Ástandið í Mið-Austurlöndum

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 15:25:35 (5078)

1996-04-22 15:25:35# 120. lþ. 124.91 fundur 260#B ástandið í Mið-Austurlöndum# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[15:25]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sá friður sem þegar hefur skapast í Austurlöndum nær hangir nú á bláþræði. Það ofbeldi sem gripið hefur verið til að undanförnu og leitt til fjörtjóns tuga saklausra borgara mun aðeins verða til þess að styrkja þau öfl sem vilja friðarferlið feigt. Krafan hlýtur því að vera sú að þeir aðilar sem standa að þessum vopnaskiptum geri þegar í stað vopnahlé og mál þessi verði markvisst tekin fyrir í friðarviðræðunum, sérstaklega Ísraels og Sýrlands annars vegar og Ísraels og Líbanons hins vegar. Það er enginn að draga í efa tilverurétt Ísraelsríkis né rétt þess til sjálfsvarnar. Það hefur ávallt verið grundvallarstefna íslenskra stjórnvalda allt frá stofnun Ísraels og svo er enn. Hins vegar vekja mikinn ugg þau harkalegu viðbrögð sem stjórnvöld í Ísrael hafa gripið til. Sigur vinnst aldrei með tilgangslausu ofbeldi.

Hryðjuverk eru vissulega ógn sem lengi hefur staðið eðlilegri þróun mála í Austurlöndum nær fyrir þrifum. Þau eru alheimsvandamál og ein helsta ógn gegn öryggi í heiminum í dag. Það þarf því að takast á við þessa ógnun í alþjóðlegu samhengi á þeim vettvangi sem hefur styrk og afl til að sigrast á hryðjuverkaöflunum. Fordæma ber hryðjuverk hvar sem þau eru framin, hvort heldur er í Ísrael, London eða Oklahoma svo dæmi séu tekin. Erfiðast er þó fyrir þau ríki sem þola þessa ógn að bregðast við hryðjuverkum vegna eðlis þeirra. Hættan er ávallt sú að viðbrögðin verði vatn á myllu þeirra sem slík hroðaverk fremja.

Á sama hátt er óverjandi fyrir stjórnvöld að sitja aðgerðalaus þegar saklausir borgarar verða blóðug fórnarlömb slíkra aðgerða. Engu að síður verður alltaf að gera þá kröfu að viðbrögð verði í samræmi við hryðjuverkin og beinist gegn þeim sem þau fremja. Þetta er vissulega oft erfiðleikum háð því ákveðin ríki styðja ljóst og leynt við bakið á hryðjuverkaöflum. Baráttan á ekki síður að beinast gegn þeim ríkjum sem heimila öfgaöflum að gera árásir eða veita þeim skjól. Það verður best gert með samræmdum aðgerðum á alþjóðavettvangi, svo sem fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna eða svæðisbundinna samtaka.

Höfuðatriði í Austurlöndum nær er nú á þessari stundu að halda áttum, hvika ekki af friðarferlinu sem nýtur enn víðtæks stuðnings í þeim heimshluta og um heim allan. Öfgasamtökum má ekki líðast að vega að rótum þessarar friðarviðleitni. Afskipti Íslands eru ekki mikið að vöxtum á þessu svæði. Við höfum þó ávallt reynt að styðja þær pólitísku aðgerðir sem miðast hafa við að koma á varanlegum friði í þessum heimshluta. Einnig höfum við lagt okkar af mörkum til stuðnings efnahagslegri uppbyggingu á hernumdum svæðum Palestínumanna. Nú hefur verið ákveðið að beina athygli okkar skipulegar að þessu starfi, þ.e. í Austurlöndum nær, m.a. með því að skipa sérstakan sendiherra með aðsetur á Íslandi til að sinna þessum málum.

Þeim fjórum spurningum sem til mín var beint vil ég fyrst svara tveimur þeirra, þ.e. hvernig þetta mál verði rætt á alþjóðlegum vettvangi. Það hefur verið samráð um málið milli Norðurlandanna. Á morgun verður samráðsfundur Norðurlandanna hjá Sameinuðu þjóðunum út af þessu máli. Arabaríkin hafa þegar farið fram á það að atburðirnir í Suður-Líbanon verði ræddir á fundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, en ekki hefur enn verið ákveðið hvenær sá fundur verður haldinn. Við munum að sjálfsögð eiga aðild að þeim fundi og auk þess verður þetta mál áreiðanlega rætt enn frekar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eins og verið hefur mörg undanfarin ár.

Að því er varðar aðstoð við Palestínumenn hefur þegar verið veitt um 90 millj. kr. til aðstoðar á þessu svæði, en engar frekari ákvarðanir hafa verið teknar um aðstoð að hálfu ríkisstjórnar enda kraftarnir nú beinst fyrst og fremst að Bosníu-Hersegóvínu sem er mjög hrjáð og þarf á aðstoð að halda um þessar mundir.

Að því er varðar fjórðu og síðustu spurninguna, hvort ríkisstjórnin hyggist endurmeta samskipti Íslendinga við stjórnvöld í Ísrael vegna árásarinnar fyrir nokkrum dögum þá er svarið nei. Við höfum stjórnmálasamband við Ísrael og því verður ekki breytt. Það er engum til hagsbóta að gera breytingar þar á. Hins vegar munum við nýta þetta stjórnmálasamband til þess að koma skoðunum okkar á framfæri og höfum gert það og fordæmt þessa árás.