Svör við fyrirspurn

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 15:04:45 (5073)

1996-04-22 15:04:45# 120. lþ. 124.92 fundur 261#B svör við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[15:04]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Varðandi þá fyrirspurn sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vitnar til, þá óskaði viðskrn. eftir aðstoð bankaeftirlits Seðlabankans við að afla þeirra upplýsinga sem til þurfti í svar hv. þm. Því miður er það svo að þrátt fyrir ítrekaða könnun bankaeftirlitsins á þeim upplýsingum sem þarna er um að ræða, þá var ekki hægt að fá svör við slíku hjá viðskiptabönkunum. Ég hef hins vegar átt viðræður við bankaeftirlit Seðlabankans um þetta og ráðgert er og fyrirhugað að komið verði á samstarfi viðskrn. og bankaeftirlitsins til að leita leiða til að fá þær upplýsingar sem þarna er beðið um á staðlað form þannig að þær geti ávallt verið tiltækar hjá bankaeftirlitinu. Það er hins vegar ekki víst að hægt sé að afla allra þeirra upplýsinga sem hv. þm. spyr um í áðurnefndri fyrirspurn. Ástæðan er sú að nokkur hluti af því sem spurt er um, t.d. lögfræðikostnaðurinn, eru hlutir sem eru innheimtir hjá mörgum innheimtustofnunum og lögfræðistofum hingað og þangað og þær upplýsingar koma aldrei inn í bókhald viðkomandi lánastofnunar.

Hins vegar á ég von á því að nokkuð af þeim upplýsingum sem hv. þm. spyr um í viðkomandi fyrirspurn á þskj. 512 muni koma fram í skýrslu bankaeftirlits Seðlabankans innan tveggja mánaða. Dæmi um það hversu erfitt og flókið þetta mál er eða vinnst a.m.k. erfiðlega hjá þessum ágætu lánastofnunum er það að í janúar 1995 óskaði félmrh. eftir því að gerð yrði úttekt á skuldastöðu einstaklinga hjá lánastofnunum, Húsnæðisstofnun og lífeyrissjóðum. Allt síðan þá hefur bankaeftirlitið í samvinnu við þessar innlánsstofnanir verið að vinna að þessum upplýsingum. Gert er ráð fyrir því að þessar upplýsingar saman teknar um heildarkostnað sem einstaklingar verða fyrir komi út í þeirri skýrslu sem núna er í vinnslu á vegum Seðlabankans. Ég á því von á að þá geti hv. þm. og þingið fengið einhver svör við þeim fyrirspurnum sem spurt er um á þskj. 512.