Málefni Landhelgisgæslunnar

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 15:30:56 (5055)

1996-04-19 15:30:56# 120. lþ. 123.91 fundur 257#B málefni Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:30]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil gera einn þátt þessa máls að umtalsefni, þ.e. sem tengist Æsu og máli Vestfirsks skelfisks og Einars Odds Kristjánssonar. Þetta er óvanaleg, skammarleg og ódrengileg árás á einstakling og atburðarás sem hefur átt sér stað hérna síðustu daga. Þessi blaðamennska sem kom fram í Alþýðublaðinu var óvönduð, það er ekkert við því að gera, blaðið verður að bera ábyrgð á því sjálft. Menn gátu verið með vandaðri blaðamennsku með því að hringja eitt eða tvö símtöl. Því að málið liggur alveg ljóst fyrir. Atburðarásinni lýsti hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Bragi Steinarsson saksóknari staðfesti alla þessa atburðarás í viðtali við dagblaðið Tímann, m.a. í gær. Þetta liggur ljóst fyrir.

Það er hins vegar óvanalegt að menn skuli samt halda áfram persónulegum árásum eins og gerðist hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og koma síðan með hávaða í ræðustól. Líklega hefur hann vonda samvisku af þessu máli. Ég get í sjálfu sér ekki dæmt um það. En mér finnst átakanlegt að horfa upp á þetta hafa gerst með þessum hætti.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er maður að meiri eftir þessa atlögu. Þetta er vindhögg alþýðuflokksmanna en ég kýs hins vegar að líta á þetta sem fljótræði eins eða tveggja alþýðuflokksmanna og blaðs þeirra. Þeir væru menn að meiri ef þeir stæðu hér upp, bæðust afsökunar á þessu, segðu að þeir hefðu dregið fljótfærnislegar ályktanir og hörmuðu að hafa vegið að mannorði manna á ósmekklegan hátt. Þeir verða að finna orðalag á sinni afsökunarbeiðni sjálfir en þeir eru í sjálfu sér skuldbundnir til að gera það þingmannsins vegna sem þeir hafa hér ásakað, þingheims vegna, kjósenda vegna og þjóðfélagsins vegna. Þetta eru vinnubrögð sem ganga ekki, herra forseti, að umgangast sannleikann með þeim hætti sem nokkrir hv. þm. hafa gert hér.