Ástandið í Mið-Austurlöndum

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 15:36:19 (5081)

1996-04-22 15:36:19# 120. lþ. 124.91 fundur 260#B ástandið í Mið-Austurlöndum# (umræður utan dagskrár), GHH
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[15:36]

Geir H. Haarde:

Virðulegi forseti. Það er ekki ofmælt að atburðirnir sem orðið hafa að undanförnu í Mið-Austurlöndum, fyrir botni Miðjarðarhafs hafa sett alvarlegt strik í reikninginn að því er varðar friðarferlið langþráða sem komið var í gang á þessum slóðum. Atburðirnir þar suður frá eru ekki þess eðlis að hægt sé að afsaka það sem þar hefur gerst. Árásin á varðstöð Sameinuðu þjóðanna er óafsakanleg hvort sem hún var að yfirlögðu ráði eða fyrir mistök eins og margir telja.

En hverjir eru það sem standa á bak við hryðjuverkin sem Ísraelsmenn segja að séu undirrót aðgerða þeirra í Líbanon? Það eru auðvitað andstæðingar friðarferlisins. Þeir hafa verið nefndir í þessum umræðum, það gerði síðasti ræðumaður m.a., og þá er að finna bæði í röðum Palestínumanna, Araba og Ísraelsmanna, því miður. Því hverjir voru það sem drápu forsætisráðherra Ísraels? Það voru andstæðingar friðarferlisins í hans eigin landi. Nei, þetta mál er ekki einfalt og verður því miður ekki leyst hér í ræðustól á Alþingi Íslendinga. En það er rétt að Íslendingar eiga að beita kröftum sínum, takmarkaðir eins og þeir eru á þessu sviði, til að stuðla að því í þessum málum sem öðrum verði leitað allra friðsamlegra leiða til þess að binda enda á ófrið og ófarnað sem þarna hefur skapast. Okkar litla lóð á að leggjast á vogarskálarnar hvar sem er til þess að tryggja að svo megi verða.

Við skulum hins vegar varast að draga inn í þessar umræður vangaveltur stjórnmálaskríbenta í ýmsum löndum um að hér sé um að ræða innanlandspólitík í Ísrael, eða eins og hv. málshefjandi sagði: kosningatæknileg atriði í Ísrael. Það er of langt gengið að mínum dómi að ganga svo langt í ályktunum. En ríkisstjórn Íslands hefur fordæmt þennan atburð í Líbanon, hún hefur fordæmt árás Ísraelsmanna. Það var rétt ákvörðun. Það hafa fleiri þjóðir að sjálfsögðu gert og ég efast ekki um það að hvar sem ríkisstjórnin hefur aðstöðu til mun hún beita sér fyrir því að sest verði að samningaborði og friðsamlegra lausna leitað.