Málefni Landhelgisgæslunnar

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 15:38:17 (5060)

1996-04-19 15:38:17# 120. lþ. 123.91 fundur 257#B málefni Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:38]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Staðreyndir þessa máls eru þær að það hefur verið upplýst að engin afturvirk leyfi hafa verið gefin út. Í bréfi forstjóra Landhelgisgæslunnar frá því í dag segir svo um þetta:

,,Með skírskotun til fullyrðinga um að afturvirk veiðileyfi hafi verið gefin út þá var það kannað nánar hjá Landhelgisgæslunni. Engin slík veiðileyfi hafa fundist hjá stofnuninni vegna þessa máls sem vitnað hefur verið í vegna mb. Æsu ÍS-87. Var það mál sent ríkissaksóknara til afgreiðslu.``

Þetta vissu hv. þm. Alþfl., a.m.k. hv. 15. þm. Reykv., áður en hann flutti sína ræðu í dag. Samt er ásökununum haldið áfram. (Gripið fram í.) Frá þessu var greint í upphafi þessarar umræðu áður en hv. þm. hélt sína ræðu. Ég greindi einnig frá því að Landhelgisgæslan hefði verið spurð að því áður en ákvörðun var tekin hvort sú ákvörðun sem tekin var mundi skaða Gæsluna eða hún mundi sæta andmælum af hálfu Gæslunnar. Því var neitað af Landhelgisgæslunni. Og í bréfi frá forstjóra Landhelgisgæslunnar er þetta staðfest hér í dag. Það er því rangt að hér hafi verið rekinn einhver rýtingur í Landhelgisgæsluna eða störf hennar veikt á þessu hafsvæði.

Það eina sem er óupplýst í þessu máli er sú spurning sem ég vakti hér máls á í upphafi: Hvort var það umræddur skipherra sem er upphafsmaður að þessum ósannindum sem hér hafa verið færð á borð alþjóðar af talsmönnum Alþfl. eða hv. 15. þm. Reykv.? Ég gat ekki skilið hv. 15. þm. Reykv. hvort hann var að gera tilraunir til að svara þeirri spurningu eða hvort hann var að varpa allri sökinni á skipherrann. En þetta er það eina sem er óupplýst í málinu. Hvor þessara hv. heiðursmanna er upphafsmaður að ósannindunum? Það er vissulega þörf á því að upplýsa það. Og það má skipa eins margar rannsóknarnefndir til þess og mönnum dettur í hug. En það væri full ástæða til að fá úr því skorið.