Gæludýrahald

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 16:33:07 (5069)

1996-04-19 16:33:07# 120. lþ. 123.18 fundur 424. mál: #A gæludýrahald# frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[16:33]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Virðulegi forseti. Yfir flest þarf hið háa Alþingi að koma lögum varð mér hugsað þegar ég leit frv. augum. Ég sé í sjálfu sér gildi þess að skrásetja heimilisdýr og þá hvort tveggja í þéttbýli og dreifbýli. Annað er hvernig hafa skuli fullkominn hemil á Snældu og Snata þegar til framkvæmdar kemur. Vil ég í því sambandi vitna í 4. gr. frv., með leyfi forseta, þar sem stendur:

,,Heimilt er að handsama gæludýr sem ganga laus utan lóðarmarka eiganda í þéttbýli.``

Aftur verður mér sérstaklega hugsað til katta og þess að háar girðingar halda þeim oft ekki og vil ég í því sambandi benda á að þessi grein frv. gæti orðið býsna erfið í framkvæmd.

Um gildi dýrahalds fyrir andlega velferð þeirra sem þau halda þarf ekki að hafa svo sem miklar efasemdir, ekki síst fyrir börn. Jákvætt uppeldislegt gildi þess að halda dýr er ótvírætt. Það á auðvitað jafnt við hvort sem fólk kýs að halda dýr í þéttbýli eða dreifbýli. Mér þykir í stuttu máli frv. einkennast af nokkurri forræðishyggju en vil þó taka fram að ég sé ekkert að því að skrásetja heimilisdýr þótt það geti reyndar líka verið nokkrum vandkvæðum bundið. Það á kannski sérstaklega við um smærri dýr og af því hlýtur að hljótast líka allnokkur kostnaður. En fyrst og fremst tek ég til máls til að vekja athygli á því sem stendur í 4. gr. frv. og leyfi mér að efast um að slíkt sé yfirleitt framkvæmanlegt, þ.e. að halda böndum á dýrunum.