sagði líka að við hefðum æft töku svona togara, æft töku togara sem eru allt að fjórum sinnum stærri en það skip sem Landhelgisgæslan notar til slíkra starfa og hann sagði líka að það hefði verið gefið mál að það hefði orðið pústrar og að menn hefðu getað orðið fyrir slysum við þær aðgerðir. Ég hefði tekið alveg nákvæmlega sömu ákvörðun í þessu máli ef ég hefði staðið frammi fyrir henni eins og hæstv. dómsmrh. Þorsteinn Pálsson. Ég hefði að vísu sleppt því að vera að bera það mál undir utanrrh. eða forsrh. Ég hefði tekið þá ákvörðun á stundinni. Það var ekki efni til þess við þessar aðstæður að fara að stefna lífi og limum þeirra sem vinna hjá Landhelgisgæslunni í hættu við það að taka þennan togara. Það var nóg að stugga við honum við þessar aðstæður. (Gripið fram í.)

Hitt málið sem hefur verið nefnt, um skelfiskskipið Æsu, og þá aðför sem hér var gerð að hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni í kringum það mál. Mér finnst það til mikillar hneisu fyrir þá sem að þeirri aðför standa. Íslenskt atvinnulíf --- og síst af öllu atvinnulíf í dreifbýli --- fer ekki eftir reglustikureglugerðum sem bírókratar í Reykjavík setja íslensku atvinnulífi. Og ef ekki væru til menn eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson úti á landsbyggðinni þá væri þar allt með öðrum hætti. Það eru þó enn þá von meðan slíkir menn eru til.