Málefni Landhelgisgæslunnar

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 15:26:56 (5053)

1996-04-19 15:26:56# 120. lþ. 123.91 fundur 257#B málefni Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:26]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Varðandi þau mál sem hér eru til umræðu, landhelgisbrot rússneska togarans og um útgáfu veiðileyfa, vil ég víkja að hinu fyrrnefnda. Menn hafa barið sér mjög á brjóst og talað um að það hefði verið vandalítið að taka togarann og það hefur komið fram að Landhelgisgæslan treysti sér til að gera það. Ég held hins vegar að það hafi verið valin skynsamleg leið í þessu máli, að fara diplómatísku leiðina að þessu sinni. Hins vegar er ljóst að það verður að halda uppi landhelgisgæslu og taka sjálfstætt á þeim málum sem varða landhelgina og gæslu hennar. Ég er sammála því. Þetta leiðir hugann að aðstöðu Landhelgisgæslunnar og útbúnaði hennar. Við höfum stóra landhelgi að verja og útbúnaður Gæslunnar, sérstaklega skipakostur hennar, er sá sami og verið hefur um árabil. Það hafa verið lagðir miklir peningar til þess á síðustu árum að endurnýja flugflota Gæslunnar, koma upp fullkominni björgunarþyrlu og sú þyrla sem fyrir var hefur ekki verið seld. Hins vegar er nú á þessum tímamótum ástæða til þess að huga að skipakostinum og huga að því hvernig hægt er að styrkja stöðu Gæslunnar. Og það er ástæðulítið eins og ég hef heyrt í blöðum, og m.a. nefndur skipherra sem hér hefur verið til umræðu, að gera lítið úr því að það sé skipuð nefnd til þess að fara ofan í þetta mál og fara yfir það. Ég tel það eðlilegt og sjálfsagt og ég tel rétt að gera það á þessum tímamótum.

Um aðförina að einum hv. þm., Einari Oddi Kristjánssyni, ætla ég ekki að hafa mörg orð. Sú aðför hefur dæmt sig sjálf hér í þessari umræðu og er náttúrlega alveg yfirgengileg.