Málefni Landhelgisgæslunnar

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 15:33:06 (5056)

1996-04-19 15:33:06# 120. lþ. 123.91 fundur 257#B málefni Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:33]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Mér kemur ekkert á óvart sem frá Alþýðublaðinu kemur. Það hefur sveiflast á milli himins og helvítis í málflutningi missirum saman. Og enn hefur það orðið sér til skammar. Enn situr foringi Alþfl., hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, hér og segir ekki orð. Honum væri nær að biðjast afsökunar fyrir málgagn sitt og væri hann maður að meiri.

Í Alþýðublaðinu hefur verið sótt að persónum tveggja manna. Það er ekki bara að það hafi átt að taka mannorðið af hv. þm. Einari Oddi heldur er leiðarinn um það að hæstv. ráðherra skuli segja af sér. Hvers lags framferði er þetta hjá Alþfl. að beita hertækni síðustu aldar til þess að sækja að pólitískum andstæðingum? Ég skora á Jón Baldvin Hannibalsson að taka þátt í þessari umræðu og láta þjóðina vita hvort hann stendur á bak við þetta sjálfur, hv. þm. Það er orðið fróðlegt að vita um það.

Um hitt vil ég segja, um hina málefnalegu hlið þessa máls að ég vil sjá Landhelgisgæsluna styrkta og það hafa þeir báðir, hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála og utanríkismála, sagt í fjölmiðlum. Ég vil að Landhelgisgæslan verði gerð sterkari en hún hefur verið. Ég vil að hún fari með löggæslueftirlit á hafinu og ég vil að veiðiþjófar hafi ekki þá tilfinningu að púðrið sé blautt og herforinginn deigur. Þess vegna vil ég að Alþingi sjái sóma sinn í því að styrkja Landhelgisgæsluna til nýrra átaka. En Alþfl. hefur orðið sér til skammar í dag. Alþfl. hefur orðið það fyrr í þessum þingsal þegar hann hefur reynt að sækja að mannorði manna. (Forseti hringir.) Nú skuldar Alþfl. þinginu og þjóðinni svar: Hver stendur á bak við þetta allt saman missirum saman að ráðast á nýjar og nýjar persónur manna? Þessu verður formaður Alþfl. að svara. Hann ætti að sjá sóma sinn í því að hætta að gefa þetta blað út á morgun. (ÖS: Hvaða herforingi var blauður?)