Ástandið í Mið-Austurlöndum

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 15:20:01 (5077)

1996-04-22 15:20:01# 120. lþ. 124.91 fundur 260#B ástandið í Mið-Austurlöndum# (umræður utan dagskrár), ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[15:20]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Árás Ísraelsmanna á varðstöð Sameinuðu þjóðanna í þorpinu Qana kostaði yfir 100 manns lífið. Þetta er hryllilegur atburður og ég er eins og aðrir felmtri sleginn. Ég fordæmi þessa árás Ísraelsmanna sem leiddi til dauða saklausra flóttamanna.

Samskipti gyðinga og þjóðanna á þessu svæði hafa löngum verið blóði drifin. Ofsóknir á hendur gyðingum hafa verið miklar öldum saman. Helför gyðinga með skipulagðri útrýmingu af hálfu nasista er einn versti glæpur mannkynssögunnar. Þessar ofsóknir á hendur gyðingum leiddu ásamt öðru til stofnunar Ísraelsríkis á landsvæði Araba 1947. Ofsóknir mega hins vegar aldrei kalla á réttlætingu fyrir ógnarstjórn sem beinist að saklausu fólki. Palestínumenn hafa verið kúgaðir af hálfu Ísraelsmanna mjög lengi og margir þeirra hafa þurft að lifa í flóttamannabúðum áratugum saman. Í þessum jarðvegi hafa ofbeldi og öfgar náð að festa rætur. Það lýsir ástandinu að æðstu menn eru ekki öruggir. Þar má minnast morðsins á Anwar Sadat Egyptalandsforseta árið 1981 og morðsins á Yitzhak Rabin nú fyrir skömmu. Báðir þessir menn féllu fyrir ofstækismönnum af eigin kynþætti.

Yasser Arafat, forseti Palestínumanna, er nú að berjast gegn öfgamönnum innan eigin raða. Árásir Hizbollah-samtakanna eru vitaskuld óafsakanlegar og ég fordæmi þær eins og önnur hryðjuverk. Það má aldrei svara ofbeldi með ofbeldi gagnvart almennum borgurum. Það er í andstöðu við viðhorf um umburðarlyndi og fyrirgefningu og skilar engum árangri til lausnar á deilumálum. Stefna hryðjuverkamanna er að láta árásir bitna á óbreyttum borgurum til að knýja stjórnvöld til breytinga á stefnu sinni. Stjórnvöld mega aldrei svara í sömu mynt, en það er einmitt það sem Ísraelsmenn hafa svo oft gert og nú hefur keyrt um þverbak.

Við Íslendingar þekkjum ekki mikið til íslamsríkja, menningar þeirra og sögu. Ísrael nýtur frekar samúðar hérlendis og við höfum oft litið svo á að barátta Ísraels við nágranna sína sé barátta Davíðs við Golíat. Því fer víðs fjarri. Ísrael hefur ætíð verið öflugri aðilinn með stuðningi Bandaríkjanna en áhrif vina Ísraels í Bandaríkjunum eru mjög mikil. Sýrlendingar gegna lykilhlutverki í þessari þróun en Líbanon er í reynd hluti Sýrlands. Það er löngu kominn tími til þess að Ísraelsmenn skili aftur herteknum svæðum Sýrlendinga, svo sem Golanhæðum og tryggi þannig varanlegan frið. Það er óhugnanlegt að hugsa til þess að nálægð við kosningar í Ísrael knýi á um enn meiri hörku af hálfu stjórnvalda þar og óbreyttir borgarar falli vegna kosningatæknilegra atriða.

Við Íslendingar þekkjum ekki harmleik styrjalda nema af afspurn. Í kirkjugörðum okkar stendur hvergi: Féll í stríði, en slíkar áletranir eru algengar um allan heim. Við erum þó ekki óhult. Það hefði getað verið íslenskur ferðahópur sem lenti í árásinni í Kaíró í síðustu viku.

Hryðjuverk hverfa ekki nema efnahagslegar aðstæður batni. Ofstæki er að aukast í heiminum og öfgahyggja ryður sér æ meira til rúms. Tækniþróunin gerir þjóðfélög sífellt vanmáttugri gegn beitingu ofbeldis, en þá reynir á styrkleika þjóðfélagsins að falla ekki í þá gryfju að svara í sömu mynt.

Ég tek heils hugar undir fordæmingu íslensku ríkisstjórnarinnar á árás Ísraelsmanna í Qana. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann muni beita sér fyrir á alþjóðavettvangi, t.d. innan Norðurlandaráðs, að komið verði á vopnahléi og skilyrðislausri framkvæmd friðarsamninga. Hyggst ríkisstjórnin taka málið til umræðu á öðrum vettvangi, t.d. hjá Sameinuðu þjóðunum? Hyggst ríkisstjórnin beita sér fyrir aukinni aðstoð við Palestínumenn? Og í fjórða lagi: Hyggst ríkisstjórnin endurmeta samskipti Íslendinga við stjórnvöld í Ísrael vegna árásarinnar í Qana?

Herra forseti. Hérlendis þarf mun meiri umræðu um utanríkismál. Við erum of upptekin við okkar litlu vandamál og hugsum ekki til þess að víða er fólk að deyja í heiminum vegna átaka, hungurs og ofbeldis í margs konar mynd. Það er skylda okkar að taka meiri þátt í örlögum samborgara okkar í öðrum löndum. E.t.v. opnast augu okkar fyrir þeim hryllingi sem er alls staðar í kringum okkur og við skynjum skyldu okkar að berjast alls staðar fyrir því að mannréttindi séu virt og að saklaust fólk sé ekki drepið.