Málefni Landhelgisgæslunnar

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 15:24:36 (5052)

1996-04-19 15:24:36# 120. lþ. 123.91 fundur 257#B málefni Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:24]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það er með ólíkindum hvað málatilbúnað Alþfl. og dagblað flokksins hafa uppi til að koma höggi á hæstv. dómsmrh. þessa dagana. Einhverra hluta vegna, og eflaust ekki af tilviljun, er ég dreginn inn í þetta mál eins og sjá má í leiðara blaðsins, en þar segir: ,,Alþýðublaðið upplýsir í dag að Þorsteinn Pálsson notaði ráðherravald sitt til að hindra að Landhelgisgæslan kæmi lögum yfir skip sem var að ólöglegum veiðum. Skipið var í eigu vinar og flokksbróður Þorsteins, Einars Odds Kristjánssonar.``

Þetta smávægilega atvik sem átti sér stað fyrir þremur árum hefur fyrir löngu verið upplýst. Öll gögn varðandi það liggja fyrir. Það er allt lygi í sambandi við málið sem fram hefur komið hjá þessu ágæta dagblaði. Það var aldrei gefið út afturvirkt leyfi. Það var aldrei gefið út. Leyfið var ekki afturvirkt. Það var gefið út daginn eftir, 14. janúar. Ég var ákærður fyrir málið, yfirheyrður, boðin dómsátt, hafnaði henni fyrir hönd skipstjórans vegna þess að ég taldi málið svo smávægilegt að það gæti ekki varðað sektum. Það var ákæruvaldið sem féll frá málinu vegna þess að þeir töldu að það væri augljóslega á misskilningi byggt.

Þetta er notað til þess að koma af stað moldviðri, koma af stað þeirri sögu að hæstv. ráðherra sé að hygla mér, flokksbróður sínum og vini, við séum holdi klædd spillingin á Íslandi. Þeir eiga bágt þessir menn sem svo þurfa að vinna. Þeir gátu leitað allra upplýsinga um málið. Það lá alltaf fyrir en þeir kusu að gera það ekki. Þeir vildu vísvitandi vera að segja ósatt. Þeir vildu vera ósannindamenn. Þeir sem breiða út ósannindi viljandi í blöðum og í útvarpsstöðvum gera það vísvitandi í pólitískum tilgangi, þeir eru ekki, herra forseti, á íslensku kallaðir annað en rógberar. Að því eru þeir sannir.